Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Á puttanum í Bláa Lónið
Þriðjudagur 19. ágúst 2003 kl. 15:32

Á puttanum í Bláa Lónið

Þeir félagar Yoav Beck frá Frakklandi og Eli Ron frá Bandaríkjunum voru á leið í Bláa Lónið í dag, en þeir fara af landi brott á morgun. Þeir stóðu við vegkantinn með puttann upp í loftið, í von um að einhver góðhjartaður bílstjóri myndi taka þá upp í. Yoav og Eli eru báðir háskólanemar, en þeir hafa verið á ferðalagi um Ísland í tvær vikur. Þeim hefur litist vel á landið og þeim finnst báðum náttúran vera stórbrotin. Þeir hafa að mestum hluta ferðast um suðurhluta landsins og farið aðeins inn á miðhálendið. Meðal þeirra staða sem þeir hafa komið á eru Landmannalaugar, Vestmannaeyjar og Kerlingarfjöll. Eli segir að náttúran hafi komið sér skemmtilega á óvart. „Landslagið á Íslandi er svo stórbrotið og litirnir svo áberandi fallegir.“ Þeir eru sammála um að heimsækja Ísland aftur í náinni framtíð, en þá segjast þeir verða betur búnir. „Við erum ekki alveg nógu vel útbúnir í þetta skiptið því veðrið hefur ekki verið svo gott þann tíma sem við höfum verið hér. Það hefur rignt mikið og verið töluvert hvasst. En við erum samt sem áður rosalega ánægðir með ferðina,“ segja þessir hressu félagar og setja puttanna upp í loftið á nýjan leik í von um að einhver stoppi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024