Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

88Húsið opnar á föstudag: IDOL í beinni á breiðtjaldi um kvöldið
Miðvikudagur 7. janúar 2004 kl. 16:46

88Húsið opnar á föstudag: IDOL í beinni á breiðtjaldi um kvöldið

Á föstudag verður H-88, menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ opnuð formlega. Meðal þeirra sem komið hafa að undirbúningi að opnun hússins er húsráð en í því eiga sæti fulltrúar frá nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, fulltrúi úr atvinnulífinu og áhugasamir unglingar. Víkurfréttir litu í heimsókn á dögunum í H-88 þar sem iðnaðarmenn voru að störfum við að gera húsið klárt fyrir opnunina.
Runólfur Sanders er formaður húsráðs og segir hann að húsráðið sjái um að skipuleggja viðburði. „Við höfum verið að skipuleggja viðburði fram í tímann og það verður margt að gerast í húsinu,“ segir Runólfur, en einnig verður settur upp hugmyndakassi þar sem ungt fólk getur komið með hugmyndir að uppákomum.
Krakkarnir í húsráðinu segja að það hafi verið mikil þörf fyrir slíkt hús í Reykjanesbæ. „Það hefur ekkert verið að gera fyrir 16 ára og eldri í mörg ár í bænum,“ sagði Ingibjörg Ósk og hún er mjög ánægð með miðstöðina. Meðal þess sem húsráðið hefur verið að skipuleggja eru hljómsveitarkvöld, trúbadorakvöld, kaffihúsakvöld, billjardmót, streetball keppni í sumar, útitónleikar, aðstaða fyrir netkaffi, tölvu- og leikjaaðstaða og fjölmargar aðrar uppákomur.
Opnun hússins hefst klukkan 17:00 á föstudag og meðal þeirra sem munu koma fram eru Árni Sigfússon bæjarstjóri sem tekur lagið, Bjarni töframaður verður með atriði og Rúnni Júl tekur lagið. Um kvöldið verður síðan horft á Idol keppnina á breiðtjaldi í H-88.


VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Hluti af húsráði H-88: F.v. Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir, Arnar Már Halldórsson, Ari Ólafsson, Runólfur Sanders og Davíð Örn Óskarsson. Á myndina vantar Arnar Inga Tryggvason, Dóru Lilju Óskarsdóttur og Lilju Guðmundsdóttur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024