Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ætluðu að kaupa sína fyrstu íbúð í Eyjum daginn fyrir gosið
Nýlega flutt til Eyja og hér heldur Gunnar á yngri syni sínum, Eiríki. Sigurbjörg með myndavélina um hálsinn en hún var og er dugleg að taka ljósmyndir. Það var hins vegar enginn tími til að taka myndir gosnóttina örlagaríku, enda þurfti að koma tveimur d
Föstudagur 25. janúar 2013 kl. 09:13

Ætluðu að kaupa sína fyrstu íbúð í Eyjum daginn fyrir gosið

Gunnar Sigfússon og Sigurbjörg Eiríksdóttir höfðu búið í Vestmannaeyjum í eitt ár þegar eldgosið hófst þar þann 23. janúar 1973. Daginn fyrir gosið áttu þau að skrifa undir kaupsamning að sinni fyrstu íbúð sem átti að verða í Eyjum en þar ætluðu þau að setjast að í a.m.k. fimm ár, enda næga vinnu að hafa í Vestmannaeyjum á þessum árum.

Það var atvinnuleysi og húsnæðisleysi sem rak hjónakornin til Vestmannaeyja árið 1972. Gunnar segir að enga vinnu hafi verið að hafa í hans fagi uppi á fastalandinu. Hann hafi því hringt og falast eftir vinnu í Eyjum og fengið vinnu hjá Vélsmiðjunni Þór, sem var aðallega í að smíða fiskvinnslutæki fyrir Sigmund. Gunnar fékk íbúð með vinnunni að Vesturvegi 34 hjá Hjálmari og Tótu á Enda. Þangað fluttu því Gunnar og Sigurbjörg með tvo unga syni sína á þessum tíma.

Fasteignasalinn komst ekki til Eyja

Fljótlega eftir að þau settust að í Vestmannaeyjum var farið að huga að því að eignast eigið húsnæði, því þau hafi séð fyrir sér að setjast að í Eyjum til fimm ára. Þau fundu nýuppgerða kjallaraíbúð að Kanastöðum við Vestmannabraut sem þau höfðu hug á að kaupa. Slæmt veður í Eyjum daginn fyrir gos kom hins vegar í veg fyrir að lögmaður frá fasteignasölunni kæmist frá Reykjavík og til Eyja þannig að þau gætu keypt íbúðina. Gosið var því mikill örlagavaldur í lífi þeirra hjóna. Hefðu þau keypt fasteign í Eyjum og fest þar rætur má gera ráð fyrir að lífið og framtíðin hafi þróast á annan veg.

Sigurbjörg vann á þessum tíma hálfan daginn í Vinnslustöðinni. Daginn fyrir gosið var veðrið svo brjálað að það var ekki stætt í Eyjum. Drengirnir tveir voru í leikskóla og Sigurbjörg tók Gunnar með sér í leikskólann þennan dag að sækja drengina, því veðrið var svo slæmt.

Þau fóru að sofa á sínum venjulega tíma kvöldið fyrir gosið en voru svo vakin um nóttina af húsmóðurinni á hæðinni fyrir ofan með þeim tíðindum að það væri farið að gjósa. Sigurbjörg vaknaði strax við fréttirnar en Gunnar var nú ekki alveg að meðtaka tíðindin og hélt að það væri bara eitthvað að brenna, því brunalúðurinn á slökkvistöðinni var í gangi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Sýn sem aldrei gleymist

Það var líka komið allt annað veður í Eyjum þegar gosið hófst. Algjört logn. Sigurbjörg fór með gömlu konunni sem átti heima á efri hæðinni upp í ris og þar sáu þær eldvegginn austast á eyjunni. „Þetta er sýn sem maður á aldrei eftir að gleyma,“ segir Sigurbjörg.

- Hvernig var upplifunin að vera í þessum aðstæðum þegar gosið er að byrja?

„Ástandið var mjög einkennilegt. Það var ekki hræðsla í fólki en það var einhver doði yfir öllu,“ segir Gunnar.
Gunnar fór á lögreglustöðina til að athuga með fyrirmæli um hvað ætti að gera. Þar var honum sagt að fylgjast með útvarpinu. Fljótlega var fólki tilkynnt að klæða sig vel og fara niður á höfn en skilja allar eigur sínar eftir. Þau klæddu því drengina og bjuggust til ferðar niður á höfn.

