Æskulýðsnefnd og jólasveinar safna fyrir Umhyggju
Æskulýðsnefndin í Garði tók saman höndum með jólasveinunum á aðfangadag og safnaði peningum fyrir Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum.
Síðustu ár hefur slík fjársöfnun átt sér stað á aðfangadag á vegum æskulýðsnefndarinnar, en hingað til hefur ágóðinn runnið í æskulýðsstarf í sveitarfélaginu. Í ár var ákveðið að fara aðra leið og má sannarlega segja að það hafi skilað góðum árangri.
Alls söfnuðust um 45.000 kr sem jólaveinarnir og Katrín Ruth Þorgeirsdóttir, einn aðstandenda söfnunarinnar, afhentu í höfuðstöðvum Umhyggju á dögunum. Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri veitti fjármununum viðtöku fyrir hönd Umhyggju.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Katrín Ruth að vel hafi verið tekið á móti þeim og jólasveinasöfnunin yrði örugglega aftur næsta ár.
Fyrir þá sem gætu hugsað sér að styrkja Umhyggju er reikningsnúmer þeirra: 0101-15-371646 og kennitala: 691086-1199.
VF-Mynd 1: Hilmir Heiðar Lundevik, frá afhendingunni. Mynd2: frá söfnuninni.