Mannlíf

  • Aðsóknin hefur farið fram úr væntingum
  • Aðsóknin hefur farið fram úr væntingum
Laugardagur 10. október 2015 kl. 08:59

Aðsóknin hefur farið fram úr væntingum

-segir Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar

Tóm­as Young tók við sem framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar, tónlistar- og menningarhúss í Reykjanesbæ í lok árs 2013 en segja má að fyrstu skref Hljómahallar lofi góðu þótt starfið sé enn í mótun.Tómasi leist vel á verkefnið í byrjun og fannst það áhugavert að Hljómahöll yrði nokkurs konar miðstöð tónlistar í Reykjanesbæ þar sem Stapi, Rokksafn Íslands og Tónlistarskólinn yrðu undir sama þaki.

„Ég sá mörg tækifæri í því sem ég tel okkur vera að nýta mjög vel í dag. Þetta var auðvitað bylting fyrir tónlistarskólann og sjáum við þess greinileg merki á starfsfólki þess sem brosir hringinn allan daginn yfir nýju aðstöðunni.“



Komnir fastagestir

Hvernig leist þér á þetta verkefni í upphafi og hverjar voru þínar áherslur?
„Í upphafi var auðvitað margt óljóst. Hugmyndin að húsinu og samspil Stapa við það sem hét áður Poppminjasafnið var nokkuð ljós en nákvæmar útfærslur voru kannski ekki alveg fullmótaðar þegar ég tók við starfinu. Fyrstu mánuðirnir einkenndust því mikið af mjög mörgum ákvörðunum sem þurfti að taka á hverjum degi þegar verið var að klára húsið að innan. Salurinn Berg og útfærslan á honum var til dæmis ákveðin á frekar skömmum tíma af annars vegar byggingarstjóra hússins og mér og Inga Þór tæknistjóra í samstarfi við Harald Árna, skólastjóra tónlistarskólans. Þegar ég horfi til baka þá afrekuðum við ansi margt en ég var ráðinn rétt rúmum fjórum mánuðum áður en húsið opnaði. Þegar ég kom til starfa um miðjan desember 2013 dundu á mér spurningarnar um það hvernig ég vildi hafa hitt og þetta og það tók nokkra daga að komast inn í það og átta sig á því að húsið myndi bera varanleg merki þeirra ákvarðana sem okkur þóttu bestar á þessum stutta tíma.“

Tómas segir að áhersla hafi verið lögð á það eftir opnun að bóka tónlistarviðburði sem höfðuðu til margs konar hópa. Fjölbreytnin hafi verið vel sýnileg.

„Fjölbreytnin sást best eftir áramót þegar við vorum á stuttum tíma með hljómsveitina Árstíðir sem samanstendur af fjórum strákum sem spila á kassagítar, bassa, fiðlur og selló og svo stuttu seinna var þungarokkshljómsveitin Skálmöld með tónleika í Stapa. Ég vissi að það tæki tíma að „þjálfa“ upp fólkið á svæðinu til að mæta á tónleika í stað þess að horfa á Netflix eða VOD-ið heima hjá sér. Okkur finnst okkur hafa tekist ágætlega upp á þessu eina og hálfa ári frá því að húsið opnaði en við sjáum mjög oft sömu andlitin og það er greinilegt að húsið á sér nú þegar marga fastagesti sem koma á nánast alla tónleika og viðburði í húsinu. Okkur þykir það mjög ánægjulegt.“



Ekki var gert ráð fyrir mikilli aðsókn í Rokksafnið fyrstu mánuðina og lögð var áhersla á gott uppbyggingarstarf sem tæki tíma. Því kom það ánægjulega á óvart að sögn Tómasar að aðsókn fór strax fram úr væntingum fyrsta árið.

„Þá vorum við svo heppin að Páll Óskar gaf okkur öll fötin sín og mjög marga muni. Það var auðvitað kjörið tilefni að gera fyrstu sérsýninguna um hann þar sem hann er dáður af öllum aldurshópum. Áhuginn reyndist svo sannarlega mikill en í júlí höfðu 10 þúsund gestir komið á safnið en árið áður komu 5 þúsund gestir í það heila, þannig að það má segja að aðsóknin hafi enn og aftur farin fram úr væntingum okkar. Nú er bara að halda dampi og gera nýja sýningu einu sinni á ári vonandi.“
Gott samstarf við Tónlistarskólann

Hvernig hefur samstarfið verið við Tónlistarskólann? Er kostur að vera í sama húsnæði?
„Samstarfið við Tónlistarskólann hefur gengið mjög vel. Skólinn hefur nýtt sér aðstöðuna okkar mikið, þá sérstaklega Bergið. Þá höfum við einnig aðgang að húsnæðinu þeirra til að mynda þegar stórar ráðstefnur eru í húsinu en þar getum við t.d. nýtt tónlistarskólastofurnar undir vinnuhópa. Það er auðvitað stór kostur fyrir tónlistarskólann að geta verið með alla kennslu undir sama þaki auk tónleika sem eru á þeirra vegum. Þá fáum við stundum litlar sveitir úr skólanum til að spila við kvöldverði sem eru bókaðir hjá okkur í Hljómahöll. Þá nýtist auðvitað búnaður innanhúss og sparast oft töluverðar fjárhæðir í því að geta hoppað yfir og fengið lánað hátalara eða statíf og annað slíkt og það gildir í báðar áttir.“



