Mannlíf

„Að skemmta fólki er það skemmtilegasta sem ég geri“
Halla Karen í hlutverki drottningarinnar í Drottningin sem kunni allt nema ... Myndir úr því verki tók Óli Már aðrar eru úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 23. desember 2023 kl. 06:06

„Að skemmta fólki er það skemmtilegasta sem ég geri“

Nafn Höllu Karenar Guðjónsdóttur kannast eflaust margir við en hún er og hefur verið ein af helstu driffjöðrum Leikfélags Keflavíkur mörg undanfarin ár. Halla veit fátt skemmtilegra en að fá fólk til að hlæja og leiksviðið er hennar heimavöllur. Leikferill Höllu hefur hingað til verið bundinn við Suðurnes en hróður hennar hefur borist víðar og þessa dagana hefur hún atvinnu af því að vera leikari.

„Það er eiginlega alltaf mikið að gera hjá mér. „Það er alveg sama hvenær ég er spurð að því,“ segir Halla Karen þegar við hefjum spjall okkar. Halla er nýhætt sem verkefnastjóri viðburðahalds í Reykjanesbæ og hefur verið að leika í verkinu Drottningin sem kunni allt nema ... með Gaflaraleikhúsinu í Bæjarbíói

„Við erum búin að sýna fimm sýningar í Bæjarbíói og núna er ég í smá pásu fram yfir áramót þegar ég ætla að halda áfram að leika í Bæjarbíói.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Halla Karen fær nú í fyrsta sinn borgað fyrir að leika á sviði. Mynd/Óli Már


Leikritið er gert eftir barnabók sem Gunnar Helgason og Rán Flygenring skrifuðu. Þetta er svona myndabók sem við, leikhópurinn og Björk Jakobsdóttir, leikstjóri, settumst niður með og gerðum leikgerð sem við erum að sýna núna.“

Þú hefur ekki leikið áður með Gaflaraleikhúsinu.

„Nei, ég hef ekki leikið áður í Bæjarbíói og þetta er í raun í fyrsta sinn sem ég er að fá greitt fyrir það að vera leikkona. Allt sem ég hef gert með Leikfélagi Keflavíkur er í sjálfboðavinnu og gert af áhuganum einum saman. Þannig að þetta er stórkostlegt tækifæri fyrir mig að fá að komast í Gaflaraleikhúsið.“

Og hvernig hafa viðtökur verið?

„Stórkostlegar. Það er búið að vera fullt á allar sýningar hjá okkur og sýningar í janúar eru komnar í sölu. Við vorum bara að sýna á sunnudögum í október og einn sunnudag í nóvember, það er bara vitlaust að gera – allir að kaupa sér miða, sem er dásamlegt.“

Ömurleg í körfubolta

„Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf þurft að vera miðpunktur athyglinnar. Ég man sérstaklega vel eftir því þegar ég fór í fyrsta sinn á svið og fékk eitthvað stórt hlutverk. Það var á árshátíð í Njarðvíkurskóla, ég held að ég hafi verið í fjórða bekk og var fengin til að vera einhvers konar kynnir og sló svona rosalega í gegn. Mig langaði alltaf svo að vera í leikfélagi en þorði því einhvern veginn ekki, var bara í körfubolta eins og hinir – alveg ömurleg í körfubolta, æfði körfubolta í mörg, mörg ár. Ég var frábær liðsfélagi á bekknum og ógeðslega fljót að ná í vatn, var mjög góð í klefanum.“

Halla segir að hún hafi ekki þorað að ganga í Leikfélagið sem var ekki eins stórt og ekki jafnmikil starfsemi í því og er í dag. Það voru alltaf sett upp tvö verk á ári en það var ekki mikið í boði fyrir börn.

„Svo kynntist ég Arnari [Inga Tryggvasyni], manninum mínum, og hann hafði verið í Leikfélaginu og var í stjórn þess. Ég dróst náttúrlega mjög fljótt inn í það með honum og var komin í stjórn korteri seinna og þetta hefur algerlega verið mitt síðan þá. Ég var sautján ára þegar ég byrjaði í Leikfélag Keflavíkur og þetta er það skemmtilegasta sem ég geri.“

Svo er öll fjölskyldan komin með þér í þetta, þetta er fjölskylduáhugamálið.

