Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Æðislegt að moka skít og fara á hestbak í lok vinnudags
Helga Hildur og Gunnar kunna best við sig á hestbaki.
Föstudagur 23. desember 2022 kl. 13:05

Æðislegt að moka skít og fara á hestbak í lok vinnudags

Helga Hildur Snorradóttir er með jólahefðir, skreytir piparkökur og bakar sörur.

„Það er æðislegt að fara á hestbak í lok vinnudags, mæta í hesthúsið, moka skít og fara svo á bak. Það er mjög gefandi að vera með dýrunum. Þau eru mjög næm,“ segir Helga Hildur Snorradóttir, skólastjóri Holtaskóla í Reykjanesbæ.

Helga Hildur og Gunnar Eyjólfsson, maður hennar, eru mikið hestafólk og líf þeirra snýst mikið um hesta og hestamennsku. Helga segir að ný reiðleið í bæjarfélaginu, svokallaður trippahringur, hafi verið lýst upp og komi sér vel á dimmari tímum. „Svo erum við líka með góðar reiðleiðir á Mánagrund og ekki má gleyma reiðhöllinni okkar,“ segir Helga sem svarar hér jólaspurningum Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig var árið 2022 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

„Árið er búið að vera mjög viðburðarríkt. Það fer alltaf mikill tími hjá okkur í hestamennskuna en við förum í hesthúsið á hverjum degi. Við ferðuðumst töluvert á árinu, fórum til Ítalíu og Króatíu með vinnufélögum og í hjólaferð við Balatonvatn í Ungverjalandi með saumaklúbbnum mínum og síðan til Tenerife með góðum vinum. Þessar ferðir voru allar frábærar á sinn hátt. Hjólaferðin er eftirminnilegust þar sem við vorum í einstökum félagsskap Lukkutrölla og með frábæra fararstjóra en það voru þau Anna Lea og Brói sem skipulögðu ferðina fyrir okkur.“

Ert þú mikið jólabarn?

„Já, já svona passlega.“

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

„Við setjum jólatréð upp í kringum 20. desember.“

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminniningar?

„Ég man sérstaklega eftir jólaballi Íslenskra aðalverktaka sem amma Halla bauð okkur alltaf á þegar ég var barn. Það voru alveg sérstaklega vegleg og eftirminnileg jólaböll, man samt aðallega eftir því hvað nammipokinn var stór.

Síðan er skemmtileg minning frá aðfangadegi. Gunni fór með krakkana að sækja jólapakkana og keyra út jólakortin en ég var heima að elda hamborgarhrygginn og gera og græja. Þegar krakkranir komu síðan heim var Gunnhildur dóttir mín heldur betur glöð þegar hún fann matarlyktina í húsinu og hrópaði: Loksins eru bjúgu í matinn.“

En skemmtilegar jólahefðir?

„Við stórfjölskyldan hittumst á aðventunni hjá foreldrum mínum og  og skreytum piparkökur og gerum stundum piparkökuhús. Fáum okkur heitt súkkulaði og góðar kræsingar. Síðan hittumst við líka og bökum saman sörur.“

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

„Það er bara allur gangur á því, fer eftir því hvað ég er hugmyndarík. Núna á ég líklega eftir að kaupa helminginn af gjöfunum en veit ekkert hvað ég á að kaupa.“

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

„Við fjölskyldan erum öll saman á aðfangadagskvöld og ég get eiginlega ekki hugsað mér jólin án barnanna. Jólin hjá okkur byrja klukkan sex þegar kirkjuklukkurnar á Ruv hringja inn jólin. Þá knúsumst við og óskum hvort öðru gleðilegra jóla.“

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

„Það er klárlega bílskúrshurðaopnari. Hver gefur dóttur sinni bílskúrshurðaopnara í jólagjöf? Hann kom reyndar að góðum notum loksins þegar hann var settur upp og virkar enn í dag, tuttugu og eitthvað árum seinna.“

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

„Nei það held ég ekki.“

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

„Við erum alltaf með hamborgarhrygg á aðfangadag og heimatilbúinn ís í eftirrétt. Krakkarnir mega ekki heyra á það minnst að hafa eitthvað annað í matinn.“

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

„Ég ætla bara að njóta þess að vera í kærkomnu fríi ásamt því að fara í ræktina og í hesthúsið og hitta ættingja og vini.“