AÐ FARA .....EÐA FARA EKKI!
Heil og sæl öllsömul! Það er óneitanlega langt liðið frá síðasta pistli og engu um að kenna, nema leti pistlaskrifara. Nú er hugmyndin að bæta um betur og hrista fram nokkra pistla á árinu. Já, meðan ég man gleðilegt ár og þakka ykkur allt gamalt og gott! Einhver hefur eflaust ráðið það af fyrirsögn og tímasetningu pistilsins, að hann fjalli um prófkjör.Eflaust muna einhver ykkar, að ykkar elskanlegur brá sér í prófkjörsslag fyrir fjórum árum og náði fjórða sæti á lista Alþýðuflokksins á eftir þrem þáverandi þingmönnum.Í kosningunum var síðan lagt kapp á að halda þessum þremur inni, en það tókst því miður ekki. Ég (og mitt fólk eins og alvöru pólitíkusar segja) ákvað, að í næstu kosningum yrði stefnt á þriðja sætið, baráttusæti og auðvitað að vinna þingsætið.Varla hefur farið fram hjá neinum að Alþýðuflokkurinn býður í ár fram með vinum og vandamönnum undir heiti Samfylkingar. Ég sem mikill áhugamaður um pólitík fylgdist vandlega með byrjun þreyfinga og af mikilli athygli. Sú athygli breyttist fljótlega í undrun sem jókst daglega eftir því sem fjölgaði inn- og útgöngum kvennalistakvenna í flestum landshornum. Undrunin vék síðan smá saman fyrir leiða, þar til ég hrökk upp með andfælum við það að skila átti inn prófkjörstilkynningum eftir viku. Hlutirnir voru sem sé aldeilis komnir á fullt. Fresturinn rennur út á morgun ( 15. jan) og að sjálfsögðu fá Suðurnesjamenn mínar skýringar á ákvörðun minni.Venjan er að segja að margir hafi hvatt mann til að fara fram, en það væri bara haugalygi. Þeir sem hafa talað við mig hafa undantekningarlaust held ég ráðlagt mér að láta slíkt eiga sig. Hvort það er með mína velferð eða samfylkingarinnar í huga verður hver að gera upp við sig.Ljóst er að fyrirkomulag prófkjörs þýðir, að þingmenn Jafnaðarmanna fá tvö af fjórum efstu sætum og síðan það fimmta. Óbreyttir jafnaðarmenn eins og ég og fleiri eigum von á 6. Sæti og síðan næst því níunda. Fyrir fjórum árum ákváðum við að auglýsa ekki í fjölmiðlum fyrir prófkjör, svokallað heiðursmannasamkomulag, sem flestir héldu fullkomlega. Nú er ekkert heiðursmannasamkomulag gert heldur ákvörðun að ofan um að allir skulu jafnir, og skulu fá jafnmikla kynningu í flokkslegri blaðaútgáfu næstu 3 vikur, bæði þingmenn sem allir þekkja með nafni og í sjón og síðan lítt frægir menn eins og ég. Finnst nokkrum þetta ójafn leikur? Ekki er heldur loku fyrir það skotið að þingmönnum takist að láta sér bregða fyrir í sjónvarpi alveg óvart næstu daga og vikur.Reyndar er það nú svo, að ég hef oft í leik og starfi verið tilbúinn til að leggja mig allan fram þó ójafn væri leikurinn, en sannleikurinn er sá, að ég finn mig því miður skorta samfylkingareldmóðinn, sem þarf til að vera í framlínu fyrir þessi samtök á Reykjanesi. því eftirlæt ég öðrum það að berjast um þau sæti sem minn flokkur fékk í kvóta þar. Ég verð að sjálfsögðu áfram gamaldags jafnaðarmaður og óbreyttur liðsmaður í þeim slag sem framundan er. Það er meira að segja aldrei að vita nema ég sendi frá mér létta grín- og ádeilupistla á næstunni. Af nógu er jú að taka!Mottó dagsins ? “Fjörið í kjörið “Með hafnfirskri kveðjuHrafnkell