38 nemendur útskrifuðust frá Myllubakkaskóla
Skólaslit Myllubakkaskóla, skólaárið 2009 – 2010, fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans þriðjudaginn 8. júni. Að þessu sinni útskrifuðust þrjátíu og átta nemendur. Sönghópur, skipaður núverandi og fyrrverandi nemendum, undir stjórn Írisar Drafnar Halldórsdóttur og Þorvarðar Guðmundssonar hóf hátíðina með söng, Brynja Árnadóttir skólastjóri rifjaði upp atburði skólaársins og Ólöf Rún Halldórsdóttir hélt ræðu fyrir hönd nemenda. Alma Vestmann kvaddi 10. bekkinga fyrir hönd kennara og starfsfólks og Jóhann Kr. Steinarsson afhenti kennaraeplið, viðurkenningu kennara og starfsfólks.
Úr Minningarsjóði Vilhjálms Ketilssonar var veitt viðurkenning fyrir góðan námsárangur á lokaprófi úr grunnskóla en hana hlaut Bryndís Þóra Ásgeirsdóttir. Að auki hlaut stór hópur nemenda viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, ástundun og hegðun. Kennaraeplið hlaut að þessu sinni Konráð Ólafur Eysteinsson fyrir að vera alltaf glaður og vinveittur félagi í góðum hópi en jafnan ríkir mikil eftirvæting meðal nemenda þegar kemur að þessari viðurkenningu. Í lokin sungu nemendur og starfsfólk skólans kveðjusöng fyrir Brynju Árnadóttur skólastjóra þar sem þetta voru hennar síðustu skólaslit í Myllubakkaskóla.
Efsta mynd: Sönghópurinn vakti mikla hrifningu viðstaddra.
Að neðan: Bryndís Þóra Ágeirsdóttir og Konráð Ólafur Eysteinsson hlutu viðurkenningar.