Ætla aldrei að hætta að hugsa um Harry Potter
Galdrastrákurinn varð fertugur 31. júlí og í tilefni þess var sett upp sýningin „Galdraheimur bókmenntanna“ í Bókasafni Reykjanesbæjar þar sem hægt var að skoða ýmsar galdraverur eins og drauga og húsálfa.
Í galdraheiminum er hægt að skoða ýmsar galdraverur eins og dreka og marfólk. Á sýningunni er stórt safn muna auk bóka sem tengjast galdraheiminum. Boðið er upp á sjálfspróf þar sem allir geta fundið út hvaða heimavist þeir tilheyra.
Harry Potter hefur heillað marga í gegnum tíðina og Víkurfréttir fréttu af tveimur stelpum í Reykjanesbæ. Þær heita Ylfa Vár Jóhannsdóttir, þrettán ára, og Sunna Dís Óskarsdóttir, tólf ára, og halda mikið upp á Harry Potter. Við fengum þær til að svara nokkrum spurningum um söguhetjuna og þær gerðu gott betur með því að mæta í búningum úr sögunum.
SUNNA DÍS ÓSKARSDÓTTIR
– Hver er uppáhaldspersónan
þín í Harry Potter?
Uppáhaldspersónan mín er Ginny því hún er rauðhærð eins og ég.
– Hver er uppáhaldsbókin þín?
Harry Potter og dauðadjásnin. Hún er það af því að vondi kallinn, Voldemort, deyr.
– Í hvaða heimavist ert þú?
Heimavistin mín er Gryffindor því allar aðalsögupersónurnar eru í heimavistinni og allir í henni eru mjög hugrakkir.
– Hvað er skemmtilegast við Harry Potter?
Skemmtilegast við Harry Potter eru töfrarnir og hvernig höfundurinn bjó þetta til fyrir börnin sín. Líka hvernig þetta varð svo vinsælt.
– Hvað gerir þú núna þegar
Harry Potter er búinn?
Harry Potter er aldrei búinn.
Ég get hlustað á bækurnar og horft á myndirnar aftur og aftur.
YLFA VÁR JÓHANNSDÓTTIR
– Hver er uppáhaldspersónan þín í Harry Potter?
Hermione Granger og Luna Lovegood eru í mestu uppáhaldi hjá mér.
Hermione er mjög gáfuð og sterk í sér en Luna er talin vera mjög skrýtin en mér finnst það gott að hún sé skrýtin.
– Hver er uppáhaldsbókin þín?
Harry Potter og Fönixreglan sem er fimmta bókin. Það gerist mjög margt í henni og hún er mjög skemmtileg.
– Í hvaða heimavist ert þú?
Heimvistin sem ég er í er Gryffindor. Ég er búin að taka fullt af prófum um það og ég er alltaf þar. Ég tengist henni best.
– Hvað er skemmtilegast við Harry Potter?
Hvernig þetta er allt annar heimur en samt er þetta eins og þetta sé í alvörunni því muggar, sem er fólk sem er ekki með töfra, vita ekkert um það og flest okkar eru muggar (svo þau vita ekkert um það svo það gæti verið til).
– Hvað gerir þú núna þegar Harry Potter er búinn?
Ég les bækurnar aftur og aftur. Svo eru komnar aukabækur sem ég les og svo hlusta ég líka á þær. Ég held ég muni aldrei hætta að lesa eða hlusta á Harry Potter af því það er allt skemmtilegt.