Æft af krafti hjá Leikfélagi Keflavíkur
Barnaleikritið „Með álfum og tröllum“verður frumsýnt í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17 á laugardaginn, en sýningin hefst klukkan 15.
Höfundur verksins er Steffan Westerberg en hann hefur skrifað mörg leikrit fyrir börn. Þýðandi er Úlfar Hjörvar en leikstjóri er hinn landsþekkti leikari Steinn Ármann Magnússon, en þetta er annað verkefni hans hjá Leikfélaginu. Með álfum og tröllum fjallar um ungan dreng Jóakim sem fær ævintýrabók að gjöf og á einhvern ævintýralegan hátt dregst hann inn í söguna og lendir í ýmsum ævintýrum. Jóakim er leikinn af Atla Kristjánssyni. Í ævintýrinu koma fram hinar ýmsu verur s.s tröll, álfar, prinsessa, álfkona og aðrar skemmtilegar persónur úr heimi ævintýranna. Leikarar eru á öllum aldri og segjast þeir aldrei hafa kynnst jafn skemmtilegu leikriti fyrir börn. Sviðsmyndin sem er unnin af hluta leikaranna er hin glæsilegasta og sömu sögu má segja um búningana en þeir eru einnig hannaðir og unnir af leikurunum sjálfum. Þarna er á ferðinni ævintýri sem öll fjölskyldan ætti að hafa gaman af að sjá.
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Litið við á æfingu hjá Leikfélagi Keflavíkur í gær þar sem standa yfir æfingar á barnaleikritinu Með álfum og tröllum.