Á einkatónleikum með Jeff Buckley
Davíð Örn Óskarsson saknar bumbuboltans og segir árið hafa verið eins og rússíbana.
— Nafn:
Davíð Örn Óskarsson.
— Fæðingardagur:
11. apríl 1986.
— Fæðingarstaður:
Fæddur og uppalinn í Keflavík.
— Fjölskylda:
Já, á þrjú falleg börn með yndislegri konu.
— Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Ég var alltaf mjög spenntur fyrir því að verða slökkviliðsmaður og vaða inn í brennandi hús.
— Aðaláhugamál:
Ég mundi segja að aðaláhugamál mitt í dag væri að spila bumbubolta og hef ég saknað þess virkilega undanfarnar vikur. Einnig hef ég brennandi áhuga á því að renna mér á snjóbretti en geri lítið af því. En aðaláhugamálið í dag er að vera skapandi og að hafa gaman.
— Uppáhaldsvefsíða:
Ég heimsæki oftast visir.is og svo VF.is þegar nýjasta tölublaðið kemur á netið, þar á eftir kemur karfan.is
— Uppáhalds-app í símanum:
Spotify á hug minn allan í símanum.
— Uppáhaldshlaðvarp:
Get ekki gert upp á milli Í ljósi sögunar, Endalínunnar og Fílalag.
— Uppáhaldsmatur:
Ætli það sé ekki heimatilbúna pítsan sem konan gerir.
— Versti matur:
Grjónagrautur.
— Hvað er best á grillið?
Halloumi-ostur og lambakonfekt
— Uppáhaldsdrykkur:
Kristall Lime, þessi græni.
— Hvað óttastu?
Að vera fljótandi á opnu hafi og vita ekki hvaða sjávardýr leynast fyrir neðan.
— Mottó í lífinu:
A clean desk is the sign of a sick mind
— Hvaða mann eða konu úr mannkynssögunni myndir þú vilja hitta?
Ég mundi vilja vera á einkatónleikum með Jeff Buckley og gott partý eftirá.
— Hvaða bók lastu síðast?
50 ways to beat a Hangover.
— Ertu að fylgjast með einhverjum þáttum í sjónvarpinu?
Nei, ekki beint að fylgjast með neinum sérstökum í línulegri dagskrá
— Uppáhaldssjónvarpsefni:
Heimildarmyndir og spennutryllar.
— Fylgistu með fréttum?
Já, ég fylgist mjög vel með fréttum á neti og í útvarpi, svo horfi ég á kvöldfréttir.
— Hvað sástu síðast í bíó?
Sonic the hedgehog
— Uppáhalds-íþróttamaður:
Ég horfði mikið upp til MJ en í dag er engin sérstakur íþróttamaður uppáhalds.
— Uppáhaldsíþróttafélag:
Keflavík.
— Ertu hjátrúarfullur?
Nei, get því miður ekki sagt það.
— Hvaða tónlist kemur þér í gott skap?
Góð 70’s Rock-tónlist
— Hvað tónlist fær þig til að skipta um útvarpsstöð?
Ég er algjör alæta á tónlist og get hlustað á hvað sem er en það eru tvær hljómsveitir sem ég nenni ekki að hlusta á það eru U2 og Metallica.
— Hvað hefur þú að atvinnu?
Ég starfa sem markaðsstjóri Blue Car Rental.
— Hefur þú þurft að gera breytingar á starfi þínu vegna COVID-19?
Já, í þessu ástandi sem hefur skapast þá höfum við þurft að nýta okkur úrræði ríkisstjórnarinnar og farið í lægra starfshlutfall rétt eins og öll önnur fyrirtæki sem starfa ferðamannabransanum.
— Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?
Þetta ár hefur verið mikill rússíbani og mikið gengið á. Ég hef þó náð að halda haus og horfa með jákvæðni til framtíðar og reynt eftir fremsta megni að vera rólegur, sérðu ekki hvað ég er rólegur. Viðurkenni þó að daginn sem Trumparinn tilkynnti lokun Bandaríkjanna og stóri jarðskjáftinn reið yfir Suðurnesin þá hélt ég að heimsendir væri í nánd, ég var lítill þá – en annars bara mjög góður.
— Er bjartsýni fyrir sumrinu?
Já, bjartsýni fyrir góðu veðri og samveru með fjölskyldunni.
— Hvað á að gera í sumar?
Ætla að skella mér í húsbílaferðalag og heimsækja vestfirði meðal annars og ferðast um landið mitt.
— Hvert ferðu í sumarfrí?
Mun væntanlega eyða því á Íslandi, vonandi þegar það fer að hausta aftur að maður skelli sér kannski í smá ferð erlendis, hver veit?
— Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?
Ætli ég mundi ekki fara með þá á Villa svo rúnta með þau út á Reykjanesskaga og enda í Sandvík í sólbaði og smá sundsprett í sjónum. Nema þau þyrftu að fara ein í sjóinn því ekki fer ég þangað.