Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Æðislegar jólasmákökur og jólakrans með ostum
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 4. desember 2022 kl. 08:21

Æðislegar jólasmákökur og jólakrans með ostum

Jólauppskriftir Gígju

„Ég held ég sé nokkuð mikið jólabarn, ég elska allt sem tengist jólunum. Það er eitthvað svo mikill sjarmi yfir öllu í desember og ég upplifi ekki neitt jólastress eins og margir,“ segir Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, flugfreyja, varabæjarfulltrúi og matarbloggari. 

Gígja segist hafa gaman af því að sækja tónleika og hitta fjölskyldu og vini í kringum jólin. „En svo viðurkenni ég alveg þegar það er komið gott af því góða og tek niður jóladótið strax 1. janúar og fer beint í ræktina - nýtt ár, ný ég og allt það,“ segir Gígja. Þá segir hún það dásamlegt að upplifa jólin og gleðina sem fylgja þeim í gegnum augu barna sinna. „Við erum svona ennþá að vinna í því að skapa okkar eigin hefðir þar sem við erum komin með börn. Það er dásamlegt að upplifa jólin og gleðina í gegnum þeirra augu. Við förum svo í jólaboð nánast alla daga ef ekki bara alla á milli jóla og nýárs sem eru allt boð sem hafa verið í hefðum til margra ára,“ segir Gígja. 

Hvað varðar jólamatinn er humar yfirleitt fyrir valinu í forrétt og villibráð í aðalrétt hjá Gígju og fjölskyldu hennar. „Ég elska villibráð. Við höfum haft bæði rjúpur og hreindýr en ég held að rjúpan slái flestu við og því vona ég að við náum að redda okkur rjúpum í ár. Annars þarf ég bara að fá mér skotleyfi og sækja þetta sjálf á næsta ári. Ég er alltaf með æðislegan humar forrétt, uppskriftin kemur frá foreldrum mínum og hann er með því betra sem ég fæ,“ segir Gígja en hún heldur uppi blogginu www.gigjas.com og má finna uppskriftina að humar forréttinum þar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gígja deilir með okkur tveimur uppskriftum að þessu sinni en við munum birta fleiri jólauppskriftir frá henni fram að jólum. 

„Ég gef ykkur tvær uppskriftir að þessu sinni, æðislegar jólasmákökur sem er gott að eiga í desember og svo jólakrans með ostum sem er fallegur á veisluborðið, saumaklúbbinn og spilakvöldin. Það er hægt að leika sér svolítið með hann og hafa allt sem ykkur finnst gott og gert hann eins stóran og þið viljið.“

Jólasmákökur sem er gott að eiga í desember

Jólasmákökur

Uppskriftin er einföld, tekur aðeins 30 mínútur og gerir hún um 60-65 kökur. 

Innihald:

220 gr smjör

1 bolli sykur

1 bolli púðursykur

2 egg

2 tsk vanilludropar

1 tsk matarsódi

2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

3 bollar hveiti

150 gr lakkrískurl með súkkulaði

100 gr súkkulaði í kökurnar

50 gr súkkulaði til skrauts (val)

Aðferð:
  1. Smjörið er sett í hrærivélina og hrært þar til það verður létt og ljóst, þá er púðursykrinum og sykrinum bætt við og hrært.
  2. Næst fara egg og vanilludropar út í og hrært vel. 
  3. Þurrefnunum er blandað saman í sér skál og þeim svo bætt við í hrærivélina og súkkulaðið og lakkrísinn fer saman við í endann.
  4. Litlar kúlur eru mótaða á bökunarpappír, eða um ein teskeið af deigi og þær eru bakaðar í ofninum á 180 gráðum blæstri í 8-10 min.
Jólakrans með ostum sem er fallegur á veisluborðið

Jólakrans með ostum

Innihald:

Það er hægt að leika sér mikið með þetta og hafa allt það sem ykkur finnst gott en það sem ég valdi að nota var:

ferskar rósmaríngreinar

mozzarella kúlur

hvítlauksostur frá MS

ólífur

litlir tómatar

parmaskinka

spægipylsa

grill- eða ostapinnar

Aðferð:
  1. Rósmarín raðað í hring á borð eða á stóran kökudisk.
  2. Skerið hvítlauksostinn í teninga á stærð við mozzarellakúlurnar og tómatana.
  3. Innihaldsefnin eru dregin á pinnana og raðað í hring. Ég notaði grillpinna sem ég stytti aðeins.
  4. Í lokinn er hægt að fylla upp í með meira rósmarín.

Einnig er fallegt að setja ost, t.d. jóla Brie, í miðjuna á kransinum og bera fram með kexi eða góðu brauði.