Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Á mjúku nótunum með stóran draum
Mánudagur 25. september 2017 kl. 07:00

Á mjúku nótunum með stóran draum

- Sólmundur Friðriksson tónlistarmaður gefur út sína fyrstu sólóplötu og heldur útgáfutónleika

Sólmundur Friðriksson tónlistarmaður gefur út sína fyrstu sólóplötu um þessar mundir og mun af því tilefni halda útgáfutónleika í Hljómahöll þann 29. september n.k. Platan ber heitið „Söngur vonar“ og eru öll lög og textar eftir Sólmund.
Dagný Maggýjar hitti Sólmund einn sólríkan sunnudag til þess að ræða tónlistina og draumana sem hafa verið lengi í fæðingu.

„Þetta er búin að vera ansi löng fæðing,” segir Sólmundur sposkur á svip.  „Ég var kominn með efni í plötu í kringum 2005 en var ekki að gera neitt með það. Ég held það séu örugglega komin meira en þrjú ár síðan ég gerði fyrsta „demó-ið“ með tveimur góðum vinum, Eiríki Hilmissyni sem spilaði með mér með Geirmundi Valtýssyni á sínum tíma, og svo Arnóri Vilbergssyni. Svo fengum við Þorvald Halldórsson slagverksleikara með okkur og byrjuðum að prófa að útsetja og æfa. Pælingin var að taka efnið að mestu upp „live" og hafa vinnsluna eins einfalda og ódýra og hægt væri. Við ætluðum að byrja að taka upp í vor en þá var Eiki bundinn í öðru og fékk ég þá Davíð Sigurgeirsson gítarsnilling til að taka verkið að sér.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sólmundur ætlaði upphaflega að gefa sér plötuna í fertugsafmælisgjöf en þegar að gekk ekki eftir var markið sett á 45 ára aldurinn.
„Ég er að ná þessu núna á fimmtugsafmælinu - allt er þá þrennt er,“ segir Sólmundur og hlær. „Alveg týpískt fyrir minn mann, mjög duglegur að fá hugmyndir og láta mig dreyma en framkvæmdahliðin ekki alveg jafn öflug.“

Að sögn Sólmundar var það Arnór Vilbergsson organisti sem ýtti við honum en þeir starfa saman í Keflavíkurkirkju þar sem Sólmundur syngur bæði með kirkjukórnum og karlakvartettinum Kóngunum. „Ég var oft að koma með lög til hans í kirkjuna og hann var að setja á nótur fyrir mig. Svo á endanum sagði hann að það færi ekkert í gang hjá mér fyrr en ég hreinlega myndi ákveða stað og stund fyrir útgáfutónleika. Ég gerði það og þá fór hlutirnir að gerast.“

Platan kannski svona eins og ég, frekar á mjúku nótunum
Þegar Sólmundur er beðinn um að lýsa plötunni verður hann hikandi. Hann sýpur á kaffinu og hugsar sig um.
„Mér finnst ferlega erfitt að skilgreina mína eigin tónlist, held að sé best að láta aðra um það. Ég held ég geti samt fullyrt að hún sé frekar þægileg og áreynslulítil í hlustun. Kannski svona eins og ég sjálfur, frekar á mjúku nótunum,“ segir hann og brosir.  „Yrkisefnið er mest pælingar um lífið og tilveruna, byggt á minni reynslu, en hún er samt ágætlega fjölbreytt  myndi ég segja.“

Að sögn Sólmundar hafa upptökur gengið vel enda hafi verið mikil gæfa að fá Davíð til þess að stjórna þeim.
„Hann er ekki bara galdramaður á gítarinn heldur frábær alhliða tónlistarmaður - eiginlega svona sjóðandi seiðkarl. Hann tengdi strax vel við efnið og við höfum átt mjög gott samstarf. Þetta er fyrsta platan okkar beggja þannig að þetta hefur verið mjög lærdómsríkt á báða bóga. Ég veit ekki með mig, en hann á pottþétt eftir að gera frábæra hluti á þessu sviði í framtíðinni.“

Forréttindi að fá að vinna tónlist með börnunum sínum
Fjölskyldan tekur virkan þátt í þessu verkefni og dæturnar eiga greinilega ekki langt að sækja tónlistaráhugann - hvernig er að vinna með börnunum sínum?

„Alveg yndislegt, það eru bara forréttindi að fá að vinna tónlist með börnunum sínum. Þær Hildur og Agnes eru miklir hæfileikabunkar í tónlistinni, góðar söngkonur og með þetta listræna innsæi sem er ekki öllum gefið. Við náum alveg einstaklega vel saman og höfum verið að leika okkur að syngja saman raddað sem kemur mjög vel út. Yngsta dóttirin er líka mjög efnileg söngkona og hefði pottþétt verið með ef ég hefði beðið í nokkur ár með að fara í þetta verkefni.“

Útgáfutónleikarnir verða haldnir í Hljómahöll á afmælisdegi Sólmundur 29. september og vonast Sólmundur eftir góðri aðsókn. Með Sólmundi verða á sviðinu góðir vinir og samstarfsmenn í gegnum tíðina og að sjálfsögðu dæturnar.

Engin ástæða til annars en að setja stefnuna þangað sem maður vill
„Ég er svo heppinn að eiga góðan kjarna af vinum til að spila með og er það komið svo að öll stórsveitin sem spilað hefur í „Blikinu“ síðustu ár á Ljósanótt verður með mér á tónleikunum, þ.e.Valdi,  Arnór, Bubbi, Davíð, Sigurgeir og svo fær kynnirinn hann Kristján Jóhannsson líka hlutverk. Stelpurnar mínar syngja hvor sitt lagið og radda og svo kemur vinkona mín hún Birta Sigurjónsdóttir og syngur eitt lag, mjög sérstakt - án texta.“

Sólmundur segist hafa ákveðið að stilla miðaverði á tónleikana í hóf til þess að fá sem flesta enda sé ekki auðvelt að vera óþekktur með stóra drauma.
„En það eru einhverjir sem þekkja til mín og vonandi koma bara sem flestir. Það er eins með þessa tónleika og plötuna sjálfa, engin ástæða til annars en að setja stefnuna þangað sem maður vill. Öðruvísi kemst maður ekki á áfangastað.“