Adrenalínið í botni
Dróttskátasveit Heiðabúa, Ds. Yggdrasil, skellti sér í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum fyrir skemmstu.
Fyrsta þrautin var að klifra upp 10 metra háan turn, tveir og tveir saman, og síga svo niður. Turninn var ekki hefðbundinn klifurturn og þurftu félagarnir að aðstoða hvorn annan við að komast upp. Þegar allir höfðu reynt þessa þraut var Risarólan næst á dagskránni. Þar var einn í einu festur í vír og dreginn upp í um 10 metra hæð og svo sleppt, en sveiflan náði um 25 metrum. Hægt var að velja á milli þess að sitja eða hanga á hvolfi og völdu flestir seinni kostinn. Þriðja og síðasta þrautin var svo 10 metra hár staur sem átti að klifra upp, sem var í sjálfu sér leikur einn. En þegar upp var komið vandaðist málið því þar átti að standa upp í báða fætur, snúa sér í hálfhring og hoppa niður. Vandinn var í fyrsta lagi sá að staurinn titraði allur og skalf þannig að erfitt var að ná jafnvægi til að standa upp, í öðru lagi skulfu hnén alveg jafn mikið enda erfitt að ná jafnvægi á litlum fleti í 10 metra hæð og í þriðja lagi var tæplega pláss fyrir báða fætur og því erfitt að snúa sér. Það hafðist þó með nákvæmni og þrautseigju og er óhætt að segja að stemmingin hafi verið gríðarleg þetta kvöld og adrenalínflæðið alveg í botni.
VF-mynd/Bebba