Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Aðrir skólar fylgja í fótspor Grindvíkinga
Fimmtudagur 24. mars 2016 kl. 11:10

Aðrir skólar fylgja í fótspor Grindvíkinga

Tónlistarskólinn brautriðjandi í kennslu á snjalltækjum

Algjör bylting hefur orðið á starfsemi Tónlistarskólans í Grindavík eftir að nýtt og glæsilegt húsnæði var tekið í gagnið. Skólinn hefur svo vakið mikla athygli fyrir sérstakar eftirfylgni kennsluaðferðir sem aðrir skólar hafa svo nýtt sér í kjölfarið. Í skólanum eru 75 nemendur í einkanámi og starfa 10 kennarar við skólann. Starfsemin er umfangsmikil og tengingin við grunnskólann og samfélagið í heild er mikil.

Þessi nýja kennsluaðferð nefnist eftirfylgniaðferð. Aðferðin hefur þróast úr speglaðri kennslu sem víða hefur ruðið sér til rúms í hefðbundinni kennslu. Inga Þórðardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans í Grindavík, útfærði og aðlagaði aðferðina að tónlistarkennslu. Þessi aðferð miðar að því að styðja nemendur við æfingar heima, jafnt á hljóðfæri sem og fræðigreinum. Aðferðin er notuð með hefðbundinni einkakennslu á hljóðfæri. Notast er við spjaldtölvu eða snjallsíma í kennslustofunni. Þegar kennari er að leggja áherslu og útskýra fyrir nemandanum heimavinnuna tekur hann leiðbeiningarnar upp á spjaldtölvuna eða snjallsímann um leið og hann útskýrir fyrir nemandanum, hvort heldur verklega eða bóklega. Skilji nemandinn ekki útskýringar kennarans eða vill fá nákvæmari útlistun, spyr hann og fer svarið og frekari útskýringar þá einnig inn á myndbandið. Nemandinn hefur svo aðgang að myndbandinu í gegnum sérstaka vefsíðu. Nemendur eru eftir sem áður með sínar bækur enda aðferðin hugsuð sem viðbót þar sem útskýringar kennarans á áhersluatriðum verkefnisins eða æfingarinnar eru einstaklingsmiðuð er þau fara inn á myndböndin. Aðrir skólar hafa leitað til Grindavíkur með það í huga að nýta sér þessar nýstárlegu kennsluaðferðir. Aðferðin hefur lukkast vel og nemendur taka vel í þetta. „Það er mikil hjálp í þessu og nemendur eru farnir að óska eftir þessum stuðningi í auknum mæli,“ segir Inga skólastjóri sem kynnti aðferðina  fyrir Tónlistarskólunum á Suðurnesjum á  sameiginlegum endurmenntunardegi í fyrra.  Tónlistarskólinn í Sandgerði hóf í  kjölfarið að kaupa inn búnað og innleiða aðferðina og  kennarar í Reykjanesbæ og Garði sýndu aðferðinni mikinn áhuga. Tónlistarskóli Árnesinga heyrði af aðferðinni og kom í vettvangs- og kynnisferð í tónlistarskóla Grindavíkur til að kynna sér aðferðina og eru nú búin að tækja sig upp og eru byrjuð á  innleiðingu aðferðarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Formaður félags tónlistarkennara og stjórnenda kom til Grindavíkur og kynnti sér aðferðina við mikla hrifningu sl. vor. Tónlistarskólinn í Garðabæ hafði síðan samband við okkur og óskaði eftir kynningu. Við fórum og héldum fyrirlestur um aðferðina þar sl. vor, þannig að þetta spyrst út,“ segir Inga.

Skólinn hefur tekið stakkaskiptum að sögn Ingu eftir að ný húsakynni voru tekin í gagnið fyrir um ári síðan. Aðsókn hafi aukist í skólann og nú hafi myndast biðlistar um að komast að í tónlistarnám. Tækjabúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið og er t.a.m. fullkomið hljóðupptökuver í skólanum. Inga segist sjá mikinn mun á nemendum og að rýmið hafi nýst til fulls síðan flutt var í fyrra. „Það er mikil gróska í tónlistinni og biðlistar eru langir. Það er mikið um að vera og starfsemin er sífellt vaxandi.“ Víkurfréttir sóttu tónleika nemenda í skólanum fyrr í vikunni þar sem skólinn var skoðaður og skólastjóri tekinn tali. Afraksturinn má sjá í Sjónvarpi Víkurfrétta á næstunni.