Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aðventan í Reykjanesbæ
Laugardagur 1. desember 2012 kl. 13:31

Aðventan í Reykjanesbæ

Framundan er aðventan með öllum sínum dásemdum, þegar fólk keppist við að skapa sér tilefni til notalegra samverustunda í svartasta skammdeginu, kveikir falleg ljós, stingur góðgæti í munn og nærir bæði líkama og sál.

Reykjanesbær lætur ekki sitt eftir liggja og heldur fast í þær góðu hefðir, gamlar sem og nýrri, sem segja má að séu samtvinnaðar lífi fólks hér í bæ. Að venju verður staðið fyrir vali á Ljósahúsi Reykjanesbæjar sem gert hefur verið allar götur síðan árið 2000. Það er óhætt að segja að viðmiðin hafi verið sett af þeim sem fyrst hlutu þessar viðurkenningar því nú má sjá hús skreytt af miklum metnaði og smekklegheitum víðs vegar um bæinn og „ljósarúnturinn“ orðinn ómissandi hluti af jólahefðinni. Í ár fer valið fram með nýju sniði þar sem bæjarbúar sjálfir velja ljósahúsin í stað sérstakrar nefndar en þetta verður kynnt rækilega í Víkurfréttum.

Laugardaginn 1. desember kl. 17:00 verða ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu frá Kristiansand í Noregi. Sú athöfn fer að venju fram á Tjarnargötutorgi með stuttri tónlistar- og söngdagskrá. Sendiherra Noregs á Íslandi afhendir tréð og nemandi úr 6. bekk Akurskóla tendrar ljósin. Jólasveinar koma í heimsókn og dansa í kringum jólatréð með börnunum og gestum verður boðið upp á rjúkandi kakó og ilmandi piparkökur.

Sunnudaginn 2. desember kl. 14:00 verður boðið upp á Bókakonfekt í listasal Duushúsa. Bókakonfektið er árlegur menningarviðburður á vegum Bókasafns Reykjanesbæjar, í samvinnu við menningarfulltrúa bæjarins og Eymundsson og styrkt af menningarráði Suðurnesja. Þar gefst bæjarbúum kostur á að hlýða á upplestur höfunda úr nýjustu jólabókunum innan um einstaklega falleg málverk Þorbjargar Höskuldsdóttur. Þá flytja Jólaseríurnar tónlist. Meðal þeirra rithöfunda sem lesa upp úr verkum sínum eru Steinunn Sigurðardóttir, Auður Ava Ólafsdóttir og Marta Eiríksdóttir.

Þann 13. og 14. desember munu starfsmenn Bókasafnsins og menningarsviðs Reykjanesbæjar lesa upp úr nýjum bókum á Nesvöllum fyrir gesti og gangandi.

Dagana 6. -15. desember tekur Bókasafn Reykjanesbæjar þátt í alþjóðlegu bréfamaraþoni Amnesty International sem gefur almenningi kost á að skrifa undir kort í þágu þolenda mannréttindabrota. Tilbúin bréf til stjórnvalda liggja frammi fyrir gesti. Þetta er í sjöunda sinn sem slíkt bréfamaraþon er haldið á Íslandi en í fyrra voru send rúmlega 4000 bréf og kort til stuðnings fórnarlömbum mannréttindabrota um heim allan. Samtímis munu fara fram bréfamaraþon í Amnesty-deildum í yfir 60 löndum víða um heim.

Á þrettándanum, 6. janúar kl. 18:00, verða svo jólin kvödd með hefðbundnum hætti, með þrettándagleði, álfabrennu og flugeldasýningu. Nánar verður fjallað um það síðar enda ástæðulaust að huga að lokum jólanna nú, þegar aðventan er rétt handan við hornið.

Nokkrar mikilvægar dagsetningar

1. desember kl. 17:00
Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu
frá Kristiansand. Tjarnargötutorg.

2. desember kl. 14:00
Bókakonfekt. Duushús.

6.-15. desember
Alþjóðlegt bréfamaraþon Amnesty
International. Bókasafn Reykjanesbæjar.

13. og 14. desember
Upplestur úr nýjum bókum. Nesvellir

17. desember kl. 18:00
Ljósahús Reykjanesbæjar útnefnd. Duushús

6. janúar kl. 18:00
Þrettándagleði og álfabrenna. Hafnargata.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024