80 KÍLÓ AF KÆRLEIKSKLINKI
Landsbanki Íslands stóð fyrir söfnun „kærleiksklinks“ fyrir nokkru. Safnað var erlendri smámynt fyrir Umhyggjufélag langveikra barna og söfnuðust u.þ.b. 80 kg. af smámynt. Stúlknakór Tónlistarskólans í Keflavík, sem er á leið á kóramót í Washington D.C í Bandaríkjunum, flokkaði myntina í síðustu viku. Kórinn gerði þetta í fjáröflunarskyni og til að uppfylla ákveðin þátttökuskilyrði kóramótsins en þess er krafist að hver kór vinni góðverk til hjálpar bágstöddum. Verkið tók dágóða stund og samtals flokkuðu stúlkurnar mynt í 8 klst. Kærleiksklinkið verður nú sent erlendis og þar skipt í íslenskar krónur.