80 ára afmælishátíð Þróttara tókst vel
Þann 23. október 1932 var Ungmennafélagið Þróttur í Vogum á Vatnsleysuströnd stofnað og varð félagið því 80 ára í liðinni viku.
Félagið hélt upp á afmælið á laugardag með því að bjóða öllum íbúum sveitarfélagsins og gömlum Þrótturum í afmælishátíð í íþróttamiðstöðinni í Vogum þar sem boðið var upp á skemmtiatriði og kökur og kaffi fyrir alla. Það var góð mæting hjá bæjarbúum og nokkrir gamlir brottfluttir Þróttarar létu líka sjá sig.
Formaður Þróttar, Kristján Árnason flutti ávarp sem og Hanna Helgadóttir frá Kvenfélaginu Fjólu og Kristinn Björgvinsson frá Björgunarsveitinni Skyggni. Einnig flutti Einar Haraldsson formaður Keflavíkur ávarp og kom inn á í ræðu sinni að sveitarfélagið, stuðningsmenn, foreldrar og þeir sem koma að félaginu þyrftu að standa saman svo félagið haldi áfram að vaxa og dafna.
Undirritaður var samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Þróttar. Félagið fékk margar góðar gjafir á afmælisdeginum t.d. frá Lions, Þorbirni, ÍS, Golfklúbbi Vatnsleysustrandar, Skyggni, sveitarfélaginu, Kvenfélaginu Fjólu, Vífilfelli og Landsbankanum. Einnig fengu Guðmundur Brynjólfsson, Guðmundur Franz Jónason, Gunnar Helgason, Helgi Hólm, María Jóna Jónsdóttir, Magnús Hauksson og Marteinn Ægisson heiðursverðlaun fyrir störf sín í þágu félagsins.
Félagið gaf út sérstakt afmælisblað í tengslum við hátíðina þar sem saga þess er rakin og spjallað var við nokkra félaga fyrr og nú. Félagið tók í notkun fyrr á þessu ári nýtt keppnis- og æfingasvæði og var það algjör bylting fyrir knattspyrnustarfið hjá félaginu. Í dag eru 3 deildir hjá félaginu, starfandi júdódeild, sunddeild og knattspyrnudeild og iðkendur á annað hundrað sem telst nokkuð gott í svona litlu samfélagi.
Ljóst er að framtíðin er björt hjá félaginu.