Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

70 ára afmæli Iðnaðarmannafélags
Föstudagur 5. nóvember 2004 kl. 13:49

70 ára afmæli Iðnaðarmannafélags

Þann 21. október árið 1934 kvaddi maður að nafni Sigmundur Þorsteinsson nokkra starfsbræður sína til fundar til þess að ræða möguleika á stofnun Iðnaðarmannafélags. Þann fund sátu auk Sigmundar, þeir Þórarinn Ólafsson, Skúli H. Skúlason og nokkrir aðrir iðnaðarmenn. Voru þessir þrír áðurnefndir menn kosnir í undirbúningsnefnd og skyldu þeir vinna að stofnun félagsins. Ekki sátu þessir menn aðgerðarlausir því aðeins tveimur vikum seinna voru þeir búnir að afla gagna til að semja lög félagsins og ýmislegt annað sem til þurfti. Hinn 4. nóvember árið 1934 boðaði undirbúningsnefndin til fundar í gamla barnaskólanum í Keflavík þar sem formlega var gengið frá stofnun félags er bar fyrst nafnið Iðnaðarmannafélagið í Keflavík, síðar Iðnaðarmannafélag Keflavíkur. Árið 1958 var nafninu breytt í Iðnaðarmannafélag Suðurnesja.

Fyrsti formaður félagsins var Þórarinn Ólafsson trésmiður og í stjórn með honum voru þeir Guðmundur Skúlason, Skúli H. Skúlason, Sigmundur Þorsteinsson og Guðni Magnússon. Alls sátu nítján iðnaðarmenn stofnfundinn, gerðust stofnfélagar og undirrituðu stofnlögin. Á næstu tveim fundum bættust fjórir félagar við og töldust þeir líka stofnfélagar. Stofnfélagar voru því taldir 23 og komu þeir úr níu starfsgreinum. (heimildir Iðnaðarmannatal Suðurnesja).

Um miðjan áttunda áratuginn fór að draga úr fundarsókn og áhugi á félaginu sem slíku varð nánast að engu. Reynt var að halda árshátíðir sem gengu mjög vel og nokkur ár en síðan dvínaði áhuginn á þeim líka og má þá segja að fljótlega upp úr 1990 hafi ekki neinn áhugi verið á félaginu og voru félagar löngu hættir að borga útsenda gíróseðla fyrir félagsgjöldum. Félagið átti húseign að Tjarnargötu í Keflavík en stjórn sú er var þá fékk heimild til að selja eignina og var hún seld þar sem engin innkoma var hjá félaginu og enginn peningur eftir í sjóðum til að viðhalda eigninni eða borga af henni skatta og skyldur. Sá tími sem liðinn er frá sölunni hefur verið nánast engin starfsemi - aðeins nokkrir stjórnarfundir á ári og hafa peningarnir aðeins vaxið á þessum tíma. Fyrir nokkrum árum var gefinn rennibekkur í Málmdeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Nú á þessum tímamótum félagsins hefur verið ákveðið að efna til afmælishátíðar og verður af því tilefni boðið til kaffisamsætis sunnudaginn 7. nóvember klukkan 14:00 í Kirkjulundi. Öllum iðnaðarmönnum á svæðinu (hvort sem þeir voru meðlimir í félaginu eða ekki) ásamt mökum er boðið að koma og þiggja veitingar. Vonast stjórnin til að sjá sem flesta á þessum merku tímamótum og þá helst sem  flesta af fyrrverandi félögum í Iðnaðarmannafélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024