„Já, þetta er algerlega svoleiðis. Við Arnar höfum alltaf verið í þessu saman og það er svo kærkomið að geta verið saman í þessu. Síðan kom tímabil þar sem hann fór út úr stjórninni og ég var eftir, svo hætti ég í stjórn en við vorum bæði alltaf að leika. Valur, strákurinn okkar, lék í fyrsta sinn 2011. Þá voru tvö barnahlutverk sem vantaði inn í og hann hoppaði í það, það var sem sagt í fyrsta sinn sem hann lék og þá var sett upp Jólasaga Dickens. Núna í ár er verið að setja upp Jólasögu Dickens í nútímabúningi, Jólasaga í Aðventugarðinum, og þar er Sóllilja, átta ára dóttir okkar, að leika í sínu fyrsta verki. Það er svolítið skemmtileg tilviljun að það er er sama verk og Valur lék í. Maðurinn minn, hann Arnar, er í aðalhlutverki í þessu verki þannig að við erum öll fjölskyldan í þessu – og þessi yngsti, tveggja ára, hann er með okkur öllum stundum. Hann er bæði búinn að vera með mér í Bæjarbíói, búinn að sjá allar sýningar þar og núna er hann búinn að sjá allar sýningar í Leikfélaginu líka. Hann er svolítið dæmdur til að fylgja í fótspor fjölskyldunnar, þetta er nokkurs konar fjölskyldusport.“

Sóllilja stendur sig vel í sínu hlutverki í Jólasögu í Aðventugarðinum.
Feðginin Arnar Ingi og Sóllilja í Jólasögu í Aðventugarðinum, nútímalegri uppfærslu Leikfélags Keflavíkur á Jólasögu Dickens.

Er það athyglissýki sem dregur ykkur í þetta?

„Þetta er örugglega vottur af athyglissýki. Þetta bara liggur fyrir okkur en þessi útrás sem maður fær við að vera að æfa í leikhúsinu, standa uppi á sviðinu, fá síðan að sýna og gleðja aðra – það er bara það dásamlegasta sem ég get alla vega hugsað mér. Að fá annað fólk til að hlæja, að ég tali ekki um ef ég get hlegið að því sjálf, það er dásamlegt að geta haft það að atvinnu eins og ég er að gera akkúrat núna. Það er frábært.“

Halla Karen og Guðný Kristjánsdóttir í hlutverkum Hvítvínskvennanna sem hafa slegið í gegn.

Notalegar sögustundir

Þjáist þú aldrei af sviðskrekk?

„Alltaf. Ég er rosalega kvíðin í hvert einasta skipti sem ég fer á svið. Ég er líka búin að vera með Notalega sögustund í að vera níu ár og búin að lesa sömu bókina alla vega níu sinnum. Ég er með tíu bækur sem ég rúlla og í hvert einasta sinn sem ég les er ég mjög stressuð, aldrei þannig að það sjáist en ég held að þetta bara skipti mig máli. Það skiptir mig máli að það sem ég geri sé almennilegt og hann Gunni Helga, sem ég er með í Bæjarbíói núna, þegar hann leikstýrði mér tvisvar sinnum í Leikfélagi Keflavíkur gaf hann mér nýja sýn á hvernig það er að leika fyrir börn. Hann sagði það að börn fyrirgefa ekki og sagði við okkur öll sem vorum að leika: „Þið skulið aldrei mæta hérna eftir að hafa fengið ykkur í glas daginn áður. Þið skulið bera það mikla virðingu fyrir börnum að þið mætið hérna allsgáð og alltaf tilbúin í tuskið. Þið gætuð verið að fá barn sem er að koma í fyrsta sinn í leikhús og leikhúsreynsla barns í fyrsta sinn getur haft áhrif á það hvernig barn horfir á leikhús yfir höfuð. Barn fyrirgefur ekki svo glatt, við fullorðna fólkið förum á einhverja leiksýningu og hún er glötuð, við förum samt bara aftur í næstu viku á einhverja aðra leiksýningu en þetta getur haft svo mótandi áhrif á börn.“ Þetta er eitthvað sem ég hef haft að leiðarljósi síðan. Ég hef mjög gaman af því að leika fyrir börn, það er algjörlega mitt uppáhalds, og þess vegna held ég að ég sé stressuð. Ég vil gera hlutina vel og gera góða upplifun fyrir börnin,“ segir Halla Karen sem auk þess að leika hefur verið með Notalegar sögustundir í Bókasafni Reykjanesbæjar undanfarin níu ár þar sem hún les og syngur fyrir börnin. Hún hefur einnig verið að fara í grunn- og leikskóla Reykjanesbæjar.

