Mannlíf

60 ár frá opnun Bókasafns Reykjanesbæjar
Föstudagur 19. janúar 2018 kl. 07:00

60 ár frá opnun Bókasafns Reykjanesbæjar

Árið 2018 er merkisár fyrir Bókasafn Reykjanesbæjar. Þann 7. mars verður Bókasafn Reykjanesbæjar 60 ára og er þar með elsta opinbera stofnun bæjarins.
Bæjar- og héraðsbókasafn Keflavíkur var opnað formlega þann 7. mars árið 1958 og starfaði sjálfstætt til ársins 1994. Þá sameinuðust Hafnir, Keflavík og Njarðvík í eitt sveitarfélag og í kjölfarið voru Bæjar- og héraðsbókasafn Keflavíkur, Lestrarfélagið í Höfnum og Bókasafn Njarðvíkur sameinuð í Bókasafn Reykjanesbæjar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við opnun safnsins á Mánagötu 7 árið 1974.

Bókasafn Reykjanesbæjar, líkt og önnur bókasöfn, hefur gengið í gegnum miklar breytingar og má segja að starfsemi þess hafi gengið í gegnum endurnýjun lífdaga í nokkur skipti. Eitt er það þó sem ávallt heldur velli en það er kjarninn. Kjarninn er að sjálfsögðu að lána bækur og hvetja fólk á öllum aldri til lesturs. Hvort sem það eru gamlar bækur, nýjar bækur, fræðibækur, léttlestrarbækur eða rafbækur. Kjarnann stefnum við að því að varðveita og hlúa að þó svo að umgjörðin taki margs konar breytingum.

Börn í sögustund á Bókasafninu þegar það var við Hafnargötu.

Á þessum tímamótum notum við samt tækifærið og lítum í eigin barm því við viljum alltaf gera betur. Rafræn þjónustukönnun er opin um þessar mundir og myndi það hjálpa okkur mikið ef sem flestir gæfu sér tíma til að svara henni. Hlekk á könnunina má nálgast á heimasíðu safnsins og Facebook síðu okkar. Markmiðið er að vinna með nærsamfélaginu með þátttöku íbúa.

Frá opnun sýningar í Átthagastofu um Jamestown strandið. F.v. Jón Marínó Jónsson, Eyþrúður Ragnheiðardóttir, Helga Margrét Guðmundsdóttir og Tómas Knútsson.

Við gleymum þó alls ekki að fagna og njóta þessara merku tímamóta. Við stefnum að því að nýta hvert tækifæri sem gefst allt árið um kring. Á afmælisdaginn sjálfan verður blásið til veislu og við hvetjum alla að fylgjast vel með komandi viðburðum, sýningum, námskeiðum, nýjum bókum og öðru sem verður á döfinni hjá okkur á afmælisárinu.

Heimasíða bókasafnsins
Facebook síða bókasafnsins