Ævintýraför frá Nepal til Íslands
Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur, fór í framhaldsnám í jógakennslu til Nepal og var þar þegar landið lokaðist vegna COVID-19. Brynja tók saman ferðasögu um heimferðina.
Brynja Bjarnadóttir er hjúkrunarfræðingur og starfar á slysa- og bráðamóttökunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún fór til Nepal í byrjun mars til að stunda framhaldsnám í jógakennslu. Þegar Brynja fór út var aðeins eitt nýgreint COVID-19 tilfelli á Íslandi.
HÉR MÁ SJÁ GREININA Í NÝJUSTU VÍKURFRÉTTUM - SMELLIÐ HÉR!
„Mig grunaði aldrei á þeim tíma að ástandið yrði svona ofboðslega slæmt og veiran myndi breiðast hratt út,“ segir hún í samtali við Víkurfréttir. Hátt uppí Himalaya-fjöllum með mjög takmarkað netsamband og ákveðin að vera lítið sem ekkert í símanum fyrir komu sína þangað þá fann Brynja þörfina fyrir að heyra mjög reglulega í fólkinu sínu heima í ljósi aðstæðna.
Brynja hefur tekið saman frásögn af ferðalaginu til Nepal og þeim ævintýrum sem hún lenti í við að komast aftur heim til Íslands. Sögunni deilir hún hér með lesendum Víkurfrétta.
Hlutirnir breyttust hratt og engra kosta völ
Í ósýktu landi á þeim tíma voru miklar ráðstafanir varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir. Af öllum fimm flugunum sem ég tók frá Íslandi og í gegnum fimm flugvelli á leið til Nepal þá var Nepal eina landið þar sem ég var hitamæld um leið og ég gekk frá borði. Rúmlega tveimur til þremur vikum eftir að ég lenti var tekin sú ákvörðun af ríkisstjórn Nepal að lokað yrði fyrir öll flug til landsins. Á svipuðum tíma lokaði Indland sem þýddi að við mætti búast að matur yrði af skornum skammti. Fréttirnar sem komu svo í kjölfarið voru að Nepal ætlaði að loka fyrir flug til landsins í tíu daga og því banni yrði aflétt 31. mars. Bannið skall á og við enn í Pokhara. Dagarnir liðu og hlutirnir breyttust hratt, banninu var svo framlengt til um miðjan apríl. Bæði kennarar og nemendur jóganámsins fengu boð frá sinni ríkisstjórn að best væri að halda heim og sömuleiðis ég. Við áttum engra kosta völ. Annars yrðum við föst í Nepal næstu mánuðina þar sem þjónusta lægi niðri, matur af skornum skammti og aðgang að ásættanlegri heilbrigðisþjónustu væri erfitt að fá. Á sama tíma var hugsað til heimamanna sem mögulega myndu þurfa hana miklu frekar en við.
Strandaglópar í orðsins fyllstu merkingu
Það var hægara sagt en gert að skipuleggja heimför. Í þrjá daga vorum við eins og lítil skrifstofa að finna leið út úr Nepal. Þarna var búið að banna allar samgöngur og þú máttir alls ekki fara út úr húsi nema að vera með sérstakt leyfi. Við vorum strandaglópar í orðsins fyllstu merkingu. Á þriðja degi, eftir að vera búin að hafa samband við öll utanríkisráðuneyti sem við höfðum aðgang að á þeim tíma: Íslands, Þýskalands, Austurríkis og Frakklands, með litlum árangri um hvernig hægt væri að komast í burtu þá fóru hlutirnir að ganga upp. Bæði Þýskaland og Frakkland ætluðu að senda neyðarflug til að sækja sitt fólk sem var fast í Nepal. Flugin færu frá Kathmandu til Doha og þaðan til Frankfurt eða Parísar.
Þetta voru miklar gleðifréttir. Núna var bara að komast til Kathmandu, það var klárlega erfiðasti parturinn af þessu öllu saman. Það var enginn viljugur að koma okkur þangað þar sem erfitt var að fá leyfi til að ferðast frá Pokhara til Kathmandu. Við höfðum fengið sent leyfisbréf frá okkar löndum. En það veitti eingöngu leyfi til að fara fótgangandi. Leyfið sem okkur vantaði þurfti að innihalda nafn bílstjórans, bílnúmer, hvert skal haldið, staðfesting á hótelbókun í Kathmandu og svo flugi þaðan úr landi. Enginn vildi taka áhættu að keyra okkur til Kathmandu án leyfis þar sem það þýddi að viðkomandi missti bílprófið, bíllinn yrði tekinn og allt að tveggja ára fangelsisvist.
Máttum alls ekki láta mikið á okkur bera ef við yrðum stoppuð
Loksins eftir margra klukkustunda bið fengum við sent leyfisbréf frá þýskum stjórnvöldum. Við höfðum misst af fyrri flugunum en ef við kæmumst í tæka tíð myndum við vonandi ná þeim seinni daginn eftir. Það sakaði alla vega ekki að reyna. Hópurinn minn var allur listaður í þau flug en það gekk erfiðlega að koma mér á þann lista. Ég var eini Íslendingurinn sem var að reyna að komast í burtu frá Nepal að ég best vissi. Bílstjórinn sem við vorum búin að vera í sambandi við kom fljótt og við þurftum að vera snögg. Leyfisbréfið sem við vorum með í höndunum var eingöngu ætlað Þjóðverjum. Ég, ásamt tveimur frönskum vinum mínum, máttum alls ekki láta mikið á okkur bera ef við yrðum stoppuð. Það gæti allt farið á versta veg því við vorum ólögleg í bifreiðinni. Þegar við keyrðum í gegnum Pokhara var eins og að keyra í gegnum draugabæ. Allt var lokað og fólk sást varla. Einstaka sinnum sá maður glitta í nokkra einstaklinga út á svölum sem störðu mjög hissa á bílinn. Útgöngubannið var strangt og það vissu allir.
Stoppuð af löggunni og með hjartað í buxunum
Við enda Pokhara stóð lögreglan vörð og stoppaði okkur. Ég og franska parið snarþögðum. Bílstjórinn sýndi leyfisbréfið og var svo kallaður inn í tjald til að gera grein fyrir sér og okkur og var þar í dágóðan tíma. Hann kom loksins til baka ásamt lögreglunni sem leit inní bílinn þar sem við sátum með hjartað í buxunum. Lögreglan kinkaði kolli hleypti okkur í gegn og við gátum andað léttar.
Löng bílferð var framundan á ójöfnum fjallavegum. Ferðin átti að taka átta klukkustundir en vegna engrar umferðar þá tók aksturinn fjórar klukkustundir. Ég held að við hefðum átt mjög erfitt með lengri bílferð þar sem loftræstingin virkaði ekki og við sem sátum aftast vorum við það að kasta upp þegar komið var til Kathmandu.
Engan mat að fá
Í Kathmandu voru göturnar sömuleiðis tómar eins og annars staðar. Við bókuðum gistingu til að ná hvíld áður en við myndum reyna á flugið daginn eftir. Tveir yndislegir drengir tóku á móti okkur á hótelinu. Engan mat var hægt að fá þar sem allt var lokað en þeir buðust til að steikja handa okkur hrísgrjón. Við vorum öll orðin ótrúlega svöng enda áliðið og við höfðum ekkert borðað síðan um morguninn. Hvít hrísgrjón með smátt skornu grænmeti ásamt tómatsósu var á boðstólnum. Við vorum afar þakklát þar sem við fundum að mikill kærleikur var lagður í matinn. Kvöldið var notalegt og við nutum þess að borða og spjalla frameftir þar sem þetta voru mögulega síðustu stundirnar okkar saman í bili.
Ekki á listanum og meinað að fara með
Snemma næsta morgun héldum við af stað. Skammt frá hótelinu var stoppistöð þar sem allir áttu að vera sóttir með rútum til að fara á flugvöllinn. Það var margt um manninn og fólk á vegum Þýskalands og Frakklands sáu um að hleypa ferðlöngum inn í rúturnar. Þegar röðin var komin að okkur kom í ljós að ég var ekki á listanum og því meinað að fara með. Þrátt fyrir það hélt ég ró minni og þar sem flugið á vegum Frakklands var örlítið seinna voru þau sótt á eftir Þjóðverjum. Ég, ásamt franska parinu, rölti til baka á hótelið þar sem við áttum smá tíma. Ég ætlaði að reyna að heyra í sendiráðinu í Kathmandu til að athuga stöðuna. Ég fékk þær upplýsingar að ekki gengi vel að koma mér á listann fyrir flugið. Við röltum aftur á stoppistöðina og tókum eftir að flestallir voru komnir í rúturnar. Ég ákvað því að tala við þann sem virtist vera yfir aðgerðum. Nærvera hans var mjög yfirveguð og ég fékk strax góða tilfinningu. Ég sagði honum frá stöðunni sem ég væri í og bað hann um hvort það væri möguleiki að fá að fljóta með upp á flugvöll og reyna að komast með fluginu. Flugið var þegar fullt eins og við vissum en hann var svo yndislegur og gaf mér leyfi að fara með upp á flugvöll. Þvílíkur léttir og miklir fögnuðir frá hópnum mínum þegar ég loksins mætti.
Þarna beið ég og vonaði það besta
Enn var ég ekki komin á lista fyrir flugið. Ég fékk þó að skrá mig á einhverskonar biðlista. Mér var gert það ljóst að fjölskyldur með börn, eldra fólk, Þjóðverjar og Frakkar væru í forgangi. Tíminn leið hægt og nafnakall fyrir flugið hófst. Þarna stóðum við og krossuðum putta um að ég kæmist með. Nöfn allra í hópnum mínum höfðu verið lesin upp og fengu þau boð að innrita sig fyrir flugið sem styttist ólmum í. Þrátt fyrir að líkurnar væru litlar að ég kæmist með þá vorum við öll mjög vongóð og ákváðum að kveðjast ekki þá í annað sinn.
