Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:32

30.000 GESTIR Í NÝJA BÍÓ!

Ár frá því að Nýja bíó í Keflavík var gert að einum glæsilegasta kvikmyndasal á Íslandi: Fyrsta SAM-bíóið Davíð Smári Jónatansson er rekstrarstjóri Nýja-Bíós í Keflavík sem er í eigu Árna Samúelssonar og Guðnýjar, eiginkona hans en þau reka þau ásamt börnum sínum SAM-bíóin sem eru fjögur að tölu með Nýja-bíói. Davíð segir að Nýja-bíó sé í raun fyrsta SAM-bíóið því afi Guðnýjar, Eyjólfur Ásberg, byggði það árið 1947. Síðar byggðu þau Bíóhöllina við Álfabakka í Breiðholti árið 1983 og uppúr því urðu SAM-bíóin til. Davíð tók við rekstri Nýja bíós 1994 en þá hafði aðsóknin dregist verulega saman. Davíð segir niðursveifluna á Íslandi hafa hafist með vídeóvæðingunni en Árna hafi tekist að rífa bíómenninguna upp í Reykjavík með því að byggja Bíóhöllina og taka nýjustu myndirnar til sýningar á Íslandi í stað þess að vera með 1-2 ára gamlar myndir eins og tíðkaðist áður. „Hér eins og annars staðar á landinu gerðist lítið og bíóið sat að vissu leiti á hakanum“, segir Davíð. Rifu reksturinn upp „Þegar bíóin í Reykjavík fóru að sýna nýjustu myndirnar og bíóin urðu flottari þróaðist eðlilega sú lenska hér suðurfrá að fara allaf í bæinn í bíó. Aðsóknin var hér var fremur dræm og hugmynd okkar Björns Árnasonar, sonur Árna Sam., var að reyna að gera eitthvað fyrir bíóið“, segir Davíð. Hann og Björn byrjuðu fljótlega á nauðsynlegu viðhaldi. „Við létum klæða húsið að utan og gerðum aðrar breytingar sem sneru ekki beint að salnum og sýningunum en voru nauðsynlegar“, segir Davíð. Keflvíkingar vildu bíó „Árni og fjölskylda hafa alltaf haft mikinn áhuga á þessu bíói, þar sem það er upphafið af veldinu og hér ólst fjölskyldan upp. Björn Árnason vildi gera þetta aftur að því glæsilega bíói sem það áður var og fór að kanna kostnaðaliði, og það var helst honum að þakka að þetta fór af stað“, segir Davíð. En áður en lengra var haldið í breytingum og fjárútlátum létu þeir félagar gera skoðanakönnun í Keflavík á því hvort bæjarbúar vildu fá gott bíó í Keflavík eða hvort þeir vildu halda áfram að fara í bíó í bæinn. Niðurstaðan var sú að ljóst var að gott bíó í Keflavík var það sem fólkið vildi. Þá var ekkert annað að gera en láta slag standa. „Breytingarnar áttu ekki að vera svona miklar í upphafi, en þegar við byrjuðum þá var þetta svo spennandi að við ákváðum að fara alla leið“, segir Davíð. Framkvæmdin „Björn hófst strax handa þegar búið var að ákveða að fara út í endurbætur á bíóinu. Einn daginn hringdi hann í mig og sagði að það væru menn á leiðinni sem ætluðu að mæla allt út og að ég ætti að loka bíóinu eftir viku því að nú ætti að fara að brjóta niður. Þetta var um miðjan nóvember í fyrra. Mánuði síðar, þann 18.des, var síðan hátíðleg opnun. Þá hafði salurinn fengið andlitslyftingu. Hann var allur klæddur upp á nýtt, nýtt og helmingi stærra sýningartjald, fullkomnustu sýningarvélar og hljóðkerfi. Andyrið, sælgætissalan og salerni voru einnig tekin í gegn og er nú með því snyrtilegasta sem sést í kvikmyndahúsum landsins.“, segir Davíð. Frumsýningar og samstarf við önnur bíó Eftir þessar breytingar breyttust allar forsendir fyrir rekstri bíósins. „Nú sýnum við alla daga vikunnar, og frumsýnum allar stærri myndir á sama tíma og Reykjavík. Í þeim tilvikum sem það er ekki mögulegt þá fáum við oftast nokkrar sýningar á undan bíóunum í Reykjavík. Þetta hefði ekki verið mögulegt fyrir breytinguna þar sem kostnaðarsamt er að fá aukaeintök af myndum. Hin kvikmyndahúsin í Reykjavík hafa einnig sýnt áhuga á að frumsýna hjá okkur. Við frumsýndum t.d. Star Wars frá Skífunni, Big Daddy frá Stjörnubíói og Rush Hour í eigu Laugarásbíós. Allt hefur þetta hjálpað okkur að veita betri þjónustu. Yfirleitt sýnum við tvær myndir í viku, en ef myndirnar eru frumsýndar eru þær í 1-2 vikur og svo fara myndirnar strax útá land“, segir Davíð. 300% meiri aðsókn Betra bíó og nýrri myndir hafa skilað sér í 300% aukningu á aðsókn á aðeins einu ári, sem hlýtur að teljast met. „Við hefðum ekki getað aukið þjónustuna á þennan hátt ef aðsóknin hefði ekki margfaldast. Við erum virkilega þakklátir og ánægðir með aðsóknina á árinu“, segir Davíð og bætir við að gaman sé að sjá hvað aldurshópurinn er breiður. „Hingað kemur hjónafólk jafnt sem yngra fólk. Umgengnin er líka orðin allt önnur því bíógestir bera nú meiri virðingu fyrir bíóinu“, segir Davíð. Schwarzenegger og Tarzan í jólaskapi Jólamyndirnar í Nýja-bíói í ár verða End of Days með Schwarzenegger og Deep Blue See, en þær verða báðar frumsýndar í Keflavík. Börn eru líka fólk og finnst ekki síður gaman að fara í bíó en stóra fólkinu, en barnamyndirnar eru Iron Giant, eða Járnrisinn, og Tarzan. Báðar myndirnar eru talsettar. „Í janúar munum við frumsýna 13th Warrior með Antonio Banderas en það er spennumynd eftir sama höfund og gerði Jurasic Park“, segir Davíð en fleiri frumsýningar eru á dagskrá sem ekki hafa enn verið dagsettar. Fullkominn ráðstefnu og fundarsalur Hlutverk bíósalarins verður fjölþætt í framtíðinni því stefnan er að bjóða hann út fyrir ráðstefnur og fleira. „Við erum með fullkominn tölvubúnað, fyrir ráðstefnur og stærri fundi, þ.e. tölvutengdan myndvarpa og gott hljóðkerfi. Salurinn er því mjög hentugur fyrir ráðstefnur og fyrirlestra“, segir Davíð en í fyrra setti Brúðuleikhúsið upp sýningu í húsinu sem kom vel út. Davíð vill að lokum þakka Sparisjóðnum í Keflavík fyrir gott samstarf og hvatningu og viðskiptavinunum fyrir stórkostlegar móttökur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024