Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Sunnudagur 20. desember 1998 kl. 19:41

AÐALGÖTUBRUNNURINN

Í Keflavík voru þrír brunnar með svokölluðum pósti: Tjarnargötubrunnurinn, Aðalgötubrunnurinn og brunnurinn við Brunnstíg. Fólk var misjafnlega sett til að verða sér úti um vatn, algengt var að sækja það í tvær fötur, var þá gjarnan notuð vatnsgrind til að létta burðinn, eða í eina og eina fötu. Á sumum heimilum var til handvagn, á honum var höfð vatnstunna. Þvottur var handþveginn á bretti. Eftir það var oftast farið með hann í þvottabölunum niður að brunni, þar sem sápan var skoluð úr honum. Skolað var úr tveim vötnum og þvotturinn lagður á til þess gerða slá, svo að sigið gæti úr honum mesta vatnið. Þá var haldið heim og þvotturinn hengdur á útisnúru til þerris. Sums staðar voru þurrkhjallar. Aðstæður við brunnana voru ekki upp á marga fiska og ekki bætti úr, að á vetrum gat þar verið eitt svell og því illt að fóta sig, þá fraus þvotturinn í stokk á snúrunum. Þurr þvotturinn var svo sléttaður með því að rúlla eða strauja hann. Hér áður fyrr hafði fólk nokkra dægrastyttingu af því að segja glettur þær, sem urðu til í amstri daganna. Gísli Sigurðsson þótti spaugsamur. Þegar von var á fyrsta forseta lýðveldisins í heimsókn til Keflavíkur, var kapp lagt á að hreinsa til í bænum. Fór þá Alfreð Gíslason lögreglustjóri til Gísla og tjáði honum, að von væri á forsetanum og vildi benda honum á, að mikið væri af járnarusli í kringum smiðjuna. Gísli spyr þá Alfreð: „Ætlar forsetinn að hirða það?” Gísli hafði byggt ofan á íbúðarhúsið og vildi landeigandinn, Elimundur Ólafs, hækka lóðagjaldið og orðaði það við Gísla. „Hvað áttu hátt upp?” spurði Gísli. Algengt var að gengið væri inn í íbúðarhús um inngönguskúr. Vel þekktur formaður, sem oft þótti skondinn í tjáningu, sagðist vilja hafa skúrinn inni, þegar hann byggði sér hús. Af þessari lýsingu var haft nokkurt gaman. Núna sjást auglýsingar og menn tala um að bílskúrinn sé undir húsinu, svo byggja menn „heilsárs sumar- bústaði.” Einhverju sinni voru þeir bræður, Gunnar og Guðmundur Sigurðssynir, staddir í Hafnarfirði á báti sem þeir áttu. Háseti hjá þeim var Stefán Guðmundsson. Stebbi var kvikur á fæti og glaðlegur. Þeir höfðu farið frá borði upp í bæ. Guðmundur og Stebbi koma saman til skips og er þá mjög lágsjávað. Guðmundur biður Stebba að halda í kaðal og slaka sér um borð og sleppa þegar hann kalli. Guðmundur hverfur niður fyrir bryggjukantinn og Stebbi slakar honum niður, Guðmundur kallar: „Haltu fast!” Stebbi heyrir kallað og sleppir. Heyrist þá mikið skvamp, Stebbi lítur fram af bryggjunni og spyr: „Ha, datt eitthvað?” Frá Garðshorni er fjölmenn athafnasöm ætt komin Þeir gerðu út mótorbátinn Stakk. Einhverju sinni sér Eyjólfur, faðir Garðshornsbræðra, bátinn koma og ætla að leggjast að Edinborgarbryggju, en hann tekur niðri á Ósskeri. Þá á Eyjólfur að hafa kallað: ,,Guð hjálpi Stakk, nei bíddu við, þarf ekki, hann er laus!” Eyjólfur í Garðshorni Sagan gerist nær í tíma en það sem áður hefur verið sagt, en lýsir góðum húmor Ebba. Hann gekkst undir uppskurð vegna gamals kviðslits. Aðgerðina annaðist læknir við sjúkrahúsið hér, sem sagður var skurðglaður. Eftir aðgerðina er læknirinn á stofugangi og kemur til Ebba, spyr hann um líðan og segir, að vel hafi til tekist með kviðslitið. „Og þar sem búið var að opna þig, þá tók ég botnlangann”. Ebbi, sem var maður æðrulaus, þakkar fyrir og segir: „Það var gott að ekkert var að höfðinu.” Aðalgatan, „Main Street” Karl Eyjólfsson frá Garðshorni keypti bæ, sem stóð neðarlega við Aðalgötuna, gekk hann undir nafninu „Strít”. Kaupunum fylgdi kindakofi, þar sem Karl hafði kindur sínar, ásamt öðrum manni. Að öllum líkindum átti hann heima í Strít fyrir kaupin. Var hann sagður góður í erlendum málum, talaði fleiri en eitt. Nokkur samskipti voru hér við Englendinga (sem fiskuðu uppi undir landsteinum) og var hann fenginn til að túlka. Sagt var að Englendingar hafi því átt við hann erindi. Þar sem manninn var að finna við aðalgötu kauptúnsins, hafði verið málað á bæinn „Main Street“. Þorpsbúar fóru að kalla bæinn Strít og festist það við hann. Nafnið var svo yfirfært á hús, sem Karl byggði og er Aðalgata 2. Karl og hans fólk hefur verið kennt við þetta sérstæða nafn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024