Ætlum að vera sæt, heppin og skemmtileg
Sandgerðingar mæta liði Mosfellsbæjar í Útsvari á föstudag.
„Við ætlum að vera sæt, heppin og skemmtileg,“ segir Bylgja Baldursdóttir, grunnskólakennari og einn þriggja liðsmanna Sandgerðisbæjar sem mæta liði Mosfellsbæjar í Útsvari á föstudag. Ásamt Bylgju eru í liðinu þeir Einar Valgeir Arason og Andri Þór Ólafsson. Hún segir þau sitt hafa hist tvisvar sinnum fyrir þessa viðureign. „Við erum góð saman og mjög gaman hjá okkur þegar við hittumst. Strákarnir eru mjög hressir.“
Dálítið stressandi fyrst
Lið frá Sandgerði hefur ekki tekið þátt í þessari keppni áður og spurðum við því Bylgju hvernig tilfinning það var að mæta í útsendingu í fyrsta sinn í haust. „Dálítið stressandi fyrst og eiginlega erfiðast að bíða eftir því að keppnin hefjist. Eigum að mæta rúmum klukkutíma áður. Það yrði betra að mæta bara í salinn og klára þetta,“ segir Bylgja og hlær. Ljósin sem skíni á þau séu svo heit og skær að keppendur séu púðraðir í bak og fyrir í auglýsingahléum.
Snýst fyrst og fremst um heppni
Bylgja segir þátttöku í Útsvari bara vera eitt af þessum krefjandi verkefnum sem hún tekst á við. En það sé alltaf gott að prófa eitthvað nýtt. „Þetta snýst um að stíga út fyrir kassann. Maður veit aldrei á hverju maður getur átt von og í raun ómögulegt að búa sig undir svona keppni. Allt er létt þegar maður veit svörin og allt erfitt þegar maður veit þau ekki. Annars tel ég að þetta snúist fyrst og fremst um heppni,“ segir Bylgja, sem hvetur Sandgerðinga og alla Suðurnesjamenn til fylgjast með og veita þeim stuðning. Hún segir nýjan og óvæntan lið verða í þættinum sem komi í ljós á föstudagskvöld.
Bylgja Baldursdóttir ásamt Einari Valgeiri Arasyni og Andra Þór Ólafssyni.