Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Á áttræðisaldri og gefa út hljómplötu
Þriðjudagur 30. júní 2020 kl. 09:21

Á áttræðisaldri og gefa út hljómplötu

– Hjónin Þorsteinn Eggertsson og Fjóla Ólafsdóttir eru að gefa út hljómplötu. Keflvíkingurinn Þorsteinn á að baki hundruð lagatexta en hefur ekki gefið út lög áður.

Það er ekki á hverjum degi sem hjón á áttræðisaldri gefa út hljómplötu en Þorsteinn Eggertsson og kona hans, Fjóla Ólafsdóttir, eru að gefa út hljómplötu sem heitir „Ég á mér líf“ og verður gefin út í vínyl og á geisladiski. Þorstein þekkja flestir landsmenn sem textahöfund við mörg þekkt lög, ekki síst samstarf hans við Keflavíkurbítlana, sjálfa Hljóma, en líka marga aðra. Fjóla sýnir á þessari plötu að hún kann ýmislegt fyrir sér í tónlist.

HÉR MÁ LESA VIÐTALIÐ Í VÍKURFRÉTTUM OG SJÁ MYNDSKEIÐ - SMELLIÐ TIL AÐ LESA!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorsteinn hefur samið yfir eitt þúsund lagatexta og meira en helmingur þeirra hefur verið gefinn út. Hver man ekki eftir „Er ég kem heim í Búðardal“ frá fyrri tímum en „Söngur um lífið“ í flutningi Rúnars Júlíussonar og síðar Páls Óskars er eitt af þeim lögum sem hefur heyrst mikið á öldum ljósvakans undanfarin ár en þann texta samdi Þorsteinn og þar kom hann meira að segja nafni sínu inn í hann:

... Og ef þú vilt fá skammt að ánægju’ og gleði og hamingju von.
Þá ættir þú að hlusta á texta eftir hann Þorstein Eggertsson.

„Efnið á plötunni er allt eftir okkur tvö. Þar eru tíu lög, flest splunkuný, eftir Fjólu og tvö eftir mig, en lög eftir mig hafa ekki komið út áður á hljómplötum. Bara hundruð texta við lög eftir ýmsa. Ég á líka tíu texta á þessari afurð,“ segir Þorsteinn og bætir við að yrkisefnið sé sótt í ýmsar áttir.

„Lögin á plötunni eru allskonar, allt frá hressu rokki að sorgarsögum, gríni og öllu mögulegu. Yrkisefnið er sótt í ýmsar áttir, meðal annars til Suðurnesja.“

– Hvað kemur til að þið eruð að gefa út plötu?

„Við Fjóla höfum lengi skemmt okkur við að setja eitthvað saman; lög og texta en aðallega að gamni okkar. Svo bauð Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, sem rekur veitingastaðinn Hannesarholt í Reykjavík, okkur að skemmta þar. Þá datt okkur í hug að hljóðrita nokkur lög í hljóðveri Vilhjálms Guðjónssonar og úr varð þessi afurð. Vilhjálmur spilar t.d. á 24 hljóðfæri á plötunni.“

– Þú hefur verið öflugur textahöfundur en ertu þarna að semja lög í fyrsta sinn?

„Nei, reyndar ekki. Ég er búinn að semja fullt af lögum í gegnum tíðina, alveg frá því upp úr 1960 en Fjóla vildi endilega að ég ætti svona eitt, tvö lög þarna.“

– Hvernig stendur á því að þú gerðir ekki lög í öll þessi ár, bara hundruð texta?

„Ég geri bara texta eftir pöntunum og hef aldrei verið beðinn um lag.“

– Hvað finnst þér um að lög sem þú samdir texta við hjá okkar þekktustu tónlistarmönnum lifa enn góðu lífi?

„Mér finnst það bara gott mál. Það eru nefnilega bara vinsælustu lögin sem eldast. Það sem er ekki nógu gott gleymist yfirleitt fljótlega.“

– Hvað er eftirminnilegast í Keflavíkurtónlistinni þegar þú lítur til baka?

„Það er líklega hljómsveitin Beatniks, sem ég stofnaði, ásamt fjórum vinum mínum, árið 1961. Við spiluðum aðallega á veitingastaðnum Víkinni, á horni Faxabrautar og Hafnargötu, en við spiluðum víðar og komum meira að segja tvisvar fram í Kanasjónvarpinu. Við entumst í þessu í tvö ár en þá fór ég að stúdera myndlist í Kaupmannahöfn. Skömmu síðar skall Bítlaæðið svokallaða á. Ég kynntist því, þess vegna, í Danmörku – og sumarið 1964 var ég farin að syngja sem skemmtikraftur með dönskum hljómsveitum í Kaupmannahöfn, hingað og þangað á Sjálandi og víðar.“

– Áttu þér eftirlætistexta frá ferlinum?

Nei, það held ég ekki. Smekkurinn breytist frá degi til dags en stundum stendur það nýjasta uppúr, meðan það er ferskt. Þessa dagana er ég t.d. mjög ánægður með það sem Fjóla syngur á plötunni.