Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Á öðru hundraðinu: Suðurnesjarallið hefst í dag
Föstudagur 19. maí 2006 kl. 12:12

Á öðru hundraðinu: Suðurnesjarallið hefst í dag

Ökuþórarnir Jón Bjarni Hrólfsson og Borgar Ólafsson verða í eldlínunni um helgina, en þeir munu þá taka þátt í Suðurnesjarallinu. Ökumaðurinn Jón Bjarni er Keflvíkingur sem hefur verið viðriðinn rallý frá árinu 1995 og Borgar hefur verið enn lengur að.

Þeir færðu sig upp um flokk fyrir þetta ár og keppa nú í 2000 flokki, sem eru næst öflugustu bílarnir, og eru með nýjan bíl, tveggja dyra Ford Focus sem þeir hafa verið að standsetja í vetur.

„Hann skilar einhverjum 180 hestöflum,“ segir Jón Bjarni um fákinn, en meðal annars er búið að skipta um gírkassa, bremsur og setja undir hann sérstaka fjörðun sem kemur mjög vel út að sögn þeirra félaga.
Framundan er strembið sumar með sex skemmtilegum mótum. Rallý er afar tímafrekt áhugamál og ekki síður erfitt fjárhagslega. „Það er kannski lýsandi fyrir þetta að þegar maður fer út spyr konan: hvenær sé ég þig aftur?“ segir Borgar og brosir í kampinn. „Það fer auðvitað mikill tími í að gera bílin kláran en jafnvel meira í að kortleggja brautirnar svo við gjörþekkjum þær þegar kemur inn í keppnina.“
Þrátt fyrir það eru þeir félagar forfallnir rallfíklar. „Þetta er alveg ótrúlegt kikk. Maður er bara hraðafíkill og fær fiðring þegar maður er á öðru hundraðinu á malarvegunum.“

Öryggiskröfurnar eru mjög strangar þar sem Landsambandið fer yfir alla bíla sem keppa og allt er gert til að koma í veg fyrir meiðsl. Enda hafa þeir aldrei lent í alvarlegum slysum.
Jón Bjarni og Borgar segjast vera bjartsýnir fyrir helgina, enda bíllinn í toppstandi. „Við förum í þessa keppni til að vinna eins og alltaf. Til þess er maður í þessu, en ekki bara til að vera með!“

Keppni hefst í kvöld á Vogastapa og fer fyrsti bíll af stað kl. 18. Eftir það er keppt á leiðum á Nikkelsvæðinu og hefst keppnin þar kl. 19 og loks við Keflavíkurhöfn. Báðar leiðir hafa verið afar vinsælar meðal áhorfenda.
Á laugardag er svo ekið úti á Reykjanesi við Djúpavatn og Ísólfsskála, en keppni lýkur á Nikkelsvæðinu og verður verðlaunaafhending á Go-kartbrautinni kl. 16.

Áhugasamir eru hvattir til að mæta á staðinn og fylgjast með frábærum ökumönnum sýna listir sýnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024