Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Aðrar áherslur með nýjum safnstjóra
Helga Þórsdóttir var ráðin í starf safnstjóra Listasafns  Reykjanesbæjar í ársbyrjun. VF-myndir: Hilmar Bragi
Laugardagur 18. júlí 2020 kl. 08:27

Aðrar áherslur með nýjum safnstjóra

Helga Þórsdóttir var ráðin í starf safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar í ársbyrjun og hóf störf í byrjun febrúar. Helga er með brottfararpróf frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands ásamt því að hafa lokið M.A. í myndlist frá De l’ecole Nationale d’Arts de Cergy-Pontoise Mention og M.A. í menningarfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún einnig stundað nám í innanhússarkitektúr í Frakklandi og leiðsögu í Leiðsögumannaskólanum í Kópavogi. Helga starfaði í Byggðasafni Vestfjarða frá árinu 2016, m.a. sem forstöðukona, áður en hún kom til Reykjanesbæjar. Þá hefur hún einnig komið víða við í sýningarstjórn og textaskrifum um myndlist. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með Helgu í Gömlubúð þar sem  safnstjórinn hefur skrifstofu og rætt  var um sýn hennar á safnið sem hún er að taka við.

Hér má lesa viðtalið í nýjustu Víkurfréttum!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bátasafn tekur breytingum

Orðrómur hefur verið um það í bænum að bátasafn Gríms Karlssonar væri á förum úr bátasalnum þegar komið er inn í Duus Safnahús. Helga staðfestir þetta í samtali við Víkurfréttir en bátunum verður gert hærra undir höfði á sýningum á öðrum stað í Bryggjuhúsinu, sem er hluti Duus Safnahúsa.

„Við Eiríkur [Jörundsson], forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, erum sammála um það að bátasafnið er ekki að njóta sín nógu vel eins og það er. Bátasafninu hefur ekki verið miðlað. Þegar þú kemur þar inn þá er safnið eins og kirkjugarður. Það passar alls ekki að ganga í gegnum bátasafnið ef þú ert að fara inn á samtímalistasafn. Ég vil þessum bátum vel og að þeir séu sýndir í einhverju samhengi og með upplýsingum og með markvissum hætti. Fólk þarf að upplifa eitthvað meira en bara magn. Fólk þarf líka að upplifa sögu bátanna,“ segir Helga um bátasafnið.

Listasafnið gersemi í bæjarfélaginu

Helga hefur ákveðnar skoðanir á listasafninu. „Mér finnst að það þurfi að koma fram og ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir því að þetta er eitt af fáum samtímalistasöfnum sem er viðurkennt safn. Hingað kemur fólk úr Reykjavík til að fara á listasafnið, það gerir sér ferð fyrir þetta safn. Listasafnið er gersemi í bæjarfélaginu sem ég myndi óska að fleiri myndu nýta sér betur og vissu betur af. Safnið hefur verið falið á bak við bátasafnið. Duus-húsin eru svolítið eins og þeim hafi verið kastað þarna niður og hending hvar hlutirnir eru. Við viljum að þetta sé í lagi og viljum skýra hvar hvert einasta safn og stofnun er þar innanhúss, þannig að gestir okkar viti hvar þeir finna byggðasafnið og hvar þeir finni listasafnið. Við viljum setja upplýsingamiðstöðina og færa aðalinnganginn í gryfjuna sem er í miðju hússins. Þá er listasafn til hægri og byggðasafn til vinstri. Með þessu verðum við sjálfstæðari með hvað við viljum setja upp og skemmtilegra fyrir fólk að koma þarna inn. Það er erfitt fyrir listamenn að tjá sig í þessu rými eins og það er í dag, þegar allt er ofan í öllu.“

Örari sýningardagskrá

– Hvert stefnir þú með Listasafn Reykjanesbæjar?

„Við hjá listasafninu verðum með mun örari sýningardagskrá heldur en áður. Hér voru að jafnaði um fimm nýjar sýningar á ári en ég stefni að því að hér opni nýjar sýningar á sex vikna fresti. Þá verður líka sú breyting að hingað til hefur verið gefinn út bæklingur með hverri sýningu. Það hafa fáir verið að kaupa þennan bækling þannig að í framtíðinni verður gefin út árbók Listasafns Reykjanesbæjar þar sem allar sýningar ársins verða teknar til umfjöllunar. Þetta mun einnig hjálpa til þegar verið er að vinna rannsóknir eða annað, þá eru þetta ekki textar sem týnast inni í einum bækling, heldur fara þeir inn í ritröð. Það er mikilvægt fyrir okkur sem listasafn, sem er akademísk stofnun, að hver einasta sýning er birting og hver einasta sýning er rannsókn, þannig að við viljum ekki að svona hlutir hverfi. Við viljum auðvelt aðgengi að öllum þessum sýningarupplýsingum. Með því að fjölga sýningum vonast ég einnig til þess að fólk í nærsamfélaginu komi oftar á safnið og njóti. Ég held reyndar einnig að það muni gerast við breytingar hér innanhúss. Safnið er falið í dag.“

Listasafn Reykjanesbæjar verði áfram þekkt samtímalistasafn

– Hver var þín sýn á Listasafn Reykjanesbæjar þegar þú sóttist eftir þessu starfi?

