Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

19 heklandi listamenn sýna í Listatorgi
Miðvikudagur 23. júní 2010 kl. 18:19

19 heklandi listamenn sýna í Listatorgi


Mjög athyglisverð sýning verður opnuð á Listatorgi laugardaginn 26. júní, sem kemur frá höfuðborginni en sýning þessi var upphaflega opnuð í Herberginu í Kirsuberjatrénu í Reykjavík síðastliðinn mánuð. Þetta er farandsýning um landið en fyrsti viðkomustaður er í Listatorgi Sandgerðisbæ.
 
Halldóra Emilsdóttir, myndlistarkona í Reykjavík, á hugmyndina að sýningunni en hún vildi safna saman heklandi listafólki, sem var tilbúið að hekla mynd undir ákveðnum skilyrðum, sem voru að verkið ætti að vera mynd í stærðinni 25x25cm.
 
Útkoman er stórskemmtileg sýning nítján listamanna, karls og kvenna, með 30 myndverk. Mjög ólík efnistök og nálgun eru hjá listafólki á verkefninu, sem sýnir um leið sköpunarkraft hópsins svo um munar.
 
Sýnendur eru listamenn og handverksfólk frá Reykjavík, Stykkishólmi, Flúðum, Hafnarfirði, Akureyri og víðar af landinu. Stórskemmtileg sýning, sem áhugafólk um listir má alls ekki missa af.
 
Sýningin „Heklað í herberginu” opnar laugardaginn 26.júní og stendur til sunnudagsins 4.júlí. Allir hjartanlega velkomnir!
 
Listatorg er opið alla daga vikunnar frá klukkan 13:00 til 17:00.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024