Ætlar að drulla sér vestur
Víkurfréttir spurðu Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar. Arnar Már Halldórsson er 28 ára Skrifstofustjóri hjá H.Pétursson ehf. frá Garðinum. Arnar ætlar vestur á Ísafjörð um helgina en þar ætlar hann að reyna fyrir sér í Mýrarboltanum ásamt félögum sínum.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
„Við erum nokkrir félagar sem ætlum að prófa þennan umtalaða Mýrarbolta á Ísafirði. Aldrei prófað það og maður hefur heyrt svo margar góðar sögur af þessu að það er kominn tími á þetta.“
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
„Þær hafa flestar verið mjög skemmtilegar og eftirminnilegar á sinn hátt,en ef ég mundi þurfa að velja eina þá væri það þegar ég fór óvænt á þjóðhátíð. Ég var rifinn uppúr rúminu á laugardegi, skipað að taka mig til og það væru 20 mínútur þar til að félagi okkar færi með okkur í loftið. Þar sem það voru þyngdartakmörk á vélinni þá máttu við bara taka með okkur það allra heilagasta. Eftir á að hyggja hefði vettlingar, húfa og jafnvel peysa verið betri hugmynd en bara bjór, en það hefði ekki gert þessa helgi að því sem hún varð.“
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
„Í raun þarf bara vinalegt andrúmsloft, góðan félagsskap og útilegu stemmingu, og þá er ég sáttur, en gott veður skaðar aldrei.“