„Að allir hafi áhuga á veiði það gerir þetta enn skemmtilegra“
– segir Anna María Sveinsdóttir útibússtjóri TM í Reykjanesbæ
HVERNIG VAR SUMARIÐ 2018? // „Sumarið mitt er búið að vera frekar rólegt, þ.e. hvað varðar ferðalög. En það sem stendur upp úr er æðisleg ferð til Ítalíu með vinkonum og mökum þar dvöldum við í tíu daga í góðu yfirlæti, borðuðum góðan mat og drukkum góð vín, skoðuðum okkur um og lágum í leti. Betra frí var ekki hægt að hugsa sér. Alveg sjúklega skemmtileg ferð, mikið hlegið og safnað minningum með þessum mjög svo skemmtilega hópi,“ segir Anna María Sveinsdóttir, útibússtjóri TM í Reykjanesbæ, spurð út í sumarið 2018.
Anna María er mikil veiðikona og hefur gaman af veiðiferðum:
„Nokkrar veiðiferðir hafa verið farnar, m.a. í Vatnsdalsá með veiðihópnum GCD, Reykjadalsá í Borgarfirði og Víðidalsá á Ströndum með fjölskyldunni. Það er geggjað að allir hafi áhuga á veiði – það gerir þetta enn skemmtilegra“.
Anna María varð amma á síðasta ári „þannig að það hefur verið mikið fjör að dekra við Daníel Hólm sem er algjör krúttsprengja,“ segir hún um barnabarnið.
Hvað með hefðir á Ljósanótt?
„Ljósanótt hefur hingað til byrjað á sushi-gerð og sölu með stelpunum í körfunni en það verður ekki í ár, þannig að fastur liður er fimmtudagsrölt með vinkonunum, kíkja aðeins á sýningar og í búðirnar og fá sér kannski einn kaldann einhversstaðar. Á föstudagskvöldið eru heimatónleikarnir orðinn fastur liður hjá mér og svo árgangagangan á laugardeginum. Annað ræðst bara svona af veðri og stemmningu“.