Hvernig hafa bæjarbúar tekið Hljómahöll? Eru menn duglegir að sækja viðburði?
„Mér finnst móttökurnar hafa verið mjög góðar. Fólk er venjulega yfir sig hissa þegar það sér hversu vel hefur tekist til. Það vissi kannski ekkert hverju það átti von á en tilfinningin mín er sú að útkoman hafi farið fram úr björtustu vonum gestanna. Svo er það skemmtilegast að sýna húsið í heild sinni en það ber alls ekki með að utan að vera yfir 5000 fermetrar að stærð. Fólk hefur oft líkt húsinu við kofann í mynd Stuðmanna „Með allt á hreinu“ þar sem hljómsveitarfélagar ganga inn í lítið samkomuhús sem reynist svo geyma risastórt svið og dansgólf. Það er mjög skemmtilegt.“

Aðsókn á tónleika er alltaf að aukast að sögn Tómasar og oft sér starfsfólk sömu andlitin á viðburðum. Hann segir að auðvitað megi gera betur en menn geri sér jafnframt grein fyrir því að tónleikasókn á svæðinu verði ekki breytt á einni nóttu heldur taki það tíma.

„Það má alveg koma fram að hér er mikið lagt upp úr hverjum viðburði. Það er mikið lagt upp úr góðu hljóði og svo er líka mikil áhersla lögð á að sviðið sé flott og lýsingin góð. Fólk hefur oft hrósað okkur fyrir flott „show“ og okkur þykir vænt um það þegar fólk tekur eftir því sem við erum að gera vel. Ég hvet bara sem flesta íbúa á svæðinu að kíkja á viðburði í Hljómahöll í haust og eiga með okkur skemmtilega kvöldstund. Líkurnar eru gestum í hag en það má nánast lofa því að gestir munu skemmta sér vel og njóta vel á viðburðum okkar í haust enda búið að ganga frá glæsilegri haustdagskrá.“
Nefnir Tómas Dúndurfréttir, Högna Egilsson, Gunnar Þórðarson ásamt Jóni Ólafssyni, Mugison og Valdimar auk þess sem KK& Ellen verði með jólatónleika. „Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Svo verður önnur eins veisla eftir áramót.“



Hvernig er rokksögusýningin að nýtast, hafa verið gerðar einhverjar breytingar á henni og eru fleiri viðbætur í farvatninu?
„Grunnsýningin okkar, Rokksafn Íslands, stendur svo til ennþá óbreytt frá því að húsið opnaði enda stutt síðan að safnið opnaði. Það hafa bæst við munir úr Rokksögunni og erum við alltaf að bæta einhverju við sýninguna og við höfum bætt við tungumálum á iPad-ana sem gestir fá afhenta þegar þeir skoða safnið. Textarnir uppi á veggjum eru auðvitað á íslensku en eru líka á ensku. Í iPad-unum er svo búið að þýða sýninguna yfir á norsku, þýsku og frönsku og það er til að auka aðgengi erlendra gesta að sýningunni.“

Tómas segir að sýningin um Pál Óskar hafi verið alger bylting þegar kemur að aðsókn en tekið er að hans sögn á móti mörgum hópum í viku hverri og virðist sem ekkert lát sé á starfsmannaferðum fyrirtækja á sýninguna.



Glæsileg og fjölbreytt Palla-sýning

„Sýningin heppnaðist líka vonum framar og er stórglæsileg þökk sé búningum Páls Óskars. Sýningin er fjölbreytt. Ef fólk hefur áhuga á lesa söguna hans þá getur fólk gert það en Páll Óskar leiðir gesti líka í gegnum ævi sína í myndböndum þar sem hann talar um hvert æviskeið og það er búið að klippa inn í myndböndin alls kyns myndefni frá hans ferli. Svo er það rúsínan í pylsuendanum en það var krafa frá Páli Óskari að gestir gætu sungið lög eftir hann og fengið upptökurnar sendar í tölvupósti, í hljóði og mynd. Þetta hefur verið mjög vinsælt og oftar en ekki eru hópar miklu lengur hjá okkur en þeir ætluðu í upphafi vegna karókíklefans, eins og við köllum aðstöðuna.“

Hvaða áhrif hefur svona menningarhús að þínu mati fyrir bæjarfélagið og svæðið í heild og hvernig sérðu fyrir þér að Hljómahöll muni þróast næstu ár?
„Ég held að svona menningarhús á borð við Hljómahöll, Hof og Hörpu hafi mjög mikil áhrif á bæjarfélögin sem þau eru staðsett í. Það eykur gildi svæðanna að þar séu slík hús þar sem skipulagðir eru menningarviðburðir. Húsið ýtir undir að fleiri viðburðir séu haldnir og þá hafa íbúar svæðisins aðgang að afþreyingu sem væri annars kannski ekki í boði. Það er eitt að hafa hús, götur, skóla og sjúkrahús en það hlýtur að hafa áhrif þegar fólk er t.d. að velja sér búsetustað hvernig aðgangur er að menningu og afþreyingu.“

Þá segir Tómas að Rokksafn Íslands sé kynnt fyrir erlendum gestum og sé safnið liður í því að búa til aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

„Það er sífelld aukning í fjölda ferðamanna á Rokksafnið og það færir auðvitað bæjarfélaginu auknar tekjur því það má heldur ekki gleyma fjárhagslegum ávinningi fyrir svæðið sem felast í húsi á borð við Hljómahöll. Bæði hafa gestir Rokksafnsins og þeir viðburðir sem fara fram í húsinu s.s. fundir og árshátíðir afleidd fjárhagsleg áhrif á fyrirtæki á svæðinu og má þar nefna veitingamenn, rútufyrirtæki, hótel og aðra gististaði, leigubíla, veitingastaði, dúkaleigur, birgja með hreinlætisvörur, bakarí og þannig mætti áfram telja.

Viðtal: Dagný Gísladóttir


 

Public deli
Public deli