„Ég var búin að þekkja þetta safn lengi, þar sem ég hef verið hluti af þessari senu í einhver þrjátíu ár. Ég hafði oft sótt safnið heim og alla tíð. Ég vil halda áfram að tryggja að Listasafn Reykjanesbæjar sé þekkt samtímalistasafn. Að halda uppi þeim standard er heilmikil vinna. Ég vil ekki bara tryggja það, heldur gefa í og að við séum best. Ég hef ekkert minni metnað en það. Þegar við náum að byggja upp athygli þá vil ég að foreldar komi inn á safnið með börn sín. Þegar breytingarnar hafa verið gerðar vil ég geta sett upp vinnustofur fyrir börn um helgar og að fólk geti sett sig í þær stellingar að það sé bara hversdagslegt að fara á listasafn. Það sé bara hluti af daglegu lífi og þjónustu í sveitarfélaginu. Það eru uppi hugmyndir um að hafa jóga og ýmislegt fleira innan listasafnsins. Þegar þú ert með sýningu sem gefur umhverfi sínu eitthvað, þá er markmiðið að sem flestir komi inn í það umhverfi og njóti þess. Við yrðum með aðra viðburði, sem ekki endilega eru listviðburðir, í listasalnum sem er með sýningu uppi, þegar það er hægt, er eitthvað sem ég vil líka gera.“

Fjölnota rými

Helga segir að fremra rýmið, sem nú hýsir bátasafnið, yrði fjölnota rými fyrir margskonar uppákomur. Hún vill t.a.m. koma upp bókaklúbbi sem myndi hittast og lesa saman íslensku listasöguna sem nýlega var gefin út. Hún segist vilja fá höfunda kaflanna, sem allir eru á lífi, til að koma og fara yfir sitt efni.

Samtímalistasöfnin á landsbyggðinni eru í Reykjanesbæ, í Árborg og á Akureyri og eru alveg á pari við bestu söfnin á höfuðborgarsvæðinu. „Það þarf sterk bein í sveitarfélagi til að bjóða upp á samtímalistasafn og standa með því,“ segir Helga og bendir á sama tíma á að listasafn sé ekki félagsmiðstöð. Íbúar hugsa með sér hvers vegna hún Gunna sem býr í sveitarfélaginu fái ekki að sýna í listasafninu. Það fær hún hins vegar ekki fyrr en hún hefur farið í nám í einhverju tengdu listinni og sýnt ákveðið lengi að listasafnið veitir henni athygli. „Hins vegar viljum við allt gera fyrir bæjarbúa til að koma þeim á þann stað að þeir eigi möguleika á sýningu í safninu og hjálpa þeim að komast þangað og það er annað mál. Þú byrjar ekki á því að sýna í listasafni. Það er ákveðinn heiður að komast þangað inn og góðir listamenn eru ekki alltaf að sýna í söfnum. Þeir fá bara nokkur svoleiðis tækifæri yfir ævina, oftast. Það er til mikils að vinna fyrir listamann að fá sýningu á listasafni og er gífurlega stórt mál. Þetta er í raun áratuga ferli listamannsins og að vera í samhengi við heimslistina til að fara inn á slíkt safn. Við erum þannig safn og þessi örfáu söfn á landinu.

Það eru sveitarfélög nálægt okkur í stærð sem eru ekki að standa svona vel að hlutunum eins og Reykjanesbær og það er í lagi að tala um það að við erum meira en rokkbær,“ segir Helga og hlær. „Menningin hérna er meira en Kanamenning. Það á líka við um byggðasafnið. Þetta er aldagamall útgerðarstaður og héðan koma líka skáld og rithöfundar.“

Aðrar áherslur

Spurð hvort breyting verði á stefnu safnsins segist Helga vera frekar „aggressive“ og hún hafi verið sýningarstjóri til fjölda ára. Aðalsteinn Ingólfsson hefur verið aðalsýningarstjóri Listasafns Reykjanesbæjar en Helga segist muni setja upp flestar sýningar sjálf. „Það verða aðrar áherslur innan samtímalistarinnar og miklu fleiri sýningar eftir lifandi listamenn, þær verða flestar þannig,“ segir Helga.

Listasafn Reykjanesbæjar er um þessar mundir að taka við risastórum gjöfum. Ein þeirra er frá Björgu Þorsteinsdóttur og Helga vill setja upp sýningu eftir hana en Björg var frumkvöðull í nýja málverkinu og það er fyrir milligöngu Aðalsteins að safnið fær gjöf frá hennar dánarbúi en Björg lést á haustdögum 2019.

