Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Á toppi Kilimanjaro
Þriðjudagur 7. febrúar 2006 kl. 11:21

Á toppi Kilimanjaro

Kristján Pálsson formaður Ungmennafélags Njarðvíkur og Ferðamálasamtaka Suðurnesja fór nýverið upp á Kilimanjaro í Afríku sem nýtur vaxandi vinsælda meðal fjallaklifrara frá Íslandi. Blaðinu lék forvitni á að vita hver ástæða ferðarinnar hefði verið og hvernig hefði gengið.

Já það er rétt að ég fór ásamt tveim öðrum upp á þetta mikla fjall sem er hæsta frístandandi fjall í heiminum og hæsta fjall í Afríku 5895 metra hátt. Upphafleg ástæða ferðarinnar var að bróðir minn Ólafur Karvel vildi halda uppá 60 ára afmælið sitt uppi á Kilimanjaro og bauðst ég til að slást í förina. Við vorum þrír félagarnir við bræðurnir og Eiríkur Einarsson bókasafnsfræðingur hjá Hafró.

Ferðin gekk vel og vorum við 4 daga upp á fjallið og 2 daga niður. Gist var í þremur fjallaskálum á leiðinni. Þó þetta fjall sé mjög hátt er líkamlegt álag sem fylgir langri göngu ekki erfiðasti hjallinn í þessu tilfelli heldur þunna loftið. Það hefur verið rannsakað að í 3600 metra hæð hafi blóðið misst 40% af hæfileikanum til súrefnisupptöku. Þetta orsakar svonefnda háfjallaveiki sem lýsir sér í svefnleysi, öndunartruflunum, höfuðverk, uppköstum og magakveisum. Það er þó mjög misjafnt hvernig líkami og sál fólks bregst við þessum erfiðu ytri aðstæðum. Að klífa Kilimanjaro krefst því ekki aðeins líkamlegs styrks heldur einnig andlegs jafnvægis og viljastyrks. Viljastyrks segi ég vegna þess að á göngunni er maður sífellt að hlusta á líkamann við vaxandi hæð og hefur áhyggjur af því að eitthvað geti farið úrskeiðis. Á hverjum degi mætir maður sjúkraflutningamönnum sem eru að trilla fólki á sjúkrabörum á einu hjóli niður fjallið, fólki sem hefur gefist upp eða veikst. Frá síðustu búðunum upp á fjallið sem kallaðar eru Kíbo í 4700 metra hæð lögðu af stað um 25 manns á svipuðum tíma og við en um helmingur þeirra snéri við áður en að toppnum kom. Eitt lykilmálið í svona göngu er að ganga mjög rólega eða pole, pole eins og heimamenn kalla það og að drekka mikið af vatni.

Síðasti áfanginn er genginn fyrstu klukkustundirnar í myrkri enda lagt af stað klukkan 11 um kvöldið. Það er mögnuð upplifun að vera að puða upp í myrkrinu í þessari gríðarlegu hæð í snarbrattri hlíðinni. Þarna kemst maður einstaklega nærri stjörnunum og næstum hægt að grípa þær að mér fannst. Við komum upp á Gilman´s point kl 06:15 sem er 5681m hár á gígbarmi Kilimanjaro sem er risastórt eldfjall. Rétt eftir að við komumst þangað kom sólin upp og var það hreint mögnuð sýn. Eftir myndatökur frá Gilman´s point var haldið af stað aftur og þá í átt að hæsta punkti Kilimanjaro sem heitir Uhuru og er sunnar á gígbarminum. Við tókum okkur tæpa tvo klukkutíma til að ganga þá tvo kílómetra sem eftir voru. Við náðum Uhuru kl. 08:35 29. janúar 2006 og skáluðum í kampavíni á „þaki Afríku“ í 5895 metra hæð. Þar lét ég mynda mig með fána UMFN og Reykjanesbæjar. Fáni UMFN og Reykjanesbær hefur því blaktað á toppi Kilimanjaro.

Það er mikil áskorun að klífa Kilimanjaro og þeir sem leggja það á sig verða fyrir magnaðri upplifum. Að vinna hæsta fjall Afríku er tilfinning sem verður ekki lýst með orðum, þú verður af finna hana sjálfur. Jambó, jambó segja heimamenn í kveðjuskyni.

Eftir ferðinni á Kilimanjaro skoðuðum við þjóðgarðinn Lake Manyara og verndarsvæðið í Ngorongoro. Í Ngorongoro heimsóttum við m.a. eitt af þorpum Maasai ættflokksinn, ótrúlegt fólk.

Fleiri myndir í Víkurfréttum á fimmtudaginn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024