Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Á rúm í hverju einasta landi í Evrópu
Elva í River-rafting á Costa Rica.
Mánudagur 25. september 2017 kl. 06:00

Á rúm í hverju einasta landi í Evrópu

-Elva Dögg Sigurðardóttir hefur minnkað pressuna á sjálfa sig og ferðast um heiminn án samfélagsmiðla

„Það er svo ótrúlega gaman að ferðast og upplifa nýja hluti. Ísland er svo lítill partur af heiminum,“ segir Elva Dögg Sigurðardóttir, en síðustu ár hefur hún flakkað á milli staða í útlöndum og elt draumana sína. Fyrir þremur árum síðan ákvað hún að prófa eitthvað nýtt og skráði sig á tungumálanámskeið í Sevilla á Spáni. Síðan þá hefur hún meðal annars búið í Cádiz og Granada á Spáni, ásamt því að ferðast um Mið-Ameríku og starfa á Lanzarote.


VF-mynd: Sólborg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fyrsta daginn í Sevilla var ótrúlega heitt og algjört myrkur. Mér var skutlað að húsinu sem ég átti að gista í, konan var ekki heima, ég kunni varla spænsku og þurfti að bjarga mér. Ég man ég hugsaði þegar ég var komin upp í rúm hvað ég væri eiginlega búin að koma mér út í. En svo varð þetta strax betra daginn eftir,“ segir Elva en síðan þá hefur hún flakkað á milli staða á Spáni og kynnst fólki frá öllum heimshornum. Hún segist orðin nokkuð góð í spænsku í dag, en þegar Spánverjarnir hafi ekki talað ensku átti hún ekki annarra kosta völ. „Ég lærði meira á því að vera í daglegum samskiptum við Spánverja heldur en í tungumálaskólanum. Maður þarf bara að vera óhræddur við að reyna,“ segir hún. Eftir tungumálaskólann fór hún til Cádiz þar sem hún vann á veitingastað í smábænum Conil. „Hótelið var alveg við ströndina og ég nýtti hverja lausa stund til þess að sóla mig. Núna myndi ég aldrei nenna að liggja svona lengi í sólbaði,“ segir hún.


Elva ásamt félögum sínum á La Graciosa, lítilli eyju sem er hluti af Lanzarote.

Sumarið 2016 fór Elva í ferðalag ásamt vinkonu sinni Unu, þar sem þær ferðuðust um Mið-Ameríku. „Þar sá maður hvað við höfum það virkilega gott hérna á Íslandi. Einu sinni keyrðum við inn í eina stórborgina að næturlagi og ég sá mann liggja á götunni í blóði sínu afskiptalausan, það var mjög óhugnaleg sjón.“

Elva ákvað svo að skrá sig í spænskunám ásamt því að æfa Crossfit síðastliðið haust og flutti til Granada á Spáni. „Þar deildi ég íbúð með fólki frá fimm mismunandi löndum. Lengst af bjó ég með yndislegri franskri konu ásamt dásamlegum manni frá Þýskalandi, sem hafði ekki notað skó í yfir fimm ár. Magnaður karakter sem mér þykir ótrúlega vænt um. Ég fór einu sinni með honum í fjallgöngu en ég lagði samt ekki í það að vera berfætt. Það var magnað að fylgjast með honum,“ segir Elva.

Starfar sem skemmtikraftur á Spáni
Frá því Elva var lítil hafði hana langað að prófa að starfa sem skemmtikraftur á hóteli. „Ég var búin að sækja um vinnu á skemmtiferðskipum en það gekk ekkert, svo ég ákvað að leita á Google. Þar fann ég fyrirtæki sem auglýsti eftir skemmtikrafti og umsóknarfresturinn rann út daginn eftir. Ég fékk viðtal strax daginn eftir og fór á námskeið á netinu.“ Elva fékk svo starf hjá þeim flutti þá til Lanzarote. „Þar vann ég á rosalega flottu hóteli, en á því er stærsti barnaklúbbur í Evrópu. Ég vann oftast með krökkum frá 9 til 12 ára, ásamt því að starfa í móttökunni og taka á móti nýju fólki. Þarna tók ég meðal annars þátt í Mamma Mia og We Will Rock you, sem voru sýningar á kvöldin. Þessi reynsla er mér ótrúlega dýrmæt og ég lærði ótrúlega mikið.“

