Að búa við Manhattan er ákveðin lífsreynsla
Davíð Þór Þórarinsson býr á Long Island í New York ásamt konu sinni, Rebeccu Marcus, yngstu dótturinni Jessicu og kisunum Ziggy og Violet. Hann hefur búið í New York í átta ár. Hann á einnig tvær eldri dætur, Meja sem býr í Florida og Elmu sem býr í Stokkhólmi. Davíð, eða Dabbi eins og hann er kallaður, starfar sem tæknimaður hjá vogunarsjóði sem heitir Exoduspoint Capital Management á Manhattan.
– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?
„Ég flutti fyrst til Ísrael árið 1982, tólf ára gamall, þegar faðir minn, Þórarinn Eyjólfsson, fékk vinnu hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég flutti heim aftur árið 1988 til að stunda nám en flutti svo aftur út, til Svíþjóðar árið 1994. Það var sennilega mest í leit að ævintýrum og til þess að komast nær fjölskyldunni sem var ennþá búsett erlendis.“
– Var erfið ákvörðun að söðla um og flytja í annað land?
„Nei, ég get ekki sagt það. Ég hef alltaf haft gaman af því að ferðast og læra um heiminn sem við búum í.“
– Saknarðu einhvers frá Íslandi?
„Jú, að sjálfsögðu! Fjölskyldan, vinir, maturinn, fjöllin og náttúran. Það er kanski vert að minnast á að það er orðið alltof erfitt að finna siginn fisk í soðið þegar maður kemur heim.“
– Er eitthvað framandi sem hefur komið þér á óvart þar sem þú býrð núna?
„Nei, í raun og veru ekki. Ég var meðal annars í amerískum, alþjóðlegum gagnfræðiskóla í fjögur ár og á bæði fjölskyldu og vini hérna frá þeim tíma þannig að ég vissi ágætlega hvað ég var að gefa mig inn í. Það sem er kannski erfiðast að venjast eru blæbrigði hversdagsleikans sem maður rekst á þegar maður fer frá einu vestrænu ríki til annars.“
Dabbi, sem er fimmtugur á þessu ári, hefur búið erlendis samanlagt í 32 ár. Hann bjó í Ísrael í um sex ár, átján ár í Svíþjóð og svo átta ár í Bandaríkjunum.
– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?
„Að búa við Manhattan er ákveðin lífsreynsla. Það gerist ýmislegt hérna og lífið hér er mjög breytilegt og áhugavert. Eitt sinn las ég viðtal við mann sem hafði ferðast til allra landa í heiminum. Þar tók hann fram að ef einhver ein borg ætti að vera höfuðborg heimsins ætti það að vera New York og ég er sammála því. Maður kynnist fólki frá öllum heiminum hérna, ásamt þeirra menningu og siðum. Þetta er mjög alþjóðleg borg sem fellur mér vel í geð.“
– Hvernig er að vera með fjölskyldu og börn þarna?
„Það eru bæði kostir og gallar. Lífið hérna tekur aldrei pásu og það er aldrei slakað á. Það er mikil traffík og fólk alls staðar sem getur skapað streitu og neikvæðni ef maður fer ekki varlega. Hins vegar, eins og ég nefndi, þá er ákveðin lífsreynsla að búa hérna sem er mjög jákvætt líka.“
– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?
