1818 góðan daginn
Situr við símann um helgina
Víkurfréttir spurðu nokkra Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar.
Sveinbjörg Anna Karlsdóttir frá Sandgerði er nemi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Þessa verslunarmannahelgi mun hún standa vaktina hjá 1818.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Ég ætla að standa vaktina hjá 1818 og veita landsmönnum upplýsingar um allt og ekkert. Á laugardeginum ætla ég reyndar að fara og hitta gamla vinahópinn úr FS og við ætlum að gæða okkur á góðum mat saman.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Ég hef nokkrum sinnum verið erlendis yfir verslunarmannahelgina og tróna þær á toppnum yfir eftirminnanlegar verslunarmannahelgar, en þær ná ekki með tærnar þar sem upplifun af fyrstu Þjóðhátíðinni hefur hælana. Fór á mína fyrstu í fyrra á sunnudagskvöldinu og það er eitthvað sem ég ætla að gera aftur.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það skiptir engu máli hvert maður fer eða hvað maður gerir meðan maður er með fólki sem manni þykir vænt um, getur haft gaman með og á skemmtilegum stað. Númerið hjá Eyjataxa er 6982038. Þetta númer og fleiri upplýsingar þá svara ég ykkur alla helgina. Gangið hægt um gleðinnar dyr og skemmtið ykkur fallega.