Æfa jóga úti á Garðskaga
Þær voru hressar konurnar eftir að hafa gengið rösklega í klukkustund, gert mjúkar standandi jógaæfingar og nokkrar hláturjógaæfingar undir dyggri handleiðslu Mörtu Eiríksdóttur, jógakennara. En Marta ákvað, í ljósi samkomubanns og einnig vegna þess að nokkrir jóganemendur hennar vildu ekki æfa lengur innandyra vegna smithættu, að fara út með námskeið sín. Við tókum púlsinn á Mörtu varðandi þetta.
Hreyfing styrkir ónæmiskerfið
„Í vetur hafa fjölmargar konur verið að æfa jóga hjá mér og náð flottum árangri. Þegar kórónaveiran fór að berast hingað til lands urðu sumar konur óöruggar með að æfa innandyra vegna smithættu og vildu hætta að æfa. Það fannst mér ómögulegt og datt í hug að við myndum æfa áfram jóga en fara út undir bert loft, því ef það er eitthvað sem styrkir ónæmiskerfið þá er það að halda áfram að hreyfa sig. Ég ákvað að auglýsa þessar gönguferðir með jógaívafi á Facebook fyrir þær sem hafa verið hjá mér og alla aðra sem vilja vera með okkur, byggja sig upp og styrkja á þessu fjögurra vikna námskeiði sem hófst um leið og samkomubannið hófst. Það er frábært að ganga í vorloftinu, æfa jóga í leiðinni og gera nokkrar hláturjógaæfingar. Allt þetta styrkir ónæmiskerfið og gerir okkur glaðar í sinni á meðan þetta furðulega ástand ríkir.“
Þær æfa jóga undir berum himni
Unnur Karlsdóttir og Kolbrún Jóna Pétursdóttir eru þátttakendur á útijóganámskeiðinu en þær höfðu þetta að segja um námskeiðið:
„Yndislegt að taka þátt, ég fann fyrir léttleika og gleði í hjarta,“ sagði Unnur og Kolbrún Jóna bætti við að það væri æðislegt að æfa úti í náttúrunni, gera jógaæfingar og einnig frábært hafa jógakennara sem hugsar í lausnum.“