Æskudraumur að Trúbrot spili í Stapa
- Trommusettið sem spilað var á við upptökur á Lifun prýðir Rokksafnið
Tónlist hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar Trúbrots verður flutt á tónleikum í Stapa á morgun, föstudaginn 7. október. Á tónleikunum verður platan Lifun flutt er hún er af mörgum talin eitt helsta meistaraverk íslenskrar tónlistarsögu. Að sögn Tómasar Young, framkvæmdastjóra Hljómahallar, er það æskudraumur marga þar innanhúss að Trúbrot komi fram í Stapa. Til að mynda hefur hann sjálfur lengi átt sér þann draum, sem og hljóðmaður Hljómahallar sem lengi hefur dreymt um að vera hljóðmaður á tónleikum með Trúbroti. „Það er því mjög gaman að þessi goðsagnakennda hlómsveiti spili hér,“ segir Tómas.
Platan Lifun verður flutt í heild sinni á tónleikunum auk annarra laga Trúbrots. Í ár eru 45 ár síðan Lifun kom út en hún var tekin upp í London. Tómas segir ljóst að meðlimir Trúbrots hafi verið á undan sinni samtíð. Gunnar Jökull Hákonarson, heitinn, var trommuleikari Trúbrots og tók hann trommusettið sitt með sér til London í upptökurnar og segir Tómas það hafa verið afar fátítt á þeim tíma að tónlistarmenn flyttu svo stór hljóðfæri á milli landa. Trommusettið góða prýðir nú Rokksafnið og geta gestir litið á það á leiðinni á tónleikana.
Gunnar Þórðarson og Magnús Kjartansson, meðlimir Trúbrots, skipa hljómsveitina, ásamt góðum hópi tónlistarmanna, þeim Stefáni Jakobsssyni, Andra Ólafssyni, Stefaníu Svavarsdóttur, Eyþóri Gunnarssyni, Gulla Briem, Pétri Grétarssyni, Friðrik Karlssyni og Jóhanni Ásmundssyni.