„Þegar við fórum út úr húsinu blasti við okkur sýn sem var mjög áhrifamikil. Við bjuggum í hornhúsi og við húsið okkar var einnig götustígur og þegar horft var upp með honum mátti sjá fjölda fólks streyma niður göturnar með barnavagna og annað. Gatan var alveg troðfull af fólki. Þetta var ekkert ósvipað því að horfa á árgangagönguna á Ljósanótt,“ segir Sigurbjörg og Gunnar bætir því við að honum sé minnisstæð ein kona í mannmergðinni sem var með lambalæri í hendinni og hafi greinilega ekki viljað skilja þá góðu máltíð eftir heima.

Gosið átti ekki að stoppa lánið

Fólk valdi sér báta þegar það kom niður á höfn. Þau völdu sér stórt og traust sjóskip að sjá, Lunda VE. Báturinn reyndist hins vegar vélarvana og það tók talsverðan tíma að koma vélinni í gang. Um borð í þessum báti var m.a. sparisjóðsstjórinn sem hafði samþykkt að veita þeim hjónum 200.000 króna lán fyrir útborgun í íbúðinni sem átti að kaupa daginn fyrir gos. Sparisjóðsstjórinn hafði nú ekki meiri áhyggjur af gosinu en svo að hann sagði Sigurbjörgu bara að koma á morgun með bónda sínum, því lánið væri klárt þannig að ganga mætti frá fasteignakaupunum.

Siglt yfir rauðglóandi hraun

Eins og Sigurbjörg lýsti hér að framan þá sá hún vel yfir gosið þegar hún horfði á það út um gluggann í risinu á húsinu þar sem þau bjuggu. Eldveggurinn blasti einnig við öllum á leið þeirra niður á höfn. Þau áttuðu sig einnig vel á umfangi gossins þegar siglt var út úr höfninni. Gunnar var úti á dekki þegar siglt var út og hann virti fyrir sér gossprunguna eftir eyjunni og hvernig hún var út í sjó. Hann segist hafa horft ofan í sjóinn og segir það ljóst að þarna á fyrstu tímunum hafi verið gos neðansjávar því báturinn hafi siglt yfir rauðglóandi hraun.

Þau lögðu af stað frá Eyjum kl. 04 um nóttina en klukkan var að verða ellefu að morgni þegar báturinn kom loks til Þorlákshafnar. Þar fóru þau með „rútu“ til Reykjavíkur þar sem þau þurftu að skrá sig. „Þar tóku leigubílar við og óku fólki frítt á áfangastað“. Það var líka eins gott, sagði Gunnar, því þau voru peningalaus og allslaus því allt hafði verið skilið eftir í Eyjum. Þau voru líka sannkallaðir flóttamenn á fastalandinu. Þau fengu þó inni hjá foreldrum Gunnars í Hafnarfirði og í Nýlendu á Stafnesi hjá foreldrum Sigurbjargar. Þau bjuggu í nokkra daga í herbergi í Hafnarfirði þar til þau fengu inni í íbúð á Faxabraut í Keflavík. Þau fengu að lokum inni í svokölluðu Viðlagasjóðshúsi sem byggð voru í Sandgerði og bjuggu þar í tvö ár eða þar til þau höfðu sjálf byggt sér þak yfir höfuðið. Viðlagasjóður byggði einnig hús í Garði, Keflavík og Grindavík.

Bjargað úr húsum þar til hraunið hóf að flæða inn

Þremur dögum eftir að gosið hófst fór Gunnar aftur til Eyja til að taka þátt í verðmætabjörgun með því að aðstoða vini og kunningja við að bjarga innbúi úr húsum áður en þau fóru undir hraun. Hraunið rann hægt og því var unnið inni í húsunum alveg þangað til hraunið braut sér leið inn um glugga. Gunnar segir að heilu innréttingarnar hafi verið skrúfaðar niður og verðmætum var komið í geymslur á öruggum stað í bænum. Þá voru búslóðir einnig fluttar með skipum upp á land og þar hafi fólk verið í margar vikur að endurheimta sína muni, enda skorti oft á merkingar. Þá komst nú heldur ekki allt til lands, segir Gunnar. Eftir fyrsta björgunarleiðangurinn fór Gunnar aftur til lands með fiskiskipi sem hafði verið troðfyllt af búslóðum. Ofan þilja höfðu verið bundnar niður frystikistur og ísskápar. Skipið hreppti mjög vont veður á leiðinni til Þorlákshafnar og fékk á sig a.m.k. þrjá hnúta. Þegar til lands var komið voru öll heimilistækin horfin, höfðu skolast í sjóinn í einhverju brotinu.

