Ætluðum við að sjá Liverpool lyfta deildarmeistarabikarnum í fyrsta sinn í 30 ár!
Sigurður B. Magnússon, aðstoðarvaktstjóri hjá Flugvallarþjónustunni Keflavíkurflugvelli, er með fjölmörg áhugamál og grjótharður Liverpool-aðdáandi. Honum hefur tekist að hægelda lambalæri í sjö tíma á 180 gráðum. Lambalæri eru reyndar í uppáhaldi hjá honum og humar. Sigurður tók þátt í Netspjalli við Víkurfréttir.
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
Já, ég lít mjög björtum til sumarsins. Þetta getur ekki orðið mikið verra.
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
Áhugamál mín eru enski boltinn, ljósmyndun, video-gerð, eldamennska, ferðast með fellihýsið og ýmislegt fleira. Er með smá Apple-dellu og er alltaf með það nýjasta frá þeim. Ég er grjótharður Liverpool-aðdáandi og átti að vera á lokaheimaleiknum á móti Chelsea í byrjun maí. Þangað var ég að fara með 30 manna hópi og ætluðum við að sjá Liverpool lyfta deildarmeistarabikarnum í fyrsta sinn í 30 ár!
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
Uppáhaldsstaðurinn á Íslandi er án efa Seyðisfjörður en þar var ég oft á sumrin sem gutti hjá ömmu minni. Ég hef farið þangað á hverju sumri með börnin mín og þeim finnst það ómissandi hluti af sumrinu.
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
Ég stefni á að þvælast um landið með fellihýsið og fjölskylduna, elta góða veðrið og auðvitað eyða nokkrum dögum á Seyðisfirði.
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
Plönin voru svo sem þau sömu, fyrir utan Liverpool-ferðina í maí.
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
Undanfarnar vikur hef ég verið heima að jafna mig eftir axlaaðgerð og svo núna var að bætast við þetta yndislega brjósklos. Já, margt er öðruvísi, maður hittir ekki jafn margt fólk. Ég er búinn að vera meira og minna heima með dóttur mína sem er að verða fjögurra ára. Hún hefur ekki farið á leikskóla síðan um miðjan mars. Í vinnunni er líka mjög skrýtið ástand, fáar flugvélar og sérstakt andrúmsloft.+
– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?
Já, mér finnst fólk almennt virða reglurnar. Ég held að við séum bara að standa okkur nokkuð vel þar.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Síminn og Messenger er mest notað, alveg eins og fyrir þetta ástand.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Ef ég fengi eitt símtal í dag þá myndi ég sennilega hringja í börnin mín sem búa ekki hjá mér. Bara til að sjá hvernig þau hefðu það.
– Ertu liðtækur í eldhúsinu?
Ég reyni að gera eitthvað gagn í eldhúsinu en mitt mesta afrek þar var að hægelda lambalæri í sjö tíma á 180 gráðum. Það var gjörónýtt.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Mér finnst skemmtilegast að elda lambalæri eða humar. Svo er auðvitað mjög gaman að grilla í góðu veðri.
– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Uppáhaldsmatur er humar og lambakjöt.
– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?
Ég get alls ekki hugsað mér að borða grænmeti eða ávexti en það hef ég aldrei borðað.
– Hvaða morgunmatur verður oftast fyrir valinu?
Sennilega fæ ég mér oftast gult Cheerios í morgunmat.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Konan bakaði brúna köku fyrir nokkrum dögum síðan sem ég var ekki lengi að klára …
– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?
Myndi kaupa pasta, rjóma, piparost og bacon fyrir afganginn.
– Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?