„Hefðbundinn dagur hjá mér þessa dagana gengur út á að vinna fyrst og fremst. Fyrir ástandið vann ég oftast á skrifstofunni okkar í Manhattan en ég er búinn að vera vinna heima í u.þ.b. einn og hálfan mánuð. Ég vinn mikið sjálfstætt og með fólki bæði í Evrópu og Austurlöndum fjær -þannig að ég er vanur að vinna með bara síma, tölvur og vídeóbúnað til þess að hafa samband við fólk. Ég þurfti ekki langan tíma til þess að aðlagast þessum aðstæðum.“
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
„Jú, það geri ég. Gangur lífsins er breytilegur, stundum gengur vel og stundum blæs á móti. Maður verður bara að spýta í lófana og takast á við það sem er í boði með bros á vör, einn dag í einu.“
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
„Eins og er hef ég ekki mikinn tíma til þess að sinna meira en vinnu og heimili þannig að ástandið hefur ekki haft sérstaklega stór áhrif á hversdagsleikann hjá mér. Það fjallar kannski mest um að koma sér út í göngu með konunni eða fara út að hlaupa, hafa samband við fjölskyldu og vini. Þau áhugamál sem ég hef eru ekki beint til hæfis þessa dagana, eins og að fara á tónleika, flakka um borgina, fara á góða veitingastaði og svo framvegis.“
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
„Fljótin í Skagafirði standa mér nærri. Afi minn var ættaður þaðan og ég hef eytt mörgum góðum stundum þar. Suðurlandið hef ég einnig gaman af að heimsækja.“
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
„Það er alveg óráðið. Ég mun standa í ströngu vinnulega séð fram til febrúar eða mars á næsta ári. Svo er það spurningin er hvort að COVID-19 sleppi okkur eitthvað úr greipum sér og hvernig það hefur áhrif á framhaldið. Ef ferðalög halda áfram að vera óæskileg þá gerum við bara gott úr hlutunum hérna heima.“
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
„Ég var með plön á að fara til Svíþjóðar og hitta systkini mín í júlí og svo vildi ég einnig koma heim á Ljósanótt í ár.“
– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?
„New York hefur orðið illa fyrir barðinu á COVID-19 eins og vitað er. Að sjálfsögðu hefur fólksfjöldinn sem býr þétt hérna stór áhrif á útbreiðsluna, þrátt fyrir að flestir standi sig vel og reyni að gera sitt besta til þess að halda sér heimavið. Ég held að flestir þekki núna einhvern sem hefur orðið fyrir barðinu á þessum vírus sem gerir þetta meira raunverulegt fyrir fólk og fær það til þess að sjá betur að sér. Svo er tilhneiging til þess að breyta þessu í pólitíska umræðu sem ekki bætir málin. Margt fólk hefur misst vinnuna og þá missir fólk einnig heilsutryggingar og svo framvegis, sem er alls ekki gott. Umræðurnar snúast mikið um hvernig hægt er að koma fólki í vinnu aftur án þess að skapa meiri hættu og aukinn þrýsting á sjúkrastofnanir.“
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
„Það hefur margt breyst. Það er nánast ómögulegt að fá matvörur sendar heim, sumar nauðsynjavörur hafa verið í skornum skammti hérna, eins og annars staðar, og að nálgast matvörur er ekki auðvelt heldur þegar mikill fjöldi fólks þarf að versla og halda sér frá öðru fólki líka. Það sem hefur líka breyst er að það er minni hávaðamengun og hreinna loft þannig að breytingarnar eru ekki allar slæmar. Við höfum það samt gott og getum ekki kvartað. Ég fer einu sinni í viku út í búð að ná í það sem okkur vantar og þá fer ég rétt fyrir lokun á miðvikudagskvöldum þegar flestir eru farnir heim. Það hefur virkað vel.“
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
„Mikið af þeim lærdóm sem við þurfum að draga af þessu mun ekki koma fram alveg strax en ég yrði ekki hissa ef umræður munu snúast um t.d. hvernig frjálsræði fólks verði minnkað til þess að auka öryggi almennings. Þann lærdóm sem við getum séð strax er kannski að internet ætti að vera grundvallaréttur, mikilvægi menntunar, mikilvægi hreinlætis, mikilvægi þess að vera í sambandi við fjölskyldu og vini reglulega og svo að sjálfsögðu að virða náttúruna. Svona getur maður lengi haldið áfram.“
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
„Í vinnunni er það Zoom og Skype ásamt Symphony fyrir hópspjall. Fyrir fjölskyldu og vini er það mest Facetime ásamt Whatsapp“.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
„Ef ég gæti hringt þetta símtal í hvern sem er myndi ég hringja í Neil deGrasse Tyson. Þrælskarpur náungi sem hefur margt að segja og er með húmorinn í lagi.“