Æðislegt að búa í Reykjanesbæ
segir nýbúinn og söngvarinn Sverrir Bergmann
„Ég flutti hingað 15. ágúst 2018. Konan var að vinna upp á velli og mig var búið að langa til þess að flytja úr borginni í einhvern tíma. Það var því upplagt að flytja hingað,“ segir hinn kunni tónlistarmaður Sverrir Bergmann einn margra nýbúa í Reykjanesbæ sem fagnar 25 ára afmæli á árinu 2019.
Hvernig líkar þér að búa hér?
„Mér finnst æðislegt að búa hér. Ég fæ aftur einhverja svipaða tilfinningu og þegar ég bjó á Sauðárkróki í æsku.“
Hefurðu eignast marga vini hérna?
„Já, ég hef kynnst fólkinu sem býr hér í kringum mig. Einnig hef ég kynnst mikið af öðru frábæru fólki. Þetta eru allt saman öðlingar.“
Hvernig upplifirðu bæjarstemninguna?
„Fólki þykir vænt um hvort annað og hollur rígur er á milli íþróttafélaganna sem myndar ákveðna stemningu. Svo kemst ég nú vonandi meira inn í hlutina eftir því sem ég bý hér lengur.“
Er gott að ala upp börn hér?
„Ég á engin börn en fyrsta er á leiðinni. Þannig að ég get ekki svarað því alveg strax. En ég er sannfærður um að það sé frábært!“
Hvað finnst þér um möguleika til útivistar á Suðurnesjum?
„Það eru endalausir möguleikar til útivistar á Suðurnesjum. Gríðarleg náttúra, nóg af stígum og öðru. Rokið getur gert þetta strembið á köflum en það er þannig allstaðar.“
Hvað finnst þér best við bæinn?
„Fólk heilsar hvort öðru og býður góðan daginn.“
Hvað með verslanir, ertu duglegur versla í heimabyggð, mat, föt, sérvöru o.fl.?
„Ég reyni eftir mesta megni að versla í Reykjanesbæ og tekst það í nánast öllum tilfellum. Hef alveg lent í því að þurfa að fara í höfuðborgina þar sem hlutir fengust ekki hér en það ætti nú að vera lítið mál að laga það.“
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
„Höldum áfram að vera góð við hvort annað.“