Notalegar sögustundir í Bókasafni Reykjanesbæjar eru vinsælar hjá krökkum.

„Ég var einu sinni beðin um að koma og lesa fyrir eldri borgara en það var ekkert úr því vegna Covid, það var á þeim tímum – en ég er voða spennt fyrir því og væri til í að gera það í sjálfboðavinnu. Lestur getur verið svo dásamlega áhrifaríkur, upp á orðaforða að gera, upp á samskipti, það er hægt að gera svo margt í gegnum lestur. Það þarf ekki alltaf láta börn sitja og lesa, það er líka hægt að lesa fyrir þau og þú færð nákvæmlega það sama út úr því.“

Viðtalið var tekið á Degi íslenskrar tungu og við spyrjum Höllu hvort hún taki eftir breytingum á orðaforða barna á þessum tíma sem hún hefur verið að lesa fyrir þau.

„Síðan ég byrjaði að lesa í bókasafninu hafa orðið mjög miklar breytingar, það hafa orðið kynslóðaskipti. Ég finn sérstaklega fyrir því þegar ég fer í skólana að við erum orðið miklu fjölbreyttara samfélag og það er ekki jafnauðvelt að lesa fyrir börn sem tala og skilja tungumálið tæpitungulaust. Ég finn það líka, af því að ég er að lesa sömu sögurnar, að ég er að útskýra önnur orð en ég var að útskýra. Ég æfi mig alltaf áður en ég les bækurnar en núna þarf ég að taka sum orð og einfalda töluvert en þarf samt kannski að útskýra þau. Það er svolítið mitt sérkenni að börnin eru þátttakendur í lestrinum. Ég var t.d. að lesa Grýlusögu í morgun í skóla og þá tekur Grýla upp jólaköttinn og hristir á honum skottið og þá læt ég krakkana gera það. Þetta er samvinna. Þau hrjóta fyrir Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi og syngja afmælissönginn fyrir Línu langsokk í þeirri bók – en ég finn að ég þarf töluvert að finna önnur orð þegar ég er að lesa. Ég les ekki staf fyrir staf þegar ég er að segja sögu, ég er að leiklesa eða endursegja. Ég les aldrei alla bókina, ég vel mér kafla úr. Eins og í þessari bók um Línu langsokk er enginn afmælissöngur en við syngjum hann samt, svo er Lína að baka piparkökur og þá stel ég Piparkökulaginu úr Dýrunum og syng hann – þannig að ég er að búa til mitt eigið leikrit úr þessum efnivið sem ég hef.“

Notalegar sögustundir hafa notið mikilla vinsælda í gegnum árin og Halla segist hafa heyrt af ömmum og öfum sem nánast slást við foreldrana um að fá að koma með barnabörnin en krakkarnir hafa svo gaman af því að taka þátt í lestrinum.

Halla sem Grýla í leikritinu Hamagangur í hellinum. Grýla mætir gjarnan í Notalegar sögustundir þegar dregur nær jólum.
Dýrirn í Hálsaskógi er alltaf jafnvinsælt hjá krökkunum.

„Þegar ég er að segja sögur þá eru börnin þátttakendur, ef ég er að lesa um Mikka ref þá spyr ég þau: „Hvernig talar Mikki refur?“ og tala svo bæði mjóróma eða djúpradda. Þá koma þau með sínar útgáfur. Ég syng lög, í hverri einustu sögustund eru svona þrjú til tíu lög. Þau hafa vel úthald í þetta og svo endum við alltaf á einhvers konar hreyfingu, hvort sem það er Höfuð, herðar, hné og tær eða eitthvað annað.“

Og er þetta alltaf jafn gaman?

„Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Að skemmta fólki er það skemmtilegasta sem ég geri,“ sagði Halla Karen að lokum en allt viðtalið við Höllu Karen má sjá í spilaranum hér að neðan.