Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Æft af kappi fyrir tónlistarveislu
Þriðjudagur 25. september 2007 kl. 18:10

Æft af kappi fyrir tónlistarveislu

Tónlistarfólk æfir nú af kappi fyrir mikla tónlistarveislu sem haldin verður í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ þann 5. október nk. Þá verður fagnað þeim áfanga að nú í haust eru 50 ár frá því  tónlistarkennsla hófst með formlegum hætti í Reykjanesbæ en þ. 24. okt. 1957 var Tónlistarskólinn í Keflavík stofnaður. Af þessu tilefni mun Sinfóníuhljómsveit Íslands halda stórtónleika í Reykjanesbæ með þátttöku heimamanna. Meðfylgjandi mynd var tekin nú síðdegis þegar lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var við æfingar í tónlistarskólanum við Austurgötu í Keflavík.

Á tónleikunum mun Karlakór Keflavíkur syngja, við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nokkur lög úr efnisskrá sem kórinn flutti sl. vor í Stapanum við miklar vinsældir, Davíð Ólafsson syngur einsöng, Sigurður Flosason leikur verk fyrir saxófón og sinfóníuhljómsveit eftir Veigar Margeirsson, Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur útsetningar Herberts H. 
Ágústssonar  á íslenskum þjóðlögum fyrir lúðrasveit og sinfóníuhljómsveit auk þess sem flutt verða hljómsveitarverk m.a. eftir Eirík Árna Sigtyggsson.

Styrktaraðili tónleikanna er Sparisjóðurinn í Keflavík, sem fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir, og aðal hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Rumon Gamba, mun halda um tónsprotann.

Nánar í Víkurfréttum á fimmtudaginn og einnig í næstu viku.

 

Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024