450 tóku á móti Grænfánanum fyrir hönd Akurskóla
- Mynduðu skrúðgöngu í gegnum bæinn.
390 nemendur og 60 starfsmenn Akurskóla gengu fylktu liði frá skólanum að Narfakotsseylu í blíðskaparveðri þegar Grænfáninn var afhentur í morgun. Þetta er í annað sinn sem Akurskóli fær Grænfánann. Nemendur efri deilda leiddu yngri nemendur; 10. bekkur leiddi 1. bekk, 9. bekkur leiddi 2. bekk o.s.frv.
Þegar hópurinn kom á áfangastað hrósaði Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri, nemendum fyrir hversu vel þeir stóðu sig í að halda hópinn á leiðinni og hversu góður hópur þau væru. Einn kennari hafði það á orði við blaðamann að árgangur 10. bekkjar þetta árið væri einstaklega góður. Kennarinn hafði kennt mörgum nemendum í þeim árgangi og héldi hvert ár að hún væri búin að ná toppnum hvað varðar góða nemendur.
Við afhendinguna fengu svo allir hressingu, sungu saman lagið Enga fordóma og gengu svo saman til baka til Akurskóla þar sem fáninn var dreginn að húni.
Víkurfréttir voru á staðnum og tóku meðfylgjandi myndir.
VF/Olga Björt