Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Að sjá fjölskylduna sína glaða, ánægða og heilbrigða, það er svo dýrmætt
Mánudagur 19. desember 2011 kl. 10:24

Að sjá fjölskylduna sína glaða, ánægða og heilbrigða, það er svo dýrmætt

„Ég er mikið jólabarn og hefðirnar hafa alltaf verið miklar hjá okkur en hafa aðeins breyst í tímanna rás, fyrst voru þær tengdar mínum foreldrum og tengdaforeldrum, en undanfarin 20 ár, þá byrjar þetta hjá fjölskyldunni með jólaföndri í endann nóvember,“ segir Soffía Ólafsdóttir. Hún er fædd og uppalin í Garðinum þar sem hún ól einnig upp stóran barnahóp með eiginmanni sínum, Sæmundi heitnum Klemenssyni. Fyrir nokkrum árum flutti Soffía til Reykjanesbæjar þar sem hún ætlar að fá fjölskylduna til sín á Þorláksmessu í árlega skötu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fyrstu jólaminningarnar?

Ég fékk töluvert af jólapökkum þegar ég var lítil og ein jólin man ég eftir að frændi minn kom með töluvert „stóran pakka“, ég byrja á því að taka hann upp og það er pappír og pappír og svo koma hvatningarorð t.d. „Leitið og þér munuð finna“ og ég var orðin mjög vonsvikin og svolítið súr víst, en hélt áfram og á endanum kom gjöfin, fallegir fingravettlingar og lítil falleg næla.


Jólahefðir hjá þér?

Ég er mikið jólabarn og hefðirnar hafa alltaf verið miklar hjá okkur en hafa aðeins breyst í tímanna rás, fyrst voru þær tengdar mínum foreldrum og tengdaforeldrum, en undanfarin 20 ár, þá byrjar þetta hjá fjölskyldunni með jólaföndri í endann nóvember (alltaf sem næst afmæli húsmóðurinnar!). Á Þorláksmessu koma allir í skötu til mín. Síðustu ár höfum við borðað með fjölskyldu dóttur okkar og ég geri það áfram. Seinna á aðfangadagskvöld er farið til fjölskyldu sonanna sem búa hér á Suðurnesjum, á jóladag er farið til fjölskyldunnar á Seltjarnarnesi. Annan jóladag koma börn, tengdabörn og barnabörn til mín. Á gamlársdag kemur svo stórfjölskyldan saman hjá mér, við kveðjum árið og fögnum nýju með mat og drykk, hópumst saman fyrir framan sjónvarpið og horfum á Áramótaskaupið og skjótum svo upp flugeldum sem keyptir eru hjá Björgunarsveitunum.


Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?

Já ég myndi segja það og ég hef gaman af að fá fólk í mat. Spennandi að lokka fram girnilega rétti.


Uppáhalds jólamyndin?

Ég fer mjög lítið í bíó, en það myndband sem er í uppáhaldi hjá mér og var mikið spilað hér á árum áður og sat ég oft með barnabörnunum og horfði á, er Jólaósk Önnu Bellu, klassísk jólamynd um ósíngjarna gjafmildi og sanna vináttu.


Uppáhalds jólatónlistin?

Ég spila mikið jólalög, íslensk og erlend allt í bland og á mikið af jóldiskum, undanfarin ár hef ég farið mikið á tónleika eins og Frostrósir, Björgvin Halldórsson og á tónleika hjá KK og Ellen. Í ár verður farið á afmælistónleika Frostrósa í Hörpu og Klassík Frostrósa og jólatónleika Baggalúts, hlakka mikið til.


Hvar verslarðu jólagjafirnar?

Ég reyni að versla sem mest hér heima.


Gefurðu mikið af jólagjöfum?

Ég gef stórfjölskyldunni minni jólagjafir, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum en þetta telur um 25 manns.


Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Já svona frekar vanaföst en samt hef ég góða aðlögunarfærni, það er nú bara þannig að það er ekki hægt að hafa allt eins og var og þá þarf maður að hafa þá hæfni að aðlaga sig breyttum aðstæðum. En eitt hefur ekki breyst frá því ég fór að búa fyrir 50 árum að ég bý alltaf til sítrónubúðing sem er eftirréttur og var alltaf á aðfangadag en er núna á gamlársdag.


Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

Þegar dóttir mín var skiptinemi í Bandaríkjunum ein jólin þá sendi hún okkur kasettu þar sem hún hafði spilað á píanó lagið hans Stevie Wonder, I just called to say I love you, hugljúft lag sem fengu tárin til að brjótast fram.


Hvað langar þig í jólagjöf?

Mig vantar nú ekki neitt, á svo mikið. En að sjá fjölskylduna sína glaða, ánægða og heilbrigða það er svo dýrmætt og að fá gott faðmlag, bros og vingjarnleg orð það er besta jólagjöfin.


Hvað er í matinn á aðfangadag?

Það verður humar í forrétt, og lambakjöt í aðalrétt og svo er eftirréttur en ekki alltaf sá sami en ég verð hjá fjölskyldu dóttur minnar á aðfangadag.


Eftirminnilegustu jólin?

Þegar ég var 14 ára þá kom rafmagn að Ásgarði, rétt fyrir jólin 1957 þar sem ég bjó með foreldrum mínum og föðurforeldrum, og þá í fyrsta sinn var keypt gervijólatré og rafmagnskertasería, þetta tré og þessi sería fylgdi foreldrum mínum til fjölda ára og alltaf gaman að rifja þetta upp. En ég man hvað allt var mikið bjart eftir að rafmagnið kom en áður var bara lýst upp með olíulömpum og varð frekar að spara þessa lýsingu og ég man hvað sótaði oft með þessum lömpum.