25 ára afmælistónleikar Léttsveitarinnar
Um þessar mundir eru 25 ár frá því Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var stofnuð. Það var annar af forverum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Tónlistarskólinn í Keflavík, sem kom sveitinni á laggirnar og ekki leið á löngu þar til Léttsveitin fór að vekja athygli út fyrir bæjarfélagið, enda er hún fyrsta stórsveitin sem var og er alfarið skóla-stórsveit.
Í tilefni af þessu merkisafmæli, efnir Tónlistarskólinn til sérstakra 25 ára afmælistónleika Léttsveitarinnar, þriðjudaginn 21. maí kl. 20.00 í Stapa, Hljómahöllinni.
Á tónleikunum mun Léttsveitin koma fram eins og hún er skipuð í dag og leika afar fjölbreytta, spennandi og skemmtilega efnisskrá, en auk þess hafa fyrrum félagar Léttsveitarinnar verið kallaðir saman sérstaklega af þessu tilefni og munu þeir spila nokkur lög sem „Léttsveitin Gömlu brýnin“ og það verður örugglega bráðskemmtilegt að heyra í þeirri stórsveit.
Stjórnandi Léttsveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur frá upphafi verið Karen Janine Sturlaugsson, fyrir utan Ólaf Jónsson og Eyþór Inga Kolbeins sem stjórnuðu sveitinni í einn vetur hvor.
Það má enginn láta þessa tónleika fram hjá sér fara. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnnir.