Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Ævinlega þakklát að hafa fengið að kynnast skátahreyfingunni
  • Ævinlega þakklát að hafa fengið að kynnast skátahreyfingunni
Laugardagur 17. júní 2017 kl. 06:00

Ævinlega þakklát að hafa fengið að kynnast skátahreyfingunni

Fyrsta stúlknasveitin í heiminum í Heiðabúum

Skátafélagið Heiðabúar er 80 ára á þessu ári. Það voru átta ungir drengir sem komu saman 15. september 1937 og stofnuðu félagið. Einn af þeim var Helgi S. Jónson sem varð fyrsti félagsforinginn. Sett hefur verið upp sýning í Duushúsum þar sem farið er yfir sögu félagsins og ýmsir munir sýndir úr sögu þess. Ein af þeim sem hefur verið viðloðandi skátafélagið Heiðabúa í mörg ár er Eydís Eyjólfsdóttir eða Dísa eins og hún er yfirleitt kölluð. Við settumst niður með henni í Duushúsum og ræddum við hana um skátastarfið og sögu Heiðabúa.

Hver voru þín fyrstu kynni af skátunum?
„Ég var níu ára og bjó á Akureyri og gerðist ljósálfur í Valinkunni á Akureyri og var þar í tvö ár. Síðan varð ég skáti á Akureyri þar sem ég kynntist fyrst skátahreyfingunni og lærði ýmislegt.“ Eftir fermingu flutti Dísa til Keflavíkur með fjölskyldu sinni, en faðir hennar var ættaður af Suðurnesjum. „Ég fór strax í skátafélagið Heiðabúa, starfaði þar í fjögur til fimm ár. Það var mjög skemmtilegt og þá var maður að kynnast nýjum félögum og tók þátt í starfinu eins og það var á þessum tíma. Ég fór á skátamót og starfaði sem venjulegur skáti en var ekki orðin skátaforingi þá.“
Árið 1960 flutti Dísa út í Sandgerði og bjó þar í tíu ár. Skátafélagið í Sandgerði, Stafnbúar, var endurlífgað og voru það stelpur úr Keflavík sem voru búnar að vera í Heiðabúum sem stóðu að því. „Þær tóku við félaginu og það komu mörg börn í skátafélagið, ég var aðeins með í því. Þær fóru á skátamót á Þingvelli 1962 með stóran hóp. Ég fór með og þar kom Lady Baden Powel í heimsókn, sem þótti mjög merkileg.“
Árið 1970 flutti hún aftur til Keflavíkur og hefur búið hér síðan. „Það var svo 1974 sem það var komið á mál við mig og ég spurð hvort ég vildi koma í ljósálfastarfið í Heiðabúum. Það var mjög líflegt starf hjá skátafélaginu á þessum tíma og vantaði foringja. Það voru svona 50, 60 stelpur og strákar á fundum. Skátastarfið var mjög líflegt á árunum 1970 til 80.“
Það var svo árið 1977 sem Magnús Gunnarsson var kosinn félagshöfðingi Heiðarbúa, en Dísa var aðstoðarfélagsforingi í tvö ár. „Svo gerist sá sorglegi atburður að hann fellur frá, svo ungur og þá varð ég að taka við félaginu. Ég var félagsforingi í fimm ár og þetta voru fjörug ár. Það gekk mjög vel og það var mikið starf í félaginu. Ég hætti eftir þessi fimm ár sem félagsforingi og varð ritari félagsins í mörg ár og síðar gjaldkeri frá 1997 til 1998. Þá dró ég mig í hlé.“

Fjárhagur félagsins ekki góður í dag
Fjárhagurinn var mjög góður á þessum tíma. Félagið var með fermingarskeytasölu sem sá félaginu fyrir þeim fjármunum sem það þurfti.
„Það er gaman að segja frá því hvernig skeytasalan var þegar ég kom fyrst til Keflavíkur, þá voru tjöld um allan bæ á fermingardögunum. Í tjöldunum voru stöðvar sem tóku á móti óskum um fermingarskeyti og síðan voru þau prentuð og skrifuð í skátahúsinu. Það voru líka margir skrautritarar hjá félaginu og við sáum um að senda peningaskeyti. Þetta var mikil vinna fyrir skátana, en gekk mjög vel. Skeytasalan er hætt núna enda sendir fólk ekki skeyti, notar bara tölvurnar. Skátafélagið er ekki vel statt fjárhagslega núna. Það er kominn tími á viðhald á skátahúsinu. Það vantar nýja fjáröflunarleið til að afla fjár fyrir viðgerðum á húsinu. Ég hef lengi hugsað um hvernig hægt sé að hjálpa til við fjármögnun til að greiða fyrir lagfæringar sem eru nauðsynlegar á skátahúsinu. Það þarf að leggja nýtt rafmagn, skipta um glugga og setja upp nýja ofna og fleira. Ég og fjölskylda mín ætlum að stofna sjóð, afmælis-,styrktar- og framkvæmdasjóð við skátahúsið. Ég er að vinna í því að fá fólk í sjóðstjórn. Ég hef trú á að fyrverandi skátar, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar muni hjálpa skátafélaginu með þetta verkefni. Munum að margt smátt gerir eitt stórt. Ég hef trú á fyrrverandi skátum sem eru mjög margir. Skátafélagið hefur verið mjög öflugt frá því að skátafélagið var stofnað fyrir 80 árum. Skátahúsið er ein aðalástæðan fyrir því að skátastarfið hefur verið svona öflugt af því að skátarnir hafa alltaf haft sinn samastað.“

Hvenær var skátahúsið byggt?
„Það voru búin að vera mikil húsnæðisvandræði í mörg ár og oft var skipt um húsnæði fyrir starfið á ýmsum stöðum í bænum. Svo sögðu skátarnar að þetta gengi ekki lengur og það yrði bara að byggja hús. Þá fengu þeir lóð langt fyrir ofan bæinn þar sem kartöflugarðarnir voru og þar hófust framkvæmdirnar. Skátahúsið var vígt 18. október 1947. Það voru skátarnir sem stofnuðu félagið og velunnarar sem byggðu húsið. Allt var byggt með höndum og í sjálfboðavinnu. Árið 1973 var ákveðið að byggja við húsið þar sem það þótti of lítið og starfið í félaginu öflugt á þessum tíma. Það voru líka skátar og velunnarar sem gerðu það. Einnig komu peningar frá sjóðum og frá bænum sem studdi vel við málefnið. Skátahúsið er eingöngu í notkun fyrir skátastarfið. Þetta hefur verið mjög gott fyrir skátana að geta bara labbað þarna út og inn og verið þar þegar þeim hentar.“

Hvað er gert í skátunum?
„Skátastarfið er barna- og unglingastarf sem byggist á því að þau læri góðar reglur, það er skátaheitið og skátalögin. Tákn skátanna er skátabúningurinn og klúturinn. Þau læra að bjarga sér, stunda útilíf og læra hnúta. Þau læra að bera virðingu fyrir hvoru öðru og í skátastarfinu eru allir jafnir. Það er alltaf gaman að sjá skáta sem hafa verið í starfinu sem eru orðnir nýtir þjóðfélagsþegnar í dag. Í skátunum hafa þau kannski komið fyrst fram og lært að standa á eigin fótum. Það er mikilvægt fyrir börn að geta tjáð sig og gert það sem þau vilja. Það er mikið lán fyrir mig að hafa verið skáti og ég hef alltaf verið viðloðandi skátastarfið. Það hefur hjálpað manni og kennt manni margt í gengum tíðina.“

Á hvaða aldri má byrja í skátunum og geta allir orðið skátar?
„Ég held að það sé sjö eða níu ára en það er alltaf verið að breyta þessu. Nú eru það ekki lengur ljósálfar og yrðlingar heldur eru það drekaskátar, fálkaskátar og ýmislegt sem maður kann ekki nöfnin á. Það er starfandi „St. Georgs gildi“ fyrir fullorða. Þeir hafa alltaf stutt vel við skátastarfið og verið til staðar þegar þurft hefur. Þeir hafa saumað skikkjur þegar verið er að fara á skátamót. Við höfum keypt tjöld og síðast keyptum við þrjú tjöld þegar farið var á skátamót. Það var stór hópur sem fór á landsmót á Úlfljótsvatni og þau leituðu til okkar. Þegar verið var að byggja viðbygginguna þá voru þetta að mestu leyti eldri skátar sem komu að því. Það voru auðvitað breyttir tímar frá því áður þegar allt var steypt í höndum. Nú þurfti að kaupa ýmislegt og ýmsir verktakar gáfu vinnu og tæki.“

Nú er skátafélagið Heiðabúar 80 ára á þessu ári. Hvernig byrjaði þetta?
Það var Helgi S. Jónsson sem stofnaði félagið og hann var fyrsti félagsforinginn. Það voru átta ungir drengir sem komu saman 15. september 1937. Þeir voru allir mjög duglegir og virkir í mörg ár. Þeir eru allir látnir í dag. Margir urðu merkir borgarar hér í Keflavík en sumir fluttu til Reykjavíkur, þar á meðal Gunnar Eyjólfsson leikari. Hann var síðar skátahöfðingi Íslands 1988 var kosin þegar Heiðabúar voru á landsþingi. Þá urðum við vitni að því þegar hann tók við. Hann sagði: „Ég er Heiðabúi og verð allaf Heiðabúi“. Þá færðu Heiðabúar honum Heiðabúa-klút og merki. Hann var alltaf stoltur af því að vera Keflvíkingur. Magnús Jónsson tók við félaginu 1970. Hann stofnaði „St. Georgs gildið“ hér í Keflavík.

Og það voru tímamót fyrir stúlkur á fyrstu árum félagsins?
„Það var í Heiðabúum árið 1943 sem stúlkur fengu fyrst að taka þátt í skátastarfi í heiminum. Þetta var stúlknasveit sem hét Liljan og var þriðja sveit. Í henni voru bara stúlkur, en það hafði ekki verið hægt fyrir stúlkur að ganga í skátana því skátastarfið sem var bara fyrir drengi. Þær voru mjög virkar og héldu lengi vel hópinn og hittust oft. Ég man eftir því að við höfðum hóf fyrir þær þegar þær urðu 40 ára. Þá komu þær flest allar og það var mjög skemmtilegt. Við eigum fína mynd af hópnum sem er á sýningunni í Duushúsum. Þær eru nokkrar látnar. Þær áttu mjög gott starf í félaginu og „St. Georgs gildinu“.

Telur þú að það hafi orðið mikil breyting á skátastarfinu í þessi 80 ár?
„Það er ekki hægt að segja annað. Það hefur allt breyst í þjóðfélaginu og líka í skátastarfinu. Margir úr Heiðabúum hafa farið á Jamboree, sem er alheimsmót  skáta fyrir unglinga 14 til 18 ára. Það hafa þó nokkrir farið héðan. Ég var fjármálastjóri fyrir nokkra svona hópa sem fóru til Tælands, Chile, Hollands og Englands. Þá vorum við með verkefni fyrir unglingana og foreldrarnir komu líka að þessu. Þau unnu ýmis störf og unnu sér inn peninga. Það er gaman að segja frá því að þau fóru um áramótin til Tælands og Chile. Ég fékk kort frá einni stúlkunni sem sagði að ef ég hefði ekki hjálpað þeim við þessa ferð þá hefði hún aldrei komist. Þetta er toppurinn af skátastarfinu fyrir þessa krakka að komast á svona skátamót.“

Telur þú að skátastarf hafi ennþá erindi við börn og unglinga?
„Já alveg tvímælalaust, en það er svo mikið að gera hjá börnum og unglingum í dag. Það eru margir í íþróttum, allt krefst svo mikils tíma. En það eru ekki allir sem geta verið í íþróttum, þá er bara gott fyrir þau að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera í skátastarfi. Í dag eru um 50 starfandi í félaginu, það er líka svolítið mikið af eldri krökkum sem eru foringjar. Foreldrar eru að taka þátt í starfinu meira. Núverandi félagsforingi er Aníta Engley Guðbergsdóttir og hefur hún verið að virkja foreldra meira í starfinu."

Getur þú frætt okkur eitthvað um vörðuna fyrir utan skátahúsið?
„Varðan var vígð 23. september 1986 þegar Helgi S. Jónsson hefði orðið 75 ára og er varðan minnisvarði um Helga. Á vörðunni er lágmynd af honum í skátabúningi eftir Erling Jónsson. Þá var einnig haldin sýning í skátahúsinu á málverkum eftir Helga. Ekkja Helga vígði vörðuna og Steypustöðin í Njarðvík gaf áttavitann.“

Skáta skálarnir
„Jakob Árnason var einn af félagsforingjunum. Hann mætti á laugardagsmorgnum með nokkrum drengjum sem voru skátar. Þeir byggðu skátaskála sem hét Heiðarból, hann setti þeim verk fyrir daginn og þeir smíðuðu þennan skála. Skálinn var svo fluttur við Snorrastaðatjarnir og var þar í nokkur ár. Félagið átti land við Snorrastaðatjarnir en það var ekki í vegasambandi þarna. Því miður fékk skálinn ekki að vera í friði. Það var kveikt í, skemmdarverk framin og hlutum stolið. Það var svo í fyrra sem taka þurfti það sem eftir var af skálanum, sem var fokið út um allar jarðir. Það þurfti að fjarlæga efnið og koma því í burtu. Það var félag sem var til í að gera þetta fyrir 900 þúsund en félagið hafði ekki efni á því. Hafsteinn, maðurinn minn, kom þá með þá hugmynd að fá þyrlu til að taka efnið. Þá kom Ásmundur Friðriksson alþingismaður og sagði að hann gæti fengið Landhelgisgæsluna til að koma og taka þetta. Þetta endaði þannig að við fengum nokkra hrausta menn til að koma, skipstjóra, nokkra vini okkar og nokkra skáta. Það sem eftir var af þessum skála var rifið, því miður. Allir gáfu vinnu sína, þannig að þetta kostaði félagið ekki neitt. Félagið á ekki neinn skála í dag þar sem ekki er hægt að fá að vera með hlutina í friði. „St Georgs gildið“ átti líka skála sem var á Stafnesi sem Gildisfélagarnir byggðu. Hann fékk heldur ekki að vera í friði og það endaði þannig að Jakob Árnason keypti skálann og flutti hann í burtu."

Suma daga eru skátarnir áberandi í bæjarfélaginu
„Skátarnir gera ýmislegt í bæjarfélaginu og eru oft sjáanlegir. Ef við byrjum frá áramótum þá er það fyrst þrettándinn. Næst mætti telja sumardaginn fyrsta en þá er skrúðganga og guðsþjónusta. Á 17. júní aðstoða skátar í skrúðgarðinum þar sem þeir halda á stóra fánanum sem er dreginn að húni. Flaggstöngin er hönnuð af Helga S. Jónssyni og er þjóðfáninn stærsti fáninn á landinu. Það eru alltaf einhverjir bæjarbúar sem hafa unnið gott starf fyrir bæinn sem fá þann heiður að draga fánann upp. Ég fékk þann heiður að draga hann upp árið 2006. Það var ár sjálfboðaliðans og ég var valin í þetta verkefni sem mér fannst mjög mikill heiður. Á Ljósanótt eru skátarnir í sambandi við gönguna. Skátarnir voru með kofabyggð eða smíðavelli í mörg ár. Á þessu afmælisári hafa verið ratleikir, fjallgöngur og núna síðast smiðjur fyrir börn í Duus húsum. Þar gátu þau unnið leður, tálgað, lært hnúta og ýmislegt. Það er ýmislegt í gangi hjá félaginu á þessu afmælisári."

Getur þú sagt okkur eitthvað um sýninguna sem er í Duushúsum núna?
„Sýningin er í tilefni 80 ára afmælis félagsins. Félagið hefur eignast ýmsa merka muni og verðlaun í gegnum árin. Það er mikil saga á bakvið þetta félag. Við eigum fundargerðir frá stofnfundinum, fyrsta fundinum sem haldinn var í félaginu. Þessir munir hafa verið geymdir á byggðarsafninu og varðveist vel. Ef fólk vill koma og líta á sýninguna þá geta þeir séð þá sem stóðu vel að þessu félagi og hafa haldið því gangandi. Þeir sem komu að uppsetningu sýningarinnar eru Sigrún Ásta Jónsdóttir, Gunnhildur Þórðardóttir, Haraldur Haraldsson og ég.“

Gerir öllum gott að taka þátt í skátastarfinu
„Ég er ævinlega þakklát að hafa fengið að kynnast skátahreyfingunni, fengið að kynnast mörgum börnum og unglingum. Þetta eru allt vinir manns og maður hefur átt dýrmætar stundir. Gaman er að sjá hversu margir hafa spjarað sig vel. Þegar litið er til baka má sjá ráðherra, lækni, flugumferðastjóra, verkfræðing og fleiri. Ég held það geri öllum gott að taka þátt í skátastarfinu ef maður lifir eftir skátahugsjóninni, skátaheitinu og skátalögunum. Ég held að þetta séu einar bestu reglur sem hægt sé að lifa eftir,“ segir Dísa að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024