500 manns sáu Tár úr steini
Allir nemendur skólahóps Hjallatúns fengu hlutverk í metnaðarfullri útskriftarsýningu.
Skólahópur leikskólans Hjallatúns sýndi á dögunum leikritið Tár úr steini. Myndast hefur venja í leikskólanum að setja upp leikrit fyrir útskriftarnemendur. Sýningarnar eru fjórar til fimm og allir fá mikilvæg hlutverk. Víkurfréttir litu við á sýningu.
„Það hefur myndast hefði í mörg ár að skólahópur, nemendurnir sem eru að klára, setji upp leikrit þar sem þau bjóða börnum í öllum hinum níu leikskólum í Reykjanesbæ að koma. Þetta hafa því verið um 4-5 leiksýningar. Ein er generalprufan fyrir leikskólann hér, tvær fyrir leikskólabörn (fimm skólar annan daginn og fjórir hinn). Svo er það yngsta deild Holtaskóla og svo foreldrar á útskriftardaginn. Yfir hundrað manns sem koma á hverja sýningu,“ segja Ingibjörg Jónsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri Hjallatúns og Íris Hilmarsdóttir, deildarstjóri yfir skólahóp í leikskólanum. 24 nemendur hópnum að þessu sinni.
Byggir mikið á söngvum
Unnið er með þennan hóp nemenda í málgreind allan veturinn þar sem lögð er áhersla á orðaforða. „Þar er notuð orðaspjallsaðferðin sem allir leikskólar í Reykjanesbæ tileinka sér. Áherslan er á orðaforða til að auka lesskilning. Þau eru búin að vera að stúdera þessa bók í kjölinn í vetur,“ segir Ingibjörg og bætir við að nauðsynlegt sé að búa til hlutverk svo að allir verði með. „Það er verið að leika hús, dranga, sól og annað. Við bætum við fleiri tröllum og svona og byggjum þetta mikið upp á söngvum og það er ekkert smá mikið sem reynir á þar.
Hjallatún fékk hvatningaverðlaun í fyrra fyrir að standa að svona sýningum. „Við ákváðum að fyrir verðlaunaféð yrðu keyptar og settar upp z-brautir og tjöld til að leikmyndir yrðu aðeins betri. Okkur langar með tímanum að geta líka keypt hljóðkerfi,“ segja Ingibjörg og Íris að lokum.