39 nemendur bökuðu eigin fermingartertu í skólanum
Í 8. bekk í Grunnskóla Grindavíkur gefst nemendum kostur á að taka valáfanga þar sem þau baka fermingartertu og skreyta með sykurmassa. Í ár er þetta í 6. skipið sem áfanginn er kenndur og sér Björk Sverrisdóttir heimilisfræðikennari um það. Nemendur mæta í 3 skipti, 4-6 í hóp og byrja á því að hanna tertuna, teikna hana upp á blað og ákveða liti. Síðan baka þau botnana og í síðasta tímanum er kremið lagað, sykurmassinn settur á og kakan skreytt. Frá þessu er greint á vefsíðu Grindavíkur.
Í fyrsta skipti sem þessi áfangi var í boði voru nemendur fjórir. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt og í ár voru það 39 nemendur sem völdu að baka sína eigin fermingartertu. Terturnar voru hver annarri glæsilegri og hægt er að sjá fleiri myndir á fyrrgreindri vefsíðu.