Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aðventugarðurinn opnar
Miðvikudagur 1. desember 2021 kl. 12:44

Aðventugarðurinn opnar

Á fyrsta sunnudegi í aðventu voru ljósin kveikt í fallega Aðventugarðinum okkar. Markmið Aðventugarðsins er að lýsa upp svartasta skammdegið og skapa góða og notalega stemningu fyrir fjölskylduna í aðdraganda jóla. Orðið aðventa er dregið af latneska orðinu Adventus og merkir „að  koma“ og á því einstaklega vel við þetta tilefni þegar við undirbúum komu jólanna og bíðum þeirra með eftirvæntingu. Nú um helgina hefst síðan dagskrá í garðinum með opnun sölukofa og ýmsum uppákomum.

Gerið góð kaup og njótið dagskrár

Sú breyting verður í ár að sölukofarnir verða nú opnir bæði laugardaga og sunnudaga í desember frá kl. 13-17 og Þorláksmessu frá kl. 16-22. Þar gefur að líta handverk, sérvöru, veitingar og varning sem seldur verður í fjáröflunarskyni og verður vafalítið hægt að gera góð kaup í jólapakkann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Óvæntar uppákomur verða einnig í garðinum og aldrei að vita nema jólasveinarnir láti sjá sig. Ljúfir tónar munu óma og afþreying fyrir börnin svo sem ratleikur og þrautabraut auk þess sem hægt verður að grilla sykurpúða og gæða sér á heitu kakói og ýmsu öðru. Þá eru börn í leikskólum bæjarins að skreyta leikskólalund í skrúðgarðinum og gaman að kíkja á hann með leikskólabörnunum.

Best skreytta húsið og gatan

Þá er nú í undirbúningi að íbúar geti sent inn tillögur að best skreytta húsinu og best skreyttu götunni í bænum á vefsíðunni betrireykjanesbaer.is og verður fyrirkomulag þess kynnt á allra næstu dögum.. Eru allir hvattir til að taka þátt í þessu skemmtilega uppátæki sem fyrst og fremst til gamans gert en mikið er af fallega skreyttum húsum og götum í bænum og um að gera að taka rúnt og skoða skreytingarnar.

Hugum vel að persónulegum sóttvörnum

Eins og öllum er kunnugt eru í gildi sóttvarnartakmarkanir og biðlum við því til gesta að huga vel að persónulegum sóttvörnum, virða eins metra regluna og bera grímur þegar ekki er hægt að tryggja hana. Loks minnum við á að verslanir við Hafnargötu eru líka opnar svo og söfnin okkar og því um að gera að dreifa sér um bæinn og njóta þess sem þar er boðið upp á. Ýmsir jólatengdir viðburðir eru í boði á Bókasafninu og í Duus Safnahúsum er boðið upp á jólasveinaratleik og jólastofu þar sem föndra má gamaldags jólaskraut og fleira.

Höfum gaman saman og njótum lífsins á aðventunni.