Á tali hjá Listasafni Reykjanesbæjar
Laugardaginn 6. október stóð Listasafn Reykjanesbæjar fyrir málþingi í tengslum við yfirstandandi sýningu, Allt eða ekkert, samsýningu 55 listamanna af Suðurnesjum, leikra og lærðra. Markmiðið með málþinginu var að velta fyrir sér hlutverki, stöðu og stefnu Listasafnsins og tengslum og hlutverki safnsins í samstarfi við grasrótina á svæðinu sem er í miklum blóma.
Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs og forstöðumaður safnsins, var með stutta framsögu þar sem hún stiklaði á skyldum safnsins, stefnu, markmiðum og því umhverfi sem opinbert safn starfar í. Í pallborði sátu einnig Hermann Árnason formaður Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ, Björgvin Björgvinsson formaður Ljósops félags áhugaljósmyndara og Inga Þórey Jóhannsdóttir sem sæti á í listráði safnsins.
Tæplega 30 manns, margir úr hópi sýnenda, tóku þátt í umræðunum sem voru bæði gagnlegar og áhugaverðar. Helstu niðurstöður voru þær að mikill vilji er hjá safninu til að styðja vel við grasrótina og vera í góðu samstarfi við menningarfélögin í bænum. Sömuleiðis kom fram að listiðkendur á svæðinu eru almennt mjög ánægðir með þá aðstöðu sem bærinn hefur skapað þeim og telja hana með því besta sem gerist á landinu. Hér fái allir aðstöðu til að leggja stund á sína listsköpun án þess að þurfa að greiða fyrir það dýrum dómum. Þátttakendur lýstu líka mikilli ánægju með þetta framtak Listasafnsins að standa fyrir samsýningunni Allt eða ekkert og kölluðu eftir frekari forgöngu Listasafnsins í að hrinda verkefnum í þessum dúr af stað.