Elva flutti svo aftur heim til Íslands fyrir nokkrum vikum síðan en hún hóf nám í haust við Háskóla Íslands þar sem hún lærir tómstunda- og félagsmálafræði. „Þetta nám er ótrúlega skemmtilegt. Ég ákvað að byrja í staðnámi hérna heima en svo getur maður farið út í skiptinám eftir ár og ég geri það pottþétt.“

Lögð inn á BUGL
Þegar Elva var á öðru ári í framhaldsskóla sótti hún um skiptinám til Bandaríkjanna, en umsókninni var hafnað vegna þess að hún hafði áður glímt við andleg veikindi. „Þegar ég var í 9. bekk var ég lögð inn á BUGL, sem er Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þetta byrjaði þegar ég fékk einhverja flensu og var rúmliggjandi í nokkra daga. Þegar flensan lagaðist varð eftir einhver ónota tilfinning og þyngsli innra með mér. Mig langaði ekki að hitta neinn og skildi ekkert hvað var að gerast. Ég hitti sálfræðing sem vildi senda mig á BUGL vegna sjálfsvígshugsana. Þar fékk ég mikla hjálp en eftir á að hyggja var ég ekki nógu þroskuð til að taka á móti hlutunum og læra. Ég var að glíma við ótrúlega mikinn kvíða og fullkomnunaráráttu. Ég hef alltaf reynt að standa mig svo vel í hverju einasta verkefni sem ég tek mér fyrir hendur, hvort sem það er í námi, vinnu eða íþróttum,“ segir Elva Dögg en í mörg ár á eftir átti hún í erfiðleikum með pressuna sem hún setti á sig sjálfa. „Ég skildi ekki af hverju mér leið svona illa, ég á svo góða fjölskyldu, ótrúlega góða vini og var að standa mig vel. Manni finnst maður ekki eiga að geta liðið svona illa því maður hefur allt. Ég setti óraunhæfar kröfur á sjálfa mig og síðustu tvö ár hef ég lært að setja miklu minni kröfur. Það hefur tekið á og ég á það til að fara fram úr mér, en mér líður mun betur núna. Ég þarf ekki að vera best í öllu,“ segir Elva Dögg.

Hætti á Snapchat og Instagram
Fyrir tveimur árum síðan ákvað hún að hætta að nota Instagram og Snapchat fylgdi svo með í kjölfarið ári síðar. „Það var mjög mikill léttir að hætta á þessum miðlum. Ég fæ núna ekki jafn mikið af óþarfa upplýsingum. Ég þarf ekkert að vita hvað hver einasta manneskja á Snapchat er að gera, það gagnast mér ekkert. Svo er ótrúlega gaman að heyra vinkonur sínar segja frá því sem þær hafa verið að brasa, án þess að vera búin að sjá það sjálf á netinu. Kannski byrja ég samt aftur einhvern tímann seinna, en þá á öðrum forsendum.“

Hún segist aldrei fá heimþrá og líði vel úti, en hún fái þó stundum leið á stöðunum og langi til að skipta um umhverfi. „Mamma saknar mín þó alltaf mest af öllum, en hún er sú sem hvetur mig mest áfram. Eftir tvo daga á Íslandi langar mig strax að fara aftur út,“ segir hún.

Eyðir minna og nýtir meira
Eftir að hafa búið þennan tíma á Spáni er Elva farin að nýta hlutina meira, eyðir minni pening og er orðin mikill umhverfissinni. „Launin á Spáni eru náttúrulega mun lægri en á Íslandi en það er ódýrt að halda sér uppi. Ég hef alltaf verið sparsöm og hef frá því ég var lítil passað vel upp á peninginn minn. Ég eyði ekki pening í óþarfa hluti.“ Hún segir standardinn sinn einnig hafa lækkað rosalega mikið eftir að hafa búið á Spáni. „Þegar ég mætti á hótelið sem ég vann á var mér sýnt herbergið mitt. Í því var ekkert nema rúm. Sturtuhengið var í henglum, ekkert náttborð og ekkert leirtau. Þá minnti ég sjálfa mig á fyrsta daginn í Sevilla. Ég reddaði þessu svo auðvitað bara, skreytti veggina með myndum og þetta blessaðist allt.“

Hún segist hiklaust ætla aftur út en hvenær það verður veit hún ekki. „Það sem stendur klárlega upp úr eru vinirnir sem maður eignast. Ég á orðið rúm í hverju einasta landi í Evrópu núna sem ég get gist frítt í, þetta kemur bara í ljós.“


Faðir Elvu, Sigurður Skarphéðinsson, móðir Elvu, Linda Hrönn Birgisdóttir og systir hennar, Agnes Perla.