Nafnakallið hélt áfram. Þarna beið ég og vonaði það besta. Maðurinn sem hafði verið svo elskulegur og leyft mér að fara í rútuna gekk til mín. Hann spurðist fyrir um blaðið sem ég hafði fyllt út og þurfti að hafa tilbúið ef ég skyldi komast með fluginu. Hann bað mig um blaðið og sagði að það væri miklar líkur að ég kæmist með. Hann fór með blaðið til konunnar sem kallaði upp nöfn farþeganna. Það leið smástund þar til nafnið mitt var kallað upp þá langsíðust. Ég hljóp inn beint í fangið á hópnum mínum og mig langaði helst að gráta úr gleði.
Langt ferðalag framundan
Eins og ég áður nefndi var flugið upphaflega fullt en þar sem greinilega fleiri en við áttu í erfiðleikum með að ferðast til Kathmandu þá losnuðu sæti. Langt ferðalag var framundan til Doha og þaðan til Frankfurt. Bryndís systir var svo ótrúlega hjálpsöm að vera í sambandi við borgarþjónustuna hérna heima og reyna að finna leið til að komast frá Frankfurt til Íslands þar sem ég væri föst í flugi næstu fimmtán klukkustundirnar. Þegar ég lenti í Frankfurt var allt klárt og Bryndís búin að liggja sveitt yfir að finna flugmiða heim.
Á stigi bugunar
Á stigi bugunar eftir annasama daga náði ég að hvíla mig á hóteli skammt frá flugvellinum. Morguninn eftir var ferðinni haldið til London. Flugvöllurinn var nánast tómur og allt gekk nokkuð hratt fyrir sig. Þegar ég steig um borð tók á móti mér hlýlegt bros sem ég skynjaði í gegnum andlitsmaskann. Flugfreyjan heilsaði mér á íslensku og benti á passann minn. Mikið var gott að finna fyrir rótunum sínum og það helltist yfir mig vellíðunartilfinning. Þessi yndislega flugfreyja hugsaði vel um mig og við áttum gott spjall sem ég þurfti svo sannarlega á að halda á þessum tímapunkti.
Spritt, handþvottur og maskinn á sínum stað
Aðeins eitt flug eftir! Flugið frá London og heim gekk vel fyrir sig. Ég trúði varla að þetta hefði allt saman gengið upp. Spritt, handþvottur og maskinn á sínum stað á leið í tveggja vikna sóttkví. Mamma var mætt upp á flugvöll til að taka á móti mér. Með tvo metra á milli okkar brast ég í grát yfir ástandinu og fannst mjög erfitt að geta ekki faðmað hana eftir mánaðar fjarveru.
Sonur minn, Jökull, var staddur hjá pabba sínum og stjúpmömmu þegar ég lenti. Hann var alveg að fara að verða stóri bróðir. Við vissum að við gætum ekki notið návistar hvors annars næstu tvær vikurnar þar sem mér var ætlað að vera í sóttkví. Við vildum passa okkur extra vel sérstaklega vegna þessa.
Ég fór fyrir utan hjá honum því mig langaði svo að sjá hann. Hann stóð í dyragættinni og ég út á miðri götu. Ég bað hann að halda utan um sjálfan sig loka augunum og ímynda sér að ég væri að faðma hann. Ég gerði það sama.
Einsömul í sveitina
Ég fór einsömul í sveitina til að klára mína sóttkví. Ég er svo lánsöm að fjölskyldan á fallegu jörðina Öxl á Snæfellsnesi þar sem ég naut einverunnar í tvær vikur. Dagarnir einkenndust af símtölum, gönguferðum, sjósundi og brimbretti. Ég bjó til kennslumyndbönd um öndunaræfingar og jóga sem ég deildi á Facebook. Ég undirbjó einnig opnun Jógahlöðunnar sem er staðsett á Öxl.
Náminu frá Nepal var ólokið vegna aðstæðna en ákveðið var að klára síðustu fjóra dagana í gegnum netmiðla. Það var gott utanumhald þegar ég byrjaði sóttkvína og var þá í raun auðveldara að vera í góðri rútínu. Ég stundaði mína jógaiðkun mjög skipulega og hélt nokkurn veginn í dagskrána mína eins og hún var í Nepal.
Nú svara ég kallinu með glöðu
Ég er hjúkrunarfræðingur og vinn á slysa- og bráðamóttökunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Fram að þessum tíma og undanfarin þrjú, fjögur ár hef ég verið þar í hlutastarfi ásamt öðrum vinnum eins og flugfreyjustarfi hjá Icelandair og jógakennslu, bæði hér heima og erlendis. Nú svara ég kallinu með glöðu að vinna á HSS eins mikið og mín er þarfnast. Þá mun ég vera í sjálfskipaðri sóttkví fyrir utan mínar vaktir og ætla svo sannarlega að njóta þess að vera með syni mínum þessa örfáu daga milli sóttkvíar og fyrsta vinnudagsins sem er næstkomandi föstudag.