Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ætla áfram að biðja um pulsu - en skrifa pylsu
Villi lætur af hendi úrvals fæðu til eins besta viðskiptavinar Pulsuvagnsins, Gísla Jónassonar. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 27. janúar 2021 kl. 14:00

Ætla áfram að biðja um pulsu - en skrifa pylsu

„Jú, þetta þótti svaka mál á sínum tíma,“ sagði Villi í Pulsuvagninum, er hann var spurður hvers vegna hann væri með „u“ í pulsunum sínum en ekki „y“ eins og flest allir hafa það. „Ég talaði við Guðna Kolbeins, hinn mikla íslenskufræðing í Háskólanum, og spurði hann út í þetta, og hann svaraði því á þá leið að hann myndi halda áfram að biðja um pulsu en aftur á móti skrifa pylsu. Hérna biðja allir um pulsu með „ui“, og til hvers þá að skrifa „pylsuvagninn“ í stað „pulsuvagninn“? sagði Villi, eða Vilberg Skúlason, eins og hann heitir nú fullu nafni.

Villi byrjaði með vagninn 1. apríl 1980 og var opnunartími óreglulegur til að byrja með, en traffíkin jókst alltaf og Villi ákvað að snúa sér alfarið að þessu, og í dag er hann á fullu í pulsubisness og er með opið á hverjum degi frá kl. 11.30–21 virka daga en lengur um helgar, eins og flestir Suðurnesjamenn nú orðið kannast við, enda vinsælt að koma viö hjá Villa eftir böllin og fá sér í svanginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Jú, það er alltaf nóg að gera og traffíkin hefur aukist með hverju ári þennig að ég þarf ekki að kvarta. Um helgar er ég alltaf með einhvern með mér til aðstoðar, því eftir böllin sérstaklega myndast oft örtröð hér við vagninn.“

Eru aldrei nein læti?

„Það verður að segjast eins og er, að unga fólkið í dag er mjög til fyrirmyndar. Hér hefur lögreglan aldrei þurft að hafa nein afskipti af ólátum í fólki og ég er mjög ánægður á meðan svo er,“ sagði Vilberg Skúlason að lokum, því ekki vildi blaðamaður tefja hann frá störfum, því það var kominn kúnni í lúguna sem vildi fá „eina með öllu.“ - pket.

VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 1. september 1983.