Íbúðin full af eiturgasi

Gunnar komst í hann krappan þegar kom að því að bjarga innbúinu úr íbúðinni sem þau hjón höfðu til afnota í Eyjum. Þegar hann opnaði útidyr íbúðarinnar flæddi á móti honum eitrað gasský sem hafði hlaðist upp í íbúðinni. Eitrað gas tengt eldsumbrotunum var til vandræða um tíma í Eyjum. Það safnaðist fyrir í lægðum og kjallaraíbúðum. Gunnari varð á að anda að sér óloftinu og átti erfitt með að ná andanum. Honum tókst einnig ekki að loftræsta íbúðina nægilega áður en hann hóf að bjarga úr henni innbúinu. Hann varð því að draga andann úti og halda niðri í sér andanum innandyra á meðan hann bar allt út, hlut fyrir hlut. Það var því ekki hægt að gera eins og í dag, að pakka öllu í kassa og flytja á einu bretti. Þegar innbúið var komið út úr íbúðinni varð Gunnar svo að bera það á bakinu niður á höfn.

Þrælavinna við að kæla hraunið

Gunnar átti eftir að taka enn frekari þátt í björgunaraðgerðum því hann réð sig í vinnu við kælingu á hrauninu og var við þau störf í tæpa tvo mánuði. Hann segir þá vinnu hafa verið þrældóm, enda gáfust aðeins 2-3 klukkutímar á sólarhring til að sofa en þess á milli var unnið baki brotnu við að dæla á hraunið. Gunnar vann við uppsetningu á vélum fyrir dælinguna og einnig að því að byggja undir lagnir sem dældu sjó á hraunið. Fjölmargir skósólar hafi bráðnað við þessa vinnu, því oft var staðið á þunnri hraunskorpu og í myrkrinu hafi mátt sjá allt rauðglóandi undir fótunum. Gunnar segir hitann oft hafa verið mikinn. Þannig var notast við jarðýtu sem ruddi leiðir fyrir vatnslagnir út í nýtt hraunið. Belti og tönn jarðýtunnar hafi oft verið orðin glóandi vegna hitans. Í fyrstu höfðu menn litla trú á þessari aðferð en svo kom að menn sáu árangur af kælingunni.

Gunnar segir þessa tvo mánuði sem hann vann við kælinguna hafa verið mikinn þrældóm enda hafi hann tapað 10 kílóum á þessum vikum. „Þegar ég kom heim var ég orðinn grindhoraður. Ég man eftir mynd sem tekin var af okkur hjónum þegar við fórum á dansleik eftir að ég kom heim. Það er ekki sjón að sjá mig á þeirri mynd og ég passa engan veginn í jakkafötin,“ segir Gunnar og hlær.

Þau Gunnar og Sigurbjörg hugsuðu aldrei um það að flytja aftur til Eyja eftir gos. Þau ákváðu að festa rætur í Sandgerði „á heimaslóðum Sigurbjargar“. Þeim fannst þau vera nokkuð innilokuð í Eyjum og samgöngur ótraustar. Þó vilja þau taka fram að þeim hafi liðið vel í Eyjum og þær eigi alltaf sérstakan sess hjá þeim. En stórfjölskyldan bjó jú á fastalandinu. Örlögin voru þau að vont veður kom í veg fyrir það að þau keyptu íbúðina daginn fyrir gosið. Þau segja þó erfitt að átta sig á hvað hefði gerst hafi þau keypt íbúðina. Vegna gossins þá voru þau ekki bundin af kauptilboðinu. Þegar Eyjamenn fóru aftur að streyma út í eyjuna þegar ljóst var að hún yrði byggð að nýju, þá seldist íbúðin á uppsprengdu verði, því það var sannarlega skortur á íbúðarhúsnæði þegar svo margar eignir voru komnar undir hraun og ösku.

Vesturvegur 34, þar sem Gunnar og Sigurbjörg bjuggu þegar gosið hófst í Heimaey. Sigurbjörg fór upp í risið til að sjá yfir gosstöðvarnar. Sýn sem aldrei gleymist, segir hún í viðtali við Víkurfréttir.

Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson