61 útskrifaðist frá haustönn í FS
Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram í gær. Að þessu sinni útskrifaðist 61 nemandi; 52 stúdentar, 6 úr verknámi og þrír meistarar. Karlar voru 29 og konur 32. Alls komu 44 úr Reykjanesbæ, 6 úr Grindavík, 4 komu úr Garði og tveir úr Vogum. Auk þess komu tveir frá Breiðdalsvík og einn frá Ísafirði, Húsavík og Reykjavík.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Ingunn Þorsteinsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ragnheiður Ásta Þorvarðardóttir kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en það voru nýstúdentarnir Guðmann Rúnar Lúðvíksson og Silvía Rut Ástvaldsdóttir sem sungu við undirleik Aleksöndru Patik.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Birna Marín Aðalsteinsdóttir, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Árni Jóhannsson fengu öll viðurkenningu fyrir góðan árangur í bókfærslu, Laufey Ósk Andrésdóttir og Heiða Hrönn Hrannarsdóttir fyrir spænsku, Silvía Rut Ástvaldsdóttir fyrir leiklist, Íris Björk Ármannsdóttir fyrir árangur sinn í sögu og Sindri Þrastarson fyrir efnafræði. Ingunn Þorsteinsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í efnafræði og líffæra- og lífeðlisfræði. Guðjón Hlíðkvist Björnsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði og fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði. Ástrós Skúladóttir fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og hún fékk auk þess viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í íslensku spænsku, dönsku, líffæra- og lífeðlisfræði, efnafræði og stærðfræði .
Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Að þessu sinni fengu Aníta Eva Viðarsdóttir, Birna Helga Jóhannesdóttir, Guðný Inga Kristófersdóttir og Elisabetta Rasha allar 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku í lífsleikniáföngum.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Magnús Bjarni Baldursson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Það var Ástrós Skúladóttir sem fékk viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 100.000 kr. styrk frá Sparisjóðnum. Ástrós fékk einnig gjafir frá Sparisjóðnum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum, íslensku og erlendum tungumálum.
Magnús Bjarni markaðsstjóri spkef afhenti Ástrósu gjafir fyrir frábæran árangur.
Séð yfir salinn í FS, nýstúdentar fremst. Kristján Ásmundsson, skólameistari að neðan.