„Ég mun því setja upp sýningu á verkum hennar og á verkum lifandi listakvenna og setja upp ráðstefnur því tengt. Ég vil helst halda ráðstefnu í tengslum við hverja sýningu sem sett er upp. Sýning þarf að vísa út fyrir sjálfa sig og vera meira en bara upphengi Þetta er í fyrsta skipti sem ráðinn er safnstjóri sem sinnir bara þessu, þannig að það er eins gott að ég komi með eitthvað annað og meira en að setja bara upp sýningar. Það má alveg taka það fram að setja upp sýningar er ekki „bara“.“

Tók við á sérstökum tímum

Helga segist ennþá vera að kynnast þeim listamönnum sem eru starfandi á svæðinu og hvernig hún sem safnstjóri geti hjálpað þeim að blómstra. Hún segist ekki sjá fyrir sér að sýna þá listamenn hér, heldur hjálpa þeim að setja saman sýningar sem gætu farið út fyrir svæðið og jafnvel út á land.

Helga var ráðin safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar á sérstökum tímum. Hún hafði vart tekið við lyklavöldunum í Duus Safnahúsum þegar söfnunum var skellt í lás vegna kórónuveirufaraldurs. Aðspurð hvernig hún hafi nýtt þann tíma segist Helga aldrei haft eins mikið að gera á ævinni og hlær. „Það var lokað hjá okkur í fjórar vikur og þann tíma nýtti ég til að skipuleggja nýja sýningu og á þeirri sýningu þurfti ég að fá lánað hvert og eitt einasta verk. Þetta var sýning Áslaugar Thorlacius og Loga Höskuldssonar. Loji er örugglega einn eftirsóttasti listamaður á Íslandi í dag og hann liggur ekki á lager með eitt einasta verk. Þannig að verkin sem voru á sýningunni voru fengin að láni eftir að ég hafði skrifast á við einstaklinga og fór heim til þeirra og tók myndirnar niður af veggjum. Þá fékk ég lánuð verk eftir Áslaugu hjá Listasafni Íslands og að fá lánuð verk hjá listasafni er yfirleitt þriggja mánaða afgreiðslubið. Þetta náðist allt í tíma og var mikið mál. Svo skrifaði ég líka sýningarstjóratexta, setti sýninguna upp og við vorum fyrsta listasafnið sem opnaði eftir COVID-19 með sýningu 4. maí.“

Áfallalandslag til umfjöllunar á Ljósanótt

– Nú er svo eitthvað allt annað í gangi í listasalnum með videolistaverki en er svo Ljósanótt næst?

„Já, þá opnar næsta sýning og þar vil ég minna fólk á á hverskonar jarðfræðisvæði við búum. Náttúran hefur heldur betur gert vart við sig á þessu ári. Mín stefna er að við eigum alltaf að vera í samtali við umhverfi okkar og samtímann. Listin er tungumál og listin er líka spegill af umhverfi okkar. Það er áhugavert að reyna að draga umhverfið fram eins hratt og hægt er til að sjá hverning við fjöllum um þessa atburði einmitt núna. Ég er með fimm listamenn sem eru þekktir fyrir að vinna með náttúruvá. Vinnuheiti sýningarinnar er Áfallalandslag. Listafólkið er að vinna að verki fyrir sýninguna sem fjallar sérstaklega um þennan stað og landslagið hér og þá vá sem steðjar að okkur í þessari náttúru.“

Á ljósanótt verður einnig sýning um Daða Guðbjörnsson sem er að gefa Listasafni Reykjanesbæjar um 400 grafíkteikningar en Aðalsteinn Ingólfsson er sýningarstjóri þeirrar sýningar. Þá er sýning sem heitir 365 en gefið hefur verið út dagatal með því nafni þar sem er á hverjum degi nýr listamaður. Hugmyndin með þeirri sýningu er að sýna tíðaranda í myndlistinni.

Aðsóknin meiri en áður

Helga segir það vera stefnu að auka aðsókn að safninu og það sé að takast. Aðsókn sé meiri nú en áður og það ráðist líka af því að það séu góðar sýningar í gangi. Þá er ókeypis aðgangur að safninu í sumar en ekki er ákveðið hvernig það verði til framtíðar. Aðgangseyrir skiptir rekstur safnsins í raun litlu máli í heildarmyndinni. Helga segir að mikli fleiri Íslendingar séu að koma á sýningarnar nú í vor og sumar en áður.

Listahátíð barna féll niður í vor vegna COVID-19 en það verkefni verður áfram á vegum Listasafns Reykjanesbæjar og stefna á að gera því enn hærra undir höfði. Safnið hefur m.a. stofnað rás á efnisveitunni Youtube þar sem má finna myndbönd um þau verkefni sem börn unnu að í vor og hefðu verið sýnd í Listasafni Reykjanesbæjar ef ekki hefði komið til heimsfaraldurs. Þá eru þar einnig viðtöl við listamenn